Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 445. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 625  —  445. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    B-liður 67. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 4. mgr. B-liðar 67. gr. laganna skal:
     1.      sjómannaafsláttur við staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2005 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2006 vegna tekna og eigna árið 2005 vera 546 kr. á hvern dag;
     2.      sjómannaafsláttur við staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2006 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2007 vegna tekna og eigna árið 2006 vera 364 kr. á hvern dag;
     3.      sjómannaafsláttur við staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2007 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2008 vegna tekna og eigna árið 2007 vera 182 kr. á hvern dag.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005 og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á tekjur og eignir ársins 2005. Ákvæði 1. gr. laganna öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sjómannaafsláttur verði felldur niður í jöfnum áföngum á tímabilinu frá 1. janúar 2005 til 1. janúar 2008. Miðar frumvarpið við að sjómannaafslátturinn lækki um 25% á hverju ári frá 2005 og falli niður frá og með 2008.
    Sjómannaafslátturinn þykir ekki í takt við tímann eða ríkjandi viðhorf í skattamálum. Eðlilegt er að um kjör sjómanna sé samið í frjálsum samningum milli þeirra og viðsemjenda þeirra. Er frumvarpið lagt fram í aðdraganda kjarasamninga sjómanna en samningar fyrir stóra hópa þeirra renna út í ársbyrjun 2004. Ríkisstjórnin telur rétt að af hennar hálfu liggi fyrir á Alþingi mörkuð stefna varðandi afnám sjómannaafsláttarins þannig að samningsaðilar geti haft hana til hliðsjónar í viðræðum sínum.
    Upphaf sjómannaafsláttar má rekja allt aftur til ársins 1954 þegar lögfestur var annars vegar svonefndur hlífðarfatafrádráttur og hins vegar fæðisfrádráttur. Hafa ákvæði skattalaga um þetta efni tekið töluverðum breytingum í áranna rás en með breyttum lögum árið 1987, í tengslum við upptöku staðgreiðslu, var eldri frádráttarliðum steypt saman í einn sjómannaafslátt.
    Sakir þess hve þetta fyrirkomulag hefur lengi tíðkast þykir eðlilegt að afnám sjómannaafsláttar eigi sér stað í nokkrum áföngum eins og fram kemur í frumvarpinu.
    Sjómannaafslátturinn hefur minnkað að raungildi undanfarin ár vegna fækkunar sjómanna og er áætlað að hann nemi um 1,1 milljarði króna árið 2004.
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sem lagt var fram á yfirstandandi þingi og er þar til meðferðar, er lögð til framlenging á sérstökum tekjuskatti um tvö ár, jafnframt því sem hann verði lækkaður í áföngum uns hann fellur niður í árslok 2005. Í því samhengi má benda á að tiltölulega stór hluti sjómanna hefur á undanförnum árum greitt sérstakan tekjuskatt. Fyrirhuguð niðurfelling hins sérstaka tekjuskatts mun því í mörgum tilfellum gera meira en að vega upp á móti afnámi sjómannaafsláttarins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að sérstakur afsláttur sjómanna frá tekjuskatti verði lækkaður um 25% á ári frá og með árinu 2005 þannig að hann verði fallinn niður að fullu á árinu 2008. Óeðlilegt þykir að ríkið hafi afskipti af kjörum eins launþegahóps með þessum hætti og mismuni þar með launþegahópum og fyrirtækjum. Áætlað er að sjómannaafslátturinn nemi um 1,1 milljarði króna árið 2004 og munu tekjur ríkissjóðs því aukast sem því nemur frá og með árinu 2008 verði frumvarpið að lögum. Með niðurfellingu afsláttarins verður nokkur einföldun á álagningu tekjuskatts og skattframkvæmdinni en ekki er þó reiknað með teljandi áhrifum á heildarútgjöld skattkerfisins.