Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 155. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 155  —  155. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fjárhagslegt sjálfstæði þjóðgarðsins í Skaftafelli.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að þjóðgarðurinn í Skaftafelli skuli verða fjárhagslega sjálfstæð stofnun. Þjóðgarðsvörður verði forstöðumaður stofnunarinnar og beri fulla fjárhagslega ábyrgð á rekstri. Þjóðgarðinum verði fengið aukið hlutverk, m.a. viðhald og eftirlit á friðlöndum Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu. Ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd og fyrirkomulag rekstursins.

Greinargerð.


    Tillaga sama efnis var flutt á 128. löggjafarþingi en varð ekki útrædd.
    Þjóðgarðurinn í Skaftafelli var stofnaður 1967. Myndarlega var staðið að uppbyggingu þar á sjöunda áratugnum. Byggð var þjónustumiðstöð og útbúið stórt tjaldstæði. Göngustígar voru skipulagðir og merktir. Rannsóknir voru gerðar á gróðri og söguminjar lagfærðar, svo sem Selbærinn (fjósbaðstofan).
    Á síðastliðnum 25 árum hefur þjóðgarðurinn verið rekinn fyrir mjög takmarkað fjármagn. Vegna fjárskorts hefur uppbygging og rannsóknastarf ekki verið í takt við fjölgun gesta þjóðgarðsins.
    Þjóðgarðurinn gegnir mikilvægu hlutverki á Suðausturlandi í tengslum við ferðaþjónustu og styrkingu byggðar í landshlutanum. Starfsfólk þjóðgarðsins tekur á móti yfir 150.000 ferðamönnum á hverju ári. Búist er við því að fjöldi ferðamanna muni tvöfaldast á næstu tíu árum. Því er mikilvægt að fjármagn sem ríkissjóður leggur til uppbyggingar í þjóðgarðinum aukist verulega. Einnig er mikilvægt að sértekjur sem þjóðgarðurinn aflar skili sér til uppbyggingar þar.
    Nú er í þjóðgarðinum rekin fræðslustofa, tjaldstæði og lítil minjagripaverslun. Veitingastaður og verslun hafa verið leigð út til einkaaðila í Öræfasveit. Á milli 15–20 þús. manns gista á tjaldstæðinu á hverju ári. Velta þjóðgarðsins er um 20 millj. kr. á ári en launakostnaður um 10 millj. kr. Á undanförnum árum hefur þjóðgarðurinn fengið um 2–5 millj. kr. til nýframkvæmda og viðhalds. Innan þjóðgarðsins eru um 1.500 fermetrar af húsnæði, göngustígar eru tugir kílómetra og tjaldstæðið stórt. Þjóðgarðurinn þarfnast aukins fjármagns til uppbyggingar, reksturs og rannsókna. Ekki er talið að ný stjórnsýslustofnun (Umhverfisstofnun) muni bæta fjárhagslega stöðu þjóðgarðanna. Það er mikilvægt að þjóðgarðarnir séu fyrirmynd annarra útivistarsvæða á Íslandi og njóti virðingar þjóðarinnar.
    Rekstur þjóðgarðs hefur efnahagslega þýðingu fyrir sinn landshluta. Því er mikilvægt að styrkja alla starfsemi í þjóðgörðum. Þeir þurfa sífellt að vera í uppbyggingu svo að þeir geti verið til fyrirmyndar og tekið á móti vaxandi fjölda ferðamanna. Á komandi árum mun þjóðgarðurinn í Skaftafelli þarfnast töluverðra endurbóta til að mæta kröfum gesta og til að koma í veg fyrir að gróður traðkist niður vegna lélegra göngustíga.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stofna Vatnajökulsþjóðgarð innan skamms. Um er að ræða stækkun þjóðgarðsins í Skaftafelli. Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að sækja um að Skaftafell verði sett á heimsminjaskrá UNESCO. Þegar garðurinn hefur verið stækkaður og Skaftafell komið á heimsminjaskrá er líklegt að gestum þjóðgarðsins fjölgi og verkefni starfsmanna verði fleiri.
    Aukið fjárhagslegt sjálfstæði gæfi þjóðgarðinum aukin tækifæri til að afla sértekna sem skilaði sér í betri þjónustu við gesti. Auðveldara yrði fyrir þjóðgarðinn að sækja fjármagn til fyrirtækja og hagsmunasamtaka ef hann væri fjárhagslega sjálfstæður.