Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 249. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 366  —  249. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



     Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sturlu Sigurjónsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild lýðveldisins Búlgaríu, lýðveldisins Eistlands, lýðveldisins Lettlands, lýðveldisins Litháens, Rúmeníu, lýðveldisins Slóvakíu og lýðveldisins Slóveníu sem gerðir voru í Brussel 26. mars 2003.
    Samkvæmt ákvæðum samninganna öðlast þeir fyrst gildi þegar öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa staðfest þá og tilkynnt vörsluaðila viðbótarsamninganna um staðfestinguna. Í kjölfarið mun framkvæmdastjóri NATO bjóða ríkisstjórnum nýju aðildarríkjanna að gerast aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum.
    Eftir stækkun bandalagsins fjölgar aðildarríkjunum úr 19 í 26 og hefur Atlantshafs- bandalagið ávallt lagt áherslu á að stækkun þess leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu og ýti enn frekar undir þá lýðræðisþróun sem orðið hefur í nýju aðildarríkjunum.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 12. nóv. 2003.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Drífa Hjartardóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Guðlaugur Þór Þórðarson.