Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 205. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 216  —  205. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu umferðaröryggis á þjóðvegum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhann Ársælsson, Einar Már Sigurðarson.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að meta og gera tillögur um hvernig bæta megi umferðaröryggi á þjóðvegum.
    Verkefni nefndarinnar verði að meta og gera tillögur um hvernig bæta megi umferðaröryggi þegar ökutæki mætast við einbreiðar brýr, t.d. með breytingum á umferðarlögum, merkingum um forgang umferðar eða á annan hátt. Nefndin meti hvort bæta megi gerð umferðarmerkja, t.d. svo þau sjáist frá hlið. Þá geri nefndin tillögur um hvernig merkja megi ökumönnum til varnaðar hættulega staði á þjóðvegum, svokallaða svarta bletti. Nefndin geri tillögur um hvernig bæta megi fræðslu fyrir erlenda ferðamenn um akstur á íslenskum vegum og hvernig megi auka öryggi þeirra með bættum vegmerkingum á erlendum tungumálum. Þá meti nefndin og leggi fram tillögur til úrbóta á umferðarlöggæslu og hverjum þeim þætti umferðaröryggismála sem hún telur þörf á. Þar sem það á við taki nefndin mið af umferðaröryggisáætlun 2002–2012 og því hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar þar sem svipaðar aðstæður eru.
    Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. september 2004.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að ráðherra láti þegar hefja vinnu sem miði að því að bæta umferðarmenningu og efla öryggi á þjóðvegum landsins.
    Vegamál og umferðaröryggi eru þess eðlis að þau krefjast stöðugrar athygli og endurskoðunar. Umferðarslys á íslenskum þjóðvegum eru of tíð en oft virðist sem þau tengist ákveðnum hættum sem mögulegt getur verið að takmarka. Mörg umferðaróhappa á þjóðvegum landsins mætti ef til vill koma í veg fyrir með bættum umferðarreglum og aukinni löggæslu og fræðslu. Í þessum efnum benda flutningsmenn sérstaklega á tíð umferðarslys við einbreiðar brýr og þann fjölda óhappa sem útlendingar lenda í hér á landi á hverju ári.
    Flutningsmenn leggja til að skipuð verði nefnd sérfræðinga sem fari yfir og meti hvernig best er að taka á tilteknum þáttum í umferðarmálum hér á landi.
    Í lok árs 2001 skilaði starfshópur tillögu um umferðaröryggisáætlun stjórnvalda um fækkun alvarlegra umferðarslysa til ársins 2012 ( Umferðaröryggisáætlun 2002–2012, desember 2001). Starfshópurinn bendir þar á ýmislegt sem lagfæra þarf til að efla umferðaröryggi og bæta umferðarmenningu hér á landi.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að frekari vinna verði unnin í þessum efnum svo það markmið náist að bæta umferðarmenningu og draga úr slysum á þjóðvegum landsins. Sú nefnd, sem hér er lagt til að skipuð verði, skal meta þætti sem hafa reynst sérstaklega hættulegir í umferðinni og gera tillögur um aðgerðir til úrbóta.
    Í XV. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breytingum, er kveðið á um stofnun og verkefni Umferðarstofu, umferðarráðs og rannsóknarnefndar umferðarslysa. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. umferðarlaga skal Umferðarstofa veita almenningi fræðslu um umferðarlöggjöf og annað það sem stuðlað getur að umferðaröryggi og bættri umferðarmenningu. Nánar er kveðið á um verkefni Umferðarstofu í 112. gr. laganna. Meginhlutverk umferðarráðs skal vera að beita sér fyrir auknu umferðaröryggi og bættum umferðarháttum, sbr. 1. mgr. 115. gr. laganna. Sú nefnd sérfræðinga sem hér er lagt til að verði skipuð gæti haft samráð við þessar stofnanir þar sem við á.