Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 421. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 579  —  421. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Flm.: Hlynur Hallsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Dagný Jónsdóttir,


Einar Már Sigurðarson, Sigurjón Þórðarson, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að kanna til hlítar í samráði við heimamenn grundvöll þess að ráðast í gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Greinargerð.


    Góðar samgöngur eru lífæð nútímasamfélags og forsenda farsællar byggðaþróunar. Samgöngur eiga að tryggja aðgengi að vörum og þjónustu, auðvelda samskipti og tengsl manna á milli og gera fólki kleift að búa þar sem hugur þess stendur til. Samgöngukerfið hefur tekið miklum breytingum hér á landi á síðustu áratugum og víða skipt sköpum um þróun byggða og atvinnulífs. Ekki síst hefur gerð jarðganga breytt miklu fyrir heilu byggðarlögin, tengt saman byggðarlög og stækkað atvinnusvæði. Jarðgöng hafa leyst erfiða fjallvegi af hólmi og rofið einangrun byggðarlaga, einkum að vetrarlagi.
    Samgöngur um Eyjafjörð og frá honum til allra átta ráða ekki síst miklu um það hvort tekst að efla Akureyri og nágrenni sem höfuðstað Norðurlands eins og bæði stjórnvöld og almenningur virðast telja æskilegt. Það var mikil samgöngubót fyrir tveimur áratugum þegar vegurinn um Víkurskarð austur um í Þingeyjarsýslu kom í staðinn fyrir illfæran, brattan og krókóttan veg yfir Vaðlaheiði. Umferð um Víkurskarðsveginn hefur aukist mikið á síðustu árum, að meðaltali um 6% árlega, og er það mun meira en landsmeðaltal, sem er 1,4%. Um Víkurskarð fara nú um 500–600 bílar að jafnaði á dag að vetrinum, en umferðin er mun meiri á sumrin eða um og yfir 2.000 bílar á dag.
    Þrátt fyrir ágæti Víkurskarðsvegar er langt síðan menn fóru að velta fyrir sér frekari úrbótum í samgöngum austur frá Akureyri og þykir mörgum tími til kominn að huga fyrir alvöru að jarðgöngum undir Vaðlaheiði og hefur þá helst verið litið til staðsetningar nálægt þeim stað þar sem gamli vegurinn lá og gangamunni opnast við Skóga í Fnjóskadal. Mikill áhugi er á málinu í nærliggjandi sveitarfélögum og hefur m.a. verið stofnað um það félagið Greið leið hf. Hugmyndin um Vaðlaheiðargöng hefur nú fengið byr undir báða vængi með athugun og niðurstöðum Jóns Þorvaldar Heiðarssonar hagfræðings sem hann kynnti á ráðstefnu Byggðarannsóknastofnunar 28. nóvember sl. um samgöngubætur, samfélag og byggð. Jón Þorvaldur skrifaði MS-ritgerð um Vaðlaheiðargöng með það að markmiði að varpa ljósi á hvað slík göng kostuðu ríkissjóð ef þau yrðu gerð í einkaframkvæmd, en einnig kannaði hann hvort raunhæft væri að gera tvenn göng og jafnframt hvort arðvænlegt væri að gera meðalstóra virkjun samhliða Vaðlaheiðargöngum. Við athuganir sínar lagði Jón Þorvaldur m.a. til grundvallar umferðarspá, orkuverðsspá og tímasetningu framkvæmda.
    Athyglisverðar eru hugmyndir Jóns Þorvaldar um ekki aðeins ein göng undir Vaðlaheiði eins og hingað til hafa verið í umræðunni, heldur tvenn göng sem lægju undir heiðina allmiklu sunnar en rætt hefur verið um og önnur í framhaldinu undir Vaglafjall/Birningsstaðafjall handan Fnjóskár. Í tengslum við þá leið setur Jón Þorvaldur fram nýstárlega hugmynd um 10–18 MW virkjun í Vaðlaheiði og telur að það gæti orðið hagkvæmur kostur. Hugmyndin er innlegg í umræðuna, en mikið skortir þó á rannsóknir til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir arðsemi og ekki síst umhverfisáhrifum slíkrar framkvæmdar.
    Hvað varðar hugmyndir um gjaldtöku af vegfarendum þá er niðurstaða Jóns Þorvaldar að greiða þyrfti frá u.þ.b. 400 kr. og upp í 550 kr. eftir því hvaða leið yrði valin. Enda þótt menn iðulega tengi gjaldtöku við einkaframkvæmd skal lögð áhersla á að opinberir aðilar gætu komið beint að framkvæmd og rekstri ganganna. Huga þarf að því hvort þetta gæti reynst hagkvæmasti og ódýrasti kosturinn.
    Athugun á möguleikum jarðgangagerðar þyrfti að fara fram jafnhliða endurskoðun samgönguáætlunar sem fram á að fara á næsta ári. Jarðgöng undir Vaðlaheiði gætu orðið mikil samgöngubót og lyftistöng fyrir atvinnulíf á aðliggjandi svæðum. Þau gætu stytt vegalengdina um 16–22 kílómetra eftir því hvaða leið yrði valin og þau mundu auka umferðaröryggi til muna. Ljóst er að miklu verki er ólokið við undirbúning og útfærslu hugmynda um jarðgangagerð undir Vaðlaheiði og mikilvægt að hefjast handa við það verkefni hið fyrsta. Að því miðar þessi tillaga.