Meðferð opinberra mála

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:37:33 (6511)

2004-04-16 11:37:33# 130. lþ. 98.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það vekur nokkra athygli að nú skuli vera talið nauðsynlegt að breyta ákvæðum tiltölulega mjög nýlega endurskoðaðra laga um meðferð opinberra mála hvað varðar bæði meðhöndlun málsgagna sem lögregla hefur undir höndum og eins hvað varðar að opna fyrir heimildir til að hefja símhlerun án fyrirliggjandi dómsúrskurðar. Nú eru lögin sjálf ekki ýkja gömul og ef ég man rétt voru einmitt þessi ákvæði til skoðunar við endurskoðun þeirra laga fyrir um tveimur árum að aflokinni mikilli vinnu nefndar sem hafði, ef ég man rétt, farið yfir þau mál. Það þarf því auðvitað að rökstyðja að mínu mati nokkuð vel að það séu svo brýnar ástæður sem kalli á að gera þarna breytingar á mjög viðkvæmum hlutum að undan því verði ekki vikist. Ég ætla ekki að hafna því fyrir fram í engu tilviki af þeim sem hér eiga undir í frv. en hafði þó hugsað mér að gera einmitt að umtalsefni svipuð atriði í því efni og hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Reykv. n., gerði.

Fyrra atriðið varðar það að lögregla geti nú neitað verjanda aðgangi að einstökum skjölum eða öðrum gögnum ef hún, þ.e. lögreglan, telji að það geti torveldað eða skaðað rannsókn máls, og það ótímabundið. Að vísu má bera slíka synjun undir dómara og þarf kannski varla að taka slíkt fram, það er sjálfsagður hlutur. En þarna er sem sagt opnað fyrir það að slíkum gögnum sé haldið frá verjanda og sakborningi, þess vegna svo vikum eða mánuðum skiptir, og það hljóta auðvitað að þurfa að vera ærin rök fyrir slíku. Ég treysti mér ekki út í vangaveltur um hvort það stenst að hafa svona um þetta búið en ég hef heyrt það, eins og sjálfsagt fleiri, að skiptar skoðanir eru uppi um það meðal löglærðra manna hvort þetta stangist beinlínis á við grundvallarmannréttindaákvæði sem við höfum þjóðréttarlega undirgengist. Kannski sleppur það á grundvelli þess að slíka synjun má jafnan bera undir dómara og menn eiga þá þá leið til að ná rétti sínum og fá aðgang að gögnunum. En þarna hlýtur a.m.k. að mega velta fyrir sér hvort einhver tímamörk væru ekki eðlileg áfram ef þau teljast of þröng eins og þau hafa verið, að rýmka þau þá frekar en að fella þau alveg niður.

Síðara atriðið sem ég vil líka koma inn á eru breytingar í 6. gr. frv. sem varða það að heimilt sé án dómsúrskurðar að hefja símhlerun á grundvelli 68. gr. laganna, að þá geti handhafi ákæruvaldsins ákveðið símhlustun og aðrar aðgerðir sem í þeirri grein er fjallað um. Þarna er auðvitað opnað á ákaflega vandmeðfarna heimild svo ekki sé meira sagt. Og jafnvel þó að hún sé afmörkuð með þessum hætti í tíma og rúmi, að innan sólarhrings beri að fá úrskurð dómara, þá er það eitt og sér að lögreglan geti hafið slíkar aðgerðir án undangengins dómsúrskurðar mikið umhugsunarefni. Það vekur óhjákvæmilega upp spurningar um hvernig þá verði tryggt að slíkar heimildir séu ekki misnotaðar og það vekur upp spurningar um hvort einhvers konar eftirlitsfyrirkomulag verði þá að koma til sögunnar, eða hvort láta eigi nægja að innan sólarhrings sé það jafnan borið undir dómara.

Reyndar er textinn síðan nokkuð athyglisverður, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nú kemst dómari að þeirri niðurstöðu að ekki hafi átt að hefja aðgerð skv. 86. gr. og skal hann þá senda tilkynningu um það til dómsmálaráðherra.`` --- Punktur.

En hvað svo? Ber að skilja þetta svo að í þeim tilvikum að menn komist að því að ekki voru efni til þess að grípa til þessara aðgerða, ekki voru nægjanlega sterk rök fyrir því að hefja símhlerun, dómari hefði sem sagt synjað um slíkt ef þurft hefði að leita eftir heimildinni fyrir fram, gengur þá málið bara þannig fyrir sig að slík tilkynning er send til dómsmrh. og punktur? Það er von að spurt sé. Hvernig hyggst dómsmrh. bregðast við þá? Hvaða málsmeðferðarreglur verða þá mótaðar til að taka á slíku? Hvernig verður haft samband við lögregluna og hefur það eftirköst og af hvaða toga, ef svona hefur gerst? Mér finnst að það verði að svara þessu líka, það er ekki bara nóg að segja A í þessu máli.

Reyndar vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. af þessu tilefni: Hvernig er háttað framkvæmd þeirrar tilkynningarskyldu sem er til staðar í lögum um símhleranir, að þær hafi farið fram og þeim sé lokið? Er sú tilkynningarskylda virt? Getur hæstv. dómsmrh. fullvissað okkur um það? Ég vil svo sem ekkert fullyrða um það en í mín eyru hefur þeim sjónarmiðum verið lýst fyrir mér að menn hafi miklar efasemdir um að þeirri tilkynningarskyldu sé alltaf sinnt eins og vera bæri.

[11:45]

Ég held að það verði að umgangast þetta með hliðsjón af mikilvægi þess að lögregluyfirvöld og þeim sem rannsaka mál sé gert þetta kleift. Það verður að bregðast við því ef t.d. tæknin gerir það að verkum, eins og hér er látið að liggja, þ.e. að ný tækni í fjarskiptum, t.d. þráðlaust símasamband og fleira slíkt, skapi mönnum erfiðleika miðað við það sem áður var þegar einfaldara var að hlera hefðbundin símasamtöl um þráð. Menn gátu þá ekki eins auðveldlega skipt um númer eða tæki. Að sjálfsögðu þarf því að skoða þetta. En það verður líka að hafa það til hliðsjónar að símhlerun er ákaflega alvarleg innrás í einkalíf þess sem í hlut á og ekki bara þess sem meiningin er að hlera eða þess sem t.d. á viðkomandi símtæki heldur líka aðila sem geta verið í samskiptum við hann. Það er því miður oft og iðulega þannig að ýmsir sem viðkomandi aðila tengjast, t.d. fjölskylduböndum eða kunningjaskaparböndum en eru algerlega óviðkomandi því máli sem sætir rannsókn, verða þá óumflýjanlega því miður líka fyrir því að ráðist er inn í þeirra einkalíf, samtöl þeirra hleruð, þau tekin upp á bönd og jafnvel geymd. Minni ég þá á það sem við hæstv. dómsmrh. ræddum hér áðan um hvernig fara skuli með og geyma allar slíkar upplýsingar. Hlerun er sem sagt mjög mikil og alvarleg innrás í einkalíf viðkomandi aðila og alls óskyldir aðilar þeim málum sem rannsókn sæta eða liggja undir grun af einhverju tagi geta líka orðið þolendur í þeim tilvikum. Þetta verður að hafa í huga. Þess vegna verður að búa mjög vandlega um þessar heimildir og umgangast þær af mikilli alvöru.

Að síðustu vil ég nefna það að sporin hræða auðvitað dálítið í þessum efnum. Það þarf ekki að líta á það sem neina vantrú eða neitt vantraust á núverandi íslensk lögregluyfirvöld þó að það sé sagt sem rétt er, því miður, að sagan geymir mikið af upplýsingum um að með slíkar heimildir hafi menn farið offari. Nægir að vitna til stórfelldra ólöglegra símhlerana annars staðar á Norðurlöndunum á umliðnum áratugum sem núna hafa orðið uppvísar og orðið mikið umræðuefni, t.d. í Noregi, þar sem í rótgrónu lýðræðis- og þingræðisríki þar sem maður hefði nú ætlað að svona hlutir væru í lagi, kemur á daginn að svo seint sem --- ég held ég muni það rétt --- á sjöunda og áttunda, jafnvel fram á níunda áratug síðustu aldar, voru stundaðar stórfelldar ólöglegar persónunjósnir sem m.a. fólust í ólögmætum símhlerunum sem menn ástunduðu í skjóli ákveðinna heimilda til að rannsaka mál og jafnvel bara einfaldlega í hreinu leyfisleysi. Þarna er því saga og þarna eru spor sem hræða í þessum efnum. Svo er ekki endilega að mér sé kunnugt um slíkt hér á landi. En þar sem gerst hafa sannanlega atburðir af jafnalvarlegu tagi og þeir t.d. sem ég nefndi til sögunnar frá Noregi þá er ástæða til að ganga hægt um gleðinnar dyr.

Það sem menn hafa sums staðar gert í þessum efnum er ósköp einfaldlega að tryggja, setja eftirlit, sjálfstætt eftirlit með því hvernig með svona heimildir er farið. Sums staðar hafa þjóðþingin tekið það hlutverk að sér að hafa sérstaka nefnd sem hefur yfirumsjón með því að ekki sé farið offari með heimildir til persónuupplýsingasöfnunar í rannsóknarskyni eða vegna innri öryggismála ríkja. Einhvers konar eftirlits- eða kontrólnefnd er þá sett á laggirnar sem hefur aðgang að öllum upplýsingum um hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Hún er að sjálfsögðu bundin trúnaði um það sem hún kemst á snoðir um. En hún er þá einhvers konar sjálfstæður, óháður eftirlitsaðili og gæðastimpill á að menn beiti ekki slíkum heimildum óhæfilega og fari ekki offari á grundvelli þeirra heimilda sem þeir hafa að lögum til að stunda slíka starfsemi eins og að hlera símtöl eða safna persónuupplýsingum með öðrum hætti.

Herra forseti. Þetta finnst mér að við þyrftum að ræða og mætti gjarnan ræða í tengslum við þessi mál og ýmis fleiri. Kannski mun hv. allshn. þingsins fara ofan í saumana á þessu.

Ég get tekið undir það líka með hv. 3. þm. Reykv. n. að mér finnst að það mætti vera ítarlegri rökstuðningur hvað varðar bæði þessi ákvæði, ákvæði 1. og 6. gr. frv. Í þeim rökstuðningi mætti koma fram hvers vegna menn telja algjörlega óumflýjanlegt og nauðsynlegt að gera þessar breytingar nú jafnskömmu eftir að búið er að endurskoða þessa löggjöf og raun ber vitni.