Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 202  —  199. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætt starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að stuðla að bættu starfsumhverfi kvennahreyfingarinnar og annarra hópa sem vinna að jafnari stöðu kynjanna á Íslandi. Það verði m.a. gert á eftirfarandi hátt:
     a.      Stofnaður verði sjóður með lið í fjárlögum í þeim tilgangi að styrkja hvers konar starf félagasamtaka, hópa og einstaklinga sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna. Hluta sjóðsins verði varið til þess að tryggja þátttöku sömu hópa í alþjóðlegu starfi.
     b.      Jafnréttisfulltrúum eða öðrum starfsmönnum ráðuneyta verði falið að koma á beinum tengslum fagráðuneyta og þeirra samtaka, hópa og einstaklinga sem innan starfssviðs hvers ráðuneytis vinna að jafnari stöðu kynjanna á hverjum tíma.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 128. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Henni var vísað til félagsmálanefndar til umfjöllunar. Eftirtaldir sendu nefndinni umsögn um tillöguna: Bandalag háskólamanna, jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, jafnréttisráðgjafinn í Reykjavík, Jafnréttisstofa, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennakirkjan, Kvenréttindafélag Íslands og félagsmálaráðuneytið. Allir þessir aðilar lýstu yfir ánægju og stuðningi við tillöguna utan félagsmálaráðuneytið, sem taldi hana ekki tímabæra vegna þess hversu lítil reynsla væri komin á lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í ljósi mjög jákvæðra viðbragða þeirra aðila sem gerst til þekkja er tillagan endurflutt.
    Starfsemi frjálsra félagasamtaka er einn af hornsteinum lýðræðisins. Þau starfa oft í beinum tengslum við grasrótina og eru í mun betri aðstöðu en stjórnvöld til þess að bregðast vafningalaust við nýjum aðstæðum og skilgreina þarfir og skoðanir almennra borgara. Þau koma á framfæri sjónarmiðum og ábendingum sem koma stjórnvöldum að gagni og verka þannig sem mótvægi við stjórnkerfi sem oft er þungt og seinvirkt.
    Á alþjóðavettvangi hefur á undanförnum árum skapast aukinn skilningur á mikilvægi frjálsra félagasamtaka. Til marks um það er samþykkt Árósasamningsins í júní 1998, samnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og tryggingu fyrir réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þessi skilningur hefur einnig náð til frjálsra félagasamtaka sem starfa á vettvangi kvenfrelsis og hefur það orðið til að skerpa hlutverk kvennahreyfingarinnar. Skemmst er að minnast öflugrar framgöngu málefnahóps kvenna sem starfaði í tengslum við heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg 26. ágúst til 4. september 2002.
    Innan Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna hefur aukinn skilningur og hvatning haft í för með sér bætt starfsskilyrði. Fyrir nokkrum árum ákvað Evrópusambandið að koma á laggirnar svokölluðu Daphne-verkefni sem sækir kraft sinn og hugmyndir til frjálsra félagasamtaka og hefur það hlutverk að vinna gegn ofbeldi á konum og börnum. Evrópusambandið hefur lagt gífurlega fjármuni til þessa verkefnis og er ástæðan sú að sögn Anitu Gradin, fyrrverandi fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB, að „félagasamtök beiti árangursríkari aðferðum en hið opinbera til að ná til almennings og til þeirra sem eru í áhættuhópum“.
    Þetta hlutverk félagasamtaka þarf einnig að meta að verðleikum hér á landi og skapa svigrúm fyrir nýja hópa með nýjar hugmyndir. Sérstaklega þarf að huga að og veita brautargengi góðum hugmyndum sem gætu haft keðjuverkandi áhrif í þá átt að leiðrétta kynjamisrétti á Íslandi, jafnvel þótt hugmyndirnar komi frá litlum og lítt skilgreindum hópum eða einstaklingum.
    Að vissu marki koma íslensk stjórnvöld til móts við rótgróin félagasamtök eins og ungmennahreyfinguna, íþróttahreyfinguna, skáta og fleiri samtök með hefðbundið skipulag og uppbyggingu, en á meðal félagasamtaka hefur kvennahreyfingin mikla sérstöðu. Það er eðli hreyfingarinnar að innan hennar hafa oft myndast litlir óformlegir hópar sem ekki hafa neinar félagaskrár og finnast hvergi á skrám yfir formleg félagasamtök. Þessir hópar hafa brugðist skjótt við nýjum aðstæðum og hafa starfað að afmörkuðum verkefnum í stuttan tíma. Þannig stigu Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöf, Stígamót o.fl. sín fyrstu skref, en einnig má nefna t.d. Konur gegn klámi, áhugahóp um aðgerðir til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir unglingsstúlkna o.fl.
    Sem dæmi um nýja kvennapólitíska hópa sem starfa hér á landi mætti nefna Femínistafélag Íslands og Bríeti, félag ungra femínista. Kvennakirkjan nýtur æ meiri vinsælda og ekki er vanþörf á að hlúa að kvenfrelsisstarfi innan íslenskrar kirkju. Lífslíkur og árangur þessara hópa mundu aukast til mikilla muna ef hægt væri að sækja um fjárveitingar til þess að koma í verk einhverjum af þeim hugmyndum sem félagsfólk hefur. Þessum hópum og einstaklingum þyrfti að gefa tækifæri til að sækja um styrki til pólitískra verkefna, svo fremi þau geti rökstutt þörfina og sýnt fram á almennt gildi starfsins fyrir samfélagið.
    Aukið samstarf á alþjóðavettvangi snertir ekki síður kvennapólitískt starf en aðra þætti samfélagsins. Reynslan hefur sýnt að á Íslandi er mikill áhugi á þátttöku í alþjóðlegu kvennapólitísku starfi. Til marks um það er þátttaka íslenskra kvenna í Nordisk forum, Peking-ráðstefnunni 1995, ráðstefnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Valmiera í ágúst 1997 og síðast en ekki síst hinni viðamiklu ráðstefnu um konur og lýðræði við árþúsundamót sem haldin var í Borgarleikhúsinu 8.–10. október 1999. Íslensk stjórnvöld hafa stutt ferðir íslenskra kvenna á þessar mikilvægu ráðstefnur og hefur sá stuðningur tryggt mikla þátttöku og virkni fyrir og meðan á ráðstefnunum hefur staðið. Sá stuðningur skilaði sér einnig svo um munaði í öflugri þátttöku íslenskra kvenna á fyrrnefndri ráðstefnu um konur og lýðræði. En ráðstefnuferðir eru lítils virði ef ekki eru tök á að fylgja þeim eftir með gróskumiklu starfi úti á akrinum og áframhaldandi tengslum milli félaga og samtaka sem vinna að svipuðum verkefnum vítt um heiminn. Það er eðli alþjóðastarfsins að á ráðstefnum og fundum myndast tengsl sem nauðsynlegt er að rækta áfram eftir að heim er komið, en slíkt hefur einatt reynst örðugt, ekki síst vegna fjárskorts.
    Þegar þessi tillaga var upphaflega flutt á 123. löggjafarþingi í febrúar 1999 var hugmyndin sótt til norskrar stjórnsýslu. Í Noregi hefur verið komið á því kerfi að barna- og fjölskyldumálaráðuneytið auglýsir árlega eftir umsóknum um styrki til kvennapólitískrar upplýsingastarfsemi og einnig til kvennapólitísks alþjóðastarfs. Styrkirnir hafa tryggt þann jarðveg sem nauðsynlegur er fyrir frjótt starf. Þar í landi er haft samráð og gagnkvæmt upplýsingaflæði á milli stjórnvalda og kvennahreyfingarinnar. Þar er einnig hefð fyrir því í utanríkisráðuneyti að drög að samningum og hugmyndir sem snerta konur á alþjóðavettvangi séu send til umsagnar þeirra aðila sem starfa að málefnum kvenna og upplýsinga- og samráðsfundir eru haldnir í ráðuneytinu þegar þurfa þykir. Í norska barna- og fjölskyldumálaráðuneytinu er tveggja áratuga hefð fyrir samráðsfundum og gagnkvæmu upplýsingaflæði á milli ráðuneytis, stofnana, frjálsra félagasamtaka og baráttuhópa sem hefur gefið góða raun og tryggt sýnilegan árangur.
    Á sama hátt þyrftu íslensk stjórnvöld að hafa félagasamtök á þessu sviði með í ráðum og bera hugmyndir sínar undir slíka aðila þegar um er að ræða mál er varða áhuga- og baráttumál þeirra. Það ætti að vera fengur í því fyrir íslenska stjórnsýslu að nýta alla þá reynslu og þekkingu sem safnast hefur saman innan kvennahreyfingarinnar. Í mörgum tilvikum er um sérfræðikunnáttu að ræða sem nauðsynlegt er fyrir opinbera aðila að hafa aðgang að. Einnig ætti að kappkosta að kynna kvennahreyfingunni hugmyndir og fyrirætlanir sem opinberir aðilar vinna að og hafa um þær samráð. Það er hugmynd flutningsmanna þessarar tillögu að komið verði á formlegum boðleiðum milli einstakra fagráðuneyta og félagasamtaka, hópa og/eða einstaklinga sem vinna að því að jafna stöðu kynjanna og að það verði í verkahring jafnréttisfulltrúa fagráðuneytanna eða annarra starfsmanna sem ráðuneytin tilnefna að annast það starf. Á þann hátt má tryggja upplýsingastreymi og samskipti milli hins opinbera kerfis og þeirra sem starfa í grasrótinni á hverjum tíma.
    Sjóður sá sem tillaga þessi gerir ráð fyrir að stofnaður verði í þeim tilgangi að styrkja starf samtaka, hópa og einstaklinga, sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna ásamt þátttöku í alþjóðlegu starfi, yrði sérgreindur liður á fjárlögum, hefði faglega sjóðstjórn og yrði þannig sambærilegur við sjóði sem styrkja starf á sviði menningar og lista. Setja þyrfti sjóðnum reglur sem kvæðu nánar á um framkvæmdina, skipun sjóðstjórnar og það hvar sjóðurinn yrði hýstur.
    Eins og lýst er í greinargerð þessari eru hugmyndir sem kvikna í grasrótinni oft þess eðlis að þær þurfa ekki nema örlitla aðhlynningu til að bera góðan ávöxt. Ef lögð er rækt við að fanga slíkar hugmyndir má skapa það umhverfi sem þarf til að kvennahreyfingin og stjórnvöld í sameiningu geti í raun jafnað stöðu kynjanna.