Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 17. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 17  —  17. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rekstur Ríkisútvarpsins.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson,


Sigurjón Þórðarson, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að kjósa nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Nefndin ljúki störfum innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 126., 127. og 128. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt.
    Ríkisútvarpið er viðurkennd stoð íslenskrar tungu og menningar. Rekstur þess er ómissandi til að gefa almenningi kost á hvers konar fræðslu- og menningarefni sem aðrir ljósvakamiðlar vanrækja. Slíkur miðill getur ekki verið til öðruvísi en að vera í þjóðareign og fjármagnaður af almenningi úr ríkissjóði. Markaðslausnir geta ekki átt við starfsemi af þessu tagi. Hún er eðli málsins samkvæmt menningar- og fræðsluviðleitni þar sem sóknin eftir arðsemi verður að víkja fyrir mikilvægari markmiðum.
    Í samræmi við það miðar tillagan að því að Alþingi kjósi nefnd sem semji frumvarp til nýrra laga um Ríkisútvarpið. Nefndinni ber að semja frumvarpið innan þess stefnuramma sem hér fer á eftir:
     a.      Ríkisútvarpið á að halda áfram að vera til sem sjálfstæð og óháð stofnun í þjóðareign.
     b.      Horfið verði frá hugmyndum um sölu á Rás 2 frá Ríkisútvarpinu vegna þarfa landshlutaútvarps og annars efnis sem þykir æskilegt að aðgreina frá dagskrá Rásar 1.
     c.      Almannahagsmunir, ef vá ber að höndum, kalla eftir að Ríkisútvarpið, með sitt víðtæka dreifingarnet, sé ávallt tiltækt.
     d.      Ríkisútvarpið verði fjármagnað að fullu á fjárlögum ár hvert, t.d. innan ramma áætlunar eða þjónustusamnings til 3–5 ára í senn. Útvarpið hætti að flytja viðskiptaauglýsingar í samkeppni við aðra fjölmiðla, en flytji áfram tilkynningar frá opinberum aðilum, félagasamtökum og öðrum sambærilegum aðilum.
     e.      Ríkisútvarpið verði virkur fræðslumiðill, og bregðist þannig við vaxandi þörf fyrir símenntun og almenningsfræðslu, og verði lind og farvegur fyrir vakandi og frjóa samfélagsumræðu.
     f.      Ríkisútvarpið gæti að fjölbreytni í dagskrárgerð þannig að það, að öllu samanlögðu, mæti þörfum sem flestra landsmanna, m.a. með því að mismunandi rásir þjóni mismunandi hópum.
     g.      Dagskrárstefnan verði laus undan öllum markaðsáhrifum.
     h.      Gagnvirkni milli Ríkisútvarpsins og hlustenda varðandi dagskrárgerð er mikilvæg.
     i.      Ný skipan Ríkisútvarpsins þarf að sjá til þess að það verði raunverulega sjálfstætt þjóðarútvarp í stað þeirrar stofnunar sem er nú, þar sem flokkspólitísk áhrif og tengsl hafa verið ríkjandi.
     j.      Skipan og hlutverk útvarpsráðs verði með allt öðrum hætti en nú er. Yfir stofnunina verði sett allfjölmennt útvarpsráð, eins konar „akademía“, e.t.v. 15 manna sem valdir væru af samtökum og stofnunum í samfélaginu: úr menningar- og listaheiminum, af fræðslustofnunum, úr vísinda- og rannsóknargeiranum, af landsbyggðinni, frá al manna samtökum launþega og e.t.v. fleiri aðilum. Seta í útvarpsráði væri mikilsverð viður kenn ingar- og virðingarstaða sem eingöngu mundi veljast til hið hæfasta fólk með víða sýn yfir samfélagið. Ráðið hefði vel skilgreint verksvið og ákvæði megindrætti í dagskrárstefnu stofnunarinnar og verkaskiptingu milli Rásar 1, Rásar 2 og sjónvarpsins.
     k.      Ráðning útvarpsstjóra væri í höndum þessa útvarpsráðs. Stofnunin sjálf, þ.e. starfsfólk, og útvarpsráð, veldi í sameiningu útvarpsstjóra. Útvarpsstjóri hefði óskorað umboð til skipulagningar stofnunarinnar og til mannaráðninga og annars forræðis á rekstri, samhliða fullri ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar. Útvarpsráð hefði skilyrðislaust umboð til að setja útvarpsstjórann af ef því er ítrekað misboðið í því hvernig stofnunin hunsar þær ábendingar um dagskrárstefnu og rekstur sem ráðið setur fram.
     l.      Gætt verði fyllstu hlutlægni við val og flutning efnis og Ríkisútvarpið verði farvegur fyrir allar skoðanir.
    Uppi eru hugmyndir um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og þeim röksemdum beitt að stofnunin þurfi að geta brugðist skjótt við í samkeppni og verið fljót til ákvarðana. Hlutafélagsvæðing Ríkisútvarpsins er óþörf til að gefa stofnuninni slíkt svigrúm. Með lögum um stofnunina má gefa henni allt það umboð sem hún kann að þurfa á að halda til að vera jafnviðbragðsfljót til ákvarðana og hlutafélag getur verið. Breyting stofnunarinnar í hlutafélag gefur hins vegar til kynna að til greina kæmi að selja það hlutafélag. Minnsta vísbending í þá átt er að mati flutningsmanna beinlínis hættuleg fyrir íslenska menningu, fyrir öryggishagsmuni landsmanna og ekki hvað síst fyrir fjölmiðlaveröld landsins með tilliti til ríkjandi samþjöppunar í þeim geira og þess þroska lýðræðisins í landinu sem vænta má næstu ár og áratugi. Sú lýðræðisþróun yrði bæði heft og njörvuð niður ef frjálst Ríkisútvarp yrði lagt af. Ríkisútvarpið á þess vegna að halda áfram að vera til og tilvera þess er allri okkar samfélagsgerð og samfélagsþróun mikilvæg.
    Núgildandi fjármögnun Ríkisútvarpsins með afnotagjöldum og auglýsingatekjum er óviðunandi. Afnotagjöld eru að vísu ekki há með tilliti til þeirrar þjónustu sem stofnunin veitir, en rökin gegn skylduáskrift eru góð og gild. Sömuleiðis má segja að samkeppnin á auglýsingamarkaði við aðra ljósvakafjölmiðla sé alls ekki sanngjörn. Ríkisútvarpið nýtur í henni meðgjafar með afnotagjöldunum sem Stöð 2 nýtur að vísu einnig, en með eðlilegri markaðssetningu og sölu þjónustu sinnar. Hér þarf breyting að koma til. Ekki verður séð að önnur lausn sé til í stöðunni en sú að Ríkisútvarpið verði að fullu fjármagnað úr ríkissjóði á fjárlögum ár hvert og því um leið skákað út af auglýsingamarkaðnum.
    Gerð er tillaga um að viðskiptaauglýsingar verði felldar út úr dagskrá útvarpsins. Hins vegar er þörf félagasamtaka og opinberra stofnana fyrir að koma á framfæri tilkynningum til almennings of brýn til að þær megi fjarlægja úr útvarpinu.
    Útvarpið svarar ekki þeim gríðarlega áhuga sem nú speglast vetur eftir vetur í aðsókn almennings að hvers kyns fræðslu og símenntun á vegum ýmissa aðila. Fólk víðs vegar um land á ekki kost á þessari fræðslu og útvarpið, stundum sjónvarpið, eru hinir eðlilegu miðlar til að jafna þennan aðstöðumun. Sumir þéttbýlisbúar á suðvesturhorninu vilja líka fræðast, en eiga ekki heimangengt. Þá vantar ekki síður í dagskrána skipulega valið, vel gert og ígrundað efni um samfélag okkar, vandamál þess og viðfangsefni, pólitísk eða ópólitísk, eins og þau eru nú.
    Þjóðarútvarpi þarf að vera stýrt af hæfum fulltrúum fólksins í landinu. Þessi tillaga ber með sér að núgildandi skipan á flokkapólitísku, þingkjörnu útvarpsráði þyki ekki fullnægjandi í þessu sambandi. Þess í stað er gerð tillaga um að safnað verði saman allstóru ráði hinna hæfustu fulltrúa víðs vegar að úr samfélaginu. Vel mætti hugsa sér að slík akademía yrði tilnefnd einungis í fyrsta skipti og endurnýi sig svo sjálf með einhverjum hætti.
    Grunnurinn undir réttarbót af því tagi sem hér er fjallað um þarf að vera bjargföst, undanbragðalaus og metnaðarfull stefna um að menningarlífið í landinu, almenningsfræðsla og samfélagsumræða þurfi á sjálfstæðu og öflugu þjóðarútvarpi að halda sem máttarstólpa lýðræðislegrar umfjöllunar.