Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 508. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 780  —  508. mál.




Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og starfsumhverfi stjórnmálaflokka á Íslandi.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur, Ágústi Ólafi Ágústssyni,


Katrínu Júlíusdóttur, Einari Má Sigurðarsyni, Helga Hjörvar,
Ástu R. Jóhannesdóttur, Jóhanni Ársælssyni og Jóni Gunnarssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um fjárhagslegt og lagalegt umhverfi stjórnmálaflokkanna hér á landi með samanburði við skipulag þessara mála hjá nágrannaþjóðum. Jafnframt verði í skýrslunni greint frá framkvæmd laga og reglna sem hér gilda um þetta efni og hvort, og þá hvernig, Ísland hefur undirgengist og framfylgt alþjóðlegum skuldbindingum um aðgerðir gegn pólitískri spillingu og hagsmunaárekstrum og um gagnsæi og eftirlit með fjármálum stjórnmálaflokka.
    Óskað er eftir að vikið verði að eftirfarandi atriðum í skýrslunni:

Fjárhagsleg umgerð um stjórnmálastarfsemi.
    Framkvæmd og úthlutun á þeim framlögum sem Alþingi veitir á fjárlögum til stjórnmálaflokkanna:
     a.      Sérfræðileg aðstoð fyrir þingflokka (á fjárlagalið Alþingis).
     b.      Styrkur til stjórnmálaflokka í samræmi við heimild í 6. gr. (áður 7. gr.) fjárlaga (á fjárlagalið fjármálaráðuneytis).
     c.      Til stjórnmálaflokka með hliðsjón af nýrri kjördæmaskipan og breyttum aðstæðum þingmanna af þeim sökum (á fjárlagalið forsætisráðuneytis).
    Fram komi hvernig og hverjir taka ákvarðanir um breytingu á fyrrgreindum framlögum, hvaða reglur gilda um skiptingu þeirra og hverjir taka ákvarðanir um hana.
    Einnig verði getið hvaða breytingar hafa orðið á þessum framlögum árlega sl. 5 ár.
    Í skýrslunni komi fram hve háar fjárhæðir hafa á sl. þremur árum komið til frádráttar frá tekjum lögaðila eða tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi á móti gjöfum eða framlögum til stjórnmálaflokkanna, sbr. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, og af hve miklum tekjum ríkissjóður hefur orðið af þeim sökum. – Telur ráðherra að þessar upplýsingar eigi að vera aðgengilegar? Séu þær það ekki, er ráðherra þá reiðubúinn að beita sér fyrir að svo verði?
    Fram komi hver sé afstaða ráðherra til lagasetningar sem skyldaði stjórnmálaflokka til að birta opinberlega yfirlit um útgjöld þeirra í kosningabaráttu, svo og ársreikninga þeirra í samræmdu formi í samræmi við góðar reikningsskilavenjur.

Staða Íslands í alþjóðlegum samanburði.
    Fram komi í skýrslunni hvernig er háttað fjárhagslegu og lagalegu umhverfi stjórnmálaflokkanna í samanburði við önnur OECD-ríki og hver sé skýring á því að ekki hafa verið sett lög hér á landi um fjármál stjórnmálaflokkanna líkt og gildir hjá flestum nágrannaþjóðanna.
    Enn fremur komi fram hvort Ísland hafi undirgengist þær alþjóðlegu samþykktir sem hafa verið gerðar um aðgerðir gegn pólitískri spillingu og hagsmunaárekstrum og um gagnsæi og eftirlit með fjármálum stjórnmálaflokka. Fram komi hverjar þessar samþykktir eru og hvaða ákvæði þeirra lúta sérstaklega að gagnsæi og eftirliti með fjármálum flokkanna og hvernig þeim hefur verið framfylgt. – Telur ráðherra það brot á alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga að ekki hafa verið sett hér á landi lög um fjármál stjórnmálaflokka?

Lagalegt umhverfi stjórnmálastarfsemi.
    Í skýrslunni komi fram hvort ráðherra sé þeirrar skoðunar að ákvæði 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi feli í sér sérstaka vernd fyrir stjórnmálaflokka og komi í veg fyrir að hægt sé að setja lög um fjármál þeirra. Sé svo, hver sé þá skýring þess að áþekkt ákvæði um félagafrelsi í stjórnarskrám annarra norrænna ríkja eru ekki túlkuð með þessum hætti.

    Þess er óskað að skýrsla ráðherra verði tekin til umræðu jafnskjótt og henni hefur verið útbýtt á Alþingi.