Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 38. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 38  —  38. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Bryndís Hlöðversdóttir, Dagný Jónsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Bjartmarz, Katrín Júlíusdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman.


1. gr.

    206. gr. laganna orðast svo:
    Hver sem greiðir fyrir kynlífsþjónustu af nokkru tagi skal sæta fangelsi allt að 2 árum.
    Hver sem hefur tekjur af milligöngu um vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
    Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn, yngra en 18 ára, til þess að stunda vændi eða aðra kynlífsþjónustu.
    Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að fólk sé flutt úr landi eða til landsins í því skyni að það taki þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði, hvort sem viðkomandi er kunnugt um þennan tilgang fararinnar eða ekki og hvort sem samþykki viðkomandi liggur fyrir eða ekki.
    Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af kynlífsþjónustu sem aðrir veita, svo sem með útleigu húsnæðis eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp sama efnis var lagt fram margsinnis á síðasta kjörtímabili en hlaut ekki afgreiðslu og er því lagt fram enn að nýju, nokkuð breytt.
    Mikil umræða er um mansal, vændi og klám í Evrópulöndum og aukin áhersla lögð á baráttu gegn sívaxandi kynlífsiðnaði. Íslendingar mega ekki láta sitt eftir liggja í þeirri baráttu og þurfa meðal annars að færa lög um þessi mál til betri vegar.

Helstu breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Gert er ráð fyrir eftirfarandi breytingum á 206. gr. laganna:
          Refsiábyrgð vegna vændis breytist þannig að kaup á vændi og annarri kynlífsþjónustu verði refsiverð en vændi sem stundað er til framfærslu verði ekki lengur refsivert.
          Orðalaginu í gildandi lögum „hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra“ verði breytt í „hefur tekjur af milligöngu um vændi annarra“.
          Lagt er til að orðinu „lauslæti“ í gildandi lögum verði breytt í „vændi“.
          Orðinu „ungmenni“ í gildandi lögum er breytt í „barn“ og orðalaginu „viðurværi sitt af lauslæti“ er breytt í „stunda vændi eða aðra kynlífsþjónustu“.
          Ákvæði 4. mgr. 206. gr. verði breytt þannig að aldursmörk hverfi út úr greininni og gert ráð fyrir því að athæfi það sem greinin fjallar um verði refsivert hvort sem viðkomandi er kunnugt um tilgang fararinnar eða ekki og hvort sem samþykki viðkomandi liggur fyrir eða ekki. Í gildandi lögum segir aðeins að það varði refsingu „að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af lauslæti ef viðkomandi er yngri en 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang fararinnar.“ Gerð er tillaga um að aldursmörk falli niður og ekki skipti máli hvort viðkomandi er kunnugt um tilgang fararinnar eða ekki. Þá er lagt til að orðalagið „hafa viðurværi sitt af lauslæti“ breytist í „taka þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði“.
          Í 5. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir því að orðalagið „gerir sér lauslæti annarra að tekjulind“ breytist í “hefur tekjur af kynlífsþjónustu sem aðrir veita“.

Hugtökin „vændi“ og „lauslæti“.
    Hvorugt hugtakið, „vændi“ eða „lauslæti“, hefur verið skilgreint í lagatexta og sýnist sem að erfitt hafi verið fyrir lögregluyfirvöld og dómstóla að starfa eftir bókstaf laganna. Þegar að er gáð kemur á daginn að einungis fjórir dómar er lúta að vændi finnast í dómasafni Hæstaréttar. Þar af eru þrír frá svokölluðum ástandsárum eða fyrir 1956. Einn dómur hefur verið kveðinn upp í Hæstarétti þar sem sakfellt hefur verið á grundvelli 206. gr. almennra hegningarlaga á grunni þeirra ákvæða er lúta að vændi eða milligöngu um vændi.
    Í skýrslu um samanburð á lögum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl., sem dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi, getur að líta eftirfarandi um hugtakið „lauslæti“: „Í 2.–5. mgr. 206. gr. íslensku hegningarlaganna er ávallt notað orðið lauslæti. Í 1. mgr. er aftur á móti notað orðið vændi. Orð sambærileg við lauslæti voru framan af notuð í lagatexta nágrannaríkjanna en hafa nú að mestu leyti vikið fyrir orðinu „prostitution“ (vændi) sem þykir mun nútímalegra orðfæri. Ástæða er til þess að hafa þetta í huga ef íslensku lögin verða endurskoðuð.“ Margt fleira sem fram kemur í þessari skýrslu er þess eðlis að það ýtir undir að lagabreytingar af því tagi sem hér er lagt til verði gerðar.

Nútímaþrælasala og alþjóðlegar aðgerðir.
    Síðustu árin hefur verið áberandi hversu umræðan um klám og vændi hefur færst í vöxt hér á landi sem annars staðar í nágrannalöndum okkar. Ástæður þess má að miklu leyti rekja til þess að þjóðir á Vesturlöndum hafa opnað augu sín fyrir því að stunduð er skipulögð verslun með manneskjur sem eru fluttar til Vesturlanda frá fátækari heimshlutum. Fórnarlömb þessarar skipulögðu nútímaþrælasölu, eins og þessi starfsemi hefur verið kölluð, eru aðallega konur og börn og eru þau ýmist ginnt eða neydd til að þjóna sívaxandi klám- og kynlífsiðnaði á Vesturlöndum. Menn telja sig nú orðið hafa fullvissu fyrir því að umfang þessarar starfsemi, sem rekin er af skipulögðum glæpahringum um allan heim, jafnist orðið á við umfang eiturlyfja- og vopnasölu í veröldinni. Talið er að árlega sé verslað með hundruð þúsunda kvenna og barna um allan heim og áætlað hefur verið að tekjur glæpahringa af starfseminni jafngildi um 7 milljörðum bandaríkjadala á ári. Þjóðir heims hafa brugðist við á ýmsan hátt, t.d. með því að endurskoða ákvæði í löggjöf sinni er lúta að vændi og öðrum þáttum klám- og kynlífsiðnaðar. Þá hafa fjölþjóðlegir samningar verið gerðir til að freista þess að koma lögum yfir starfsemi af þessu tagi. Má þar nefna samning Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og tvo viðauka sem gerðir voru við þann samning. Fjallar annar þeirra sérstaklega um mansal, einkum barna og kvenna, og er markmiðið samkvæmt viðaukanum að sporna við slíkri glæpastarfsemi auk þess sem viðurkennd er skylda þjóða til að vernda og aðstoða þolendur slíkra glæpa eftir fremsta megni. Samningur þessi var undirritaður fyrir Íslands hönd 13. desember 2000. Evrópusambandið hefur brugðist við með ýmsum hætti og hafa dómsmálaráðherrar Evrópusambandslanda ákveðið að samræma löggjöf um smygl á fólki og mansal og herða refsingar. Sú samræmingarvinna hefur meðal annars leitt til þess að samþykktar voru breytingar á almennum hegningarlögum á 128. löggjafarþingi og er mansal nú skilgreint sem sérstakt refsilagabrot skv. 127. gr. þeirra. Þá hafa dómsmála- og jafnréttisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna efnt til sérstaks átaks gegn verslun með konur. Af því tilefni var haldin ráðstefna um málefnið á vegum dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis 28. febrúar 2003.

Skýrsla um vændi á Íslandi.
    Mikilvægt innlegg í þessa umræðu og jafnframt öflugt tæki í þeirri vinnu sem fram undan hlýtur að vera í þessum málaflokki hjá löggjafarvaldinu er skýrsla sú sem dómsmálaráðherra lét gera og út kom í mars 2001. Skýrslan ber heitið Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess og í henni er staðfest að vændi sé stundað á Íslandi í ýmsum myndum, meðal ungs fólks í vímuefnaneyslu, meðal eldri einstaklinga í heimahúsum, tilviljanakennt götuvændi, vændi gegnum auglýsingar í dagblöðum, á símalínum og á internetinu, vændi sem rekið er gegnum milliliði af ýmsu tagi og skipulagt vændi í tengslum við starfsemi nektardansstaða.
    Í skýrslu dómsmálaráðherra er gerð grein fyrir þeim kynlífsiðnaði sem umræðan hefur snúist um og er upptalning skýrslunnar yfirgripsmikil og greinargóð. Samkvæmt skýrslunni er með kynlífsiðnaði vísað til klámtímarita, starfsemi nektardansstaða, klámmyndbanda, barnakláms, kláms á internetinu, skipulagðs vændis, götuvændis, símavændis, erótískra nuddstofa og fylgdarþjónustu. Við þessa upptalningu má bæta auglýsingum um ýmiss konar kynlífsþjónustu, t.d. í dagblöðum, auk þess sem talið er að í tengslum við ákveðnar vefsíður sé stundað skipulagt vændi.

Vændi skilgreint sem ofbeldi.
    Samkvæmt leiðbeinandi reglum sem jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og ráðherranefnd þess hafa afgreitt telst það vera mansal til kynlífsþrælkunar eða kynlífsmisnotkunar „þegar einstaklingur, lögpersóna og/eða samtök útvega og/eða flytja innan lands eða milli landa á löglegan eða ólöglegan hátt einstaklinga, jafnvel með samþykki þeirra, í þeim tilgangi að nýta þá kynferðislega í gróðaskyni og beita til þess meðal annars þvingunum, einkum ofbeldi eða hótunum, blekkingum og misnotkun valds eða misnota sér bága stöðu einstaklinganna“. (Elsa Þorkelsdóttir, Mansal, erindi flutt á fræðslufundi undir yfirskriftinni „Mansal – kynlífsþrælkun – staðreynd eða upphrópun á Íslandi“, á Hótel Borg, 8. febrúar 2000.)
    Kaup á kynlífi og kynlífsþjónustu eru því gróf valdbeiting, kynferðislegt ofbeldi, þar sem valdastaða þess sem kaupir, selur eða hefur milligöngu um þjónustuna er staða hins sterka. Þá er þess einnig að geta að talið er að verslun með konur til kynlífsþrælkunar sé oftast tengd annarri glæpastarfsemi, svo sem eiturlyfjasmygli, peningaþvætti og öðrum ólöglegum athöfnum.
    Afleiðingar vændis eða sölu hvers kyns kynlífsþjónustu eru iðulega mjög svipaðar og hjá öðrum þolendum kynferðisofbeldis, þ.e. brotin sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, þunglyndi, sjálfsvígsþankar og tilraunir til sjálfsvíga. Ótal kannanir sýna einnig að konur sem selja líkama sinn hafa að stórum hluta verið beittar kynferðisofbeldi í æsku og hafa því alla tíð staðið höllum fæti í lífinu. Á síðari árum hafa fátækt og litlar vonir um mannsæmandi framtíð einnig knúið fólk til vændis og auðveldað þannig þeim sem kaupa kynlífsþjónustu, eða gerast milligöngumenn um slíkt, að ná valdi yfir því.

Sænska leiðin.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að Íslendingar fari að dæmi Svía og innleiði „sænsku leiðina“ svokölluðu, sem felur það í sér að ábyrgðin sé flutt af herðum þess sem selur líkama sinn yfir á herðar þess sem býr til eftirspurnina. Sænsku lögin gengu í gildi 1999 og er því komin talsverð reynsla á þau. Á málstofu sem Stígamót gengust fyrir undir yfirskriftinni „Baráttan gegn verslun með konur – Bestu leiðirnar á Evrópuvettvangi“ flutti Gunilla Ekberg erindi um „sænsku leiðina til að stemma stigu við vændi og mansali“, en hún starfar sem sérstakur ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar í slíkum málefnum. Í máli hennar kom fram að árangurinn af hinni nýju löggjöf leyni sér ekki, þannig hafi götuvændi í sænskum borgum nánast horfið og glæpahringirnir, sem áður seldu konur í þúsundatali til Svíþjóðar, sniðgangi nú landið. Nú sé talið að einungis 200–500 konur komi árlega ólöglega inn í landið til að stunda vændi. Ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar sérstakt átaksverkefni þar sem lögreglumenn, saksóknarar og félagsráðgjafar sveitarfélaganna eru fræddir um grundvallaratriði er varða hegðun alþjóðlegra glæpahringa í þessum efnum, orsakir og afleiðingar vændis og nauðsyn þess að veita fórnarlömbum hjálp og stuðning. Þá hefur einnig verið gripið til sérstakra aðgerða til að fræða ungt fólk um kynlífsiðnaðinn og áhrif hans, með því að útbúa sérstakt fræðsluefni fyrir sænska framhaldsskóla byggt á bíómynd Lukasar Moodisons „Lilja 4-ever“. Gunilla sagði yfir 500 einstaklinga þegar hafa verið ákærða á grundvelli þessarar tilteknu greinar laganna (Lag (1998:408) om förbud mot köp av sexuella tjänster) og flestir þeirra verið sakfelldir eða hafi viðurkennt sekt sína. Gunilla sagði afstöðu þjóðarinnar til laganna hafa verið kannaða reglulega og alltaf mælst 80% stuðningur við lögin. Hún sagði mansal þó ekki heyra sögunni til í Svíþjóð, ástandið sé enn slæmt í Norður-Svíþjóð, en þangað kemur fjöldi atvinnulausra rússneskra kvenna frá Múrmansk-svæðinu á hverju ári til að stunda vændi. Viðleitni sænskra stjórnvalda til að ná stjórn á ástandinu væri þó að byrja að skila sér. Komið hefði verið á virkri samvinnu stjórnvalda í Rússlandi og Eystrasaltslöndunum og m.a. haldin málþing til að koma umræðum af stað handan landamæranna. Það sem Gunilla taldi helst vanta í Svíþjóð núna væri aðstoð við fórnarlömb glæpahringanna og taldi hún nauðsynlegt að gera átak í að fjölga athvörfum fyrir konur sem lenda í klóm þrælasalanna. Hún lagði mikla áherslu á það í máli sínu að sænsk stjórnvöld teldu reynsluna af lögunum hafa sýnt að nauðsynlegt væri að líta á málin heildstætt, þannig væri ekki hægt að skilja á milli vændis, kláms og mansals, því að konurnar sem seldar eru til kynlífsþrælkunar eru um leið seldar inn í klámiðnaðinn. Hún taldi Svía hafa sýnt fram á að séu kaup á vændi gerð saknæm dragi umtalsvert úr mansalinu. Verkefnið fram undan sé svo að fá aðrar þjóðir til að fara þessa sömu leið, því að ekki nægi að ýta vandamálinu út fyrir landamæri Svíþjóðar ef það er látið óáreitt í nágrannalöndunum.

Margareta Winberg á Íslandi.
    Í september 2003 bauð fjöldi kvennasamtaka aðstoðarforsætisráðherra og fyrrverandi jafnréttisráðherra Svíþjóðar, Margaretu Winberg, að koma til Íslands. Tilefnið var ekki hvað síst það álit þessara samtaka að Svíar hefðu sýnt þor og einbeittan vilja til að breyta lögum sínum svo draga mætti sem mest úr ofbeldi gegn konum og öðru kynbundnu misrétti. Margareta hefur verið frumkvöðull í þessum efnum og hefur átt mikinn þátt í að færa sænska löggjöf til betri vegar hvað varðar málefni kvenna, enda hefur hún látið til sín taka á þessum vettvangi síðan 1981 að hún tók sæti á sænska þinginu. Á fundi sem efnt var til af þessu tilefni rakti Margareta tilurð laganna um bann við kaupum á vændi og sagði að grundvöllur þeirra væri fólginn í því að þingið hefði verið tilbúið til að líta svo á að kaup karlmanna á vændi væru hluti af ofbeldi karla gagnvart konum. Í máli sínu lagði hún áherslu á að kaupandi vændis og sá sem seldi það stæðu afar ójafnt að vígi, hvort heldur væri félagslega eða efnahagslega. Vændi snerist ævinlega um að annar aðilinn – sá sterkari, nýtti sér veika stöðu hins. Kaupendurnir hefðu val um að kaupa ekki, en staða vændiskvennanna væri það veik að þær ættu ekki val. Þannig taldi hún mikilvægt að gera sér grein fyrir því að vændi þrifist ekki ef ekki væru karlmenn sem keyptu vændi. Þá tók Margareta Winberg undir allt sem áður hefur komið fram í greinargerð þessari og haft er eftir Gunillu Ekberg, ráðgjafa sænsku ríkisstjórnarinnar í málefnum tengdum vændi, en Gunilla var einnig fyrirlesari á fundinum í september 2003.

Lokaorð.
    Nú stendur yfir mikil umræða í flestum löndum Evrópusambandsins um baráttuna gegn mansali. Stofnuð hafa verið samtök kvennahreyfinga í Evrópu (ENATW – European Network Against Trafficking in Women for sexual exploitation) sem nú eru að safna liði til baráttunnar með því að opna sameiginlega vefslóð: www.aretusa.net/. Samtökin líta svo á að vændi sé kynbundið ofbeldi gegn konum, það brjóti gegn lögbundnum mannréttindum og vinni gegn jafnrétti kynjanna. Samtökin telja að ekki sé hægt að líta á vændi sem starfsgrein og hvetja stjórnvöld til að setja lög og reglur sem tryggt geti eftirfarandi:
     a.      Vernd og öflugan stuðning við fórnarlömb vændissala.
     b.      Raunhæfar leiðir til að koma í veg fyrir mansal til kynlífsþrælkunar.
     c.      Aðferðir til að draga úr eftirspurn eftir kynlífsþjónustu. Samtökin leggja áherslu á að stjórnvöld í Evrópulöndum bregðist fljótt við og að starfað sé í anda samþykkta Sameinuðu þjóðanna (samningur um aðgerðir gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og viðaukarnir tveir) og Evrópusambandsins (samþykkt framkvæmdastjórnarinnar frá 19. júlí 2002).