Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 694. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1032  —  694. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2003.

I.     Inngangur.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en takmörkuð samvinna norðurskautsríkja hafði hafist nokkru áður þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin kemur að jafnaði saman þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Sérstök áhersla er einnig lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum er við komu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu, og auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá upphafi verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. á mengunarhættu, áhrifum mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur að leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað sinn í að hafa frumkvæði að verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda, en Ísland hefur farið með formennsku í ráðinu frá því í nóvember 2002.

II.     Skipan Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál.
    Fram til ársins 2002 skipaði forsætisnefnd fulltrúa Alþingis í þingmannanefnd um norðurskautsmál en fulltrúar á þingmannaráðstefnuna voru valdir sérstaklega hverju sinni. Vegna örrar þróunar í þessum málaflokki var hins vegar ákveðið árið 2002 að stofna sérstaka Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál þar eð vægi norðurskautssamstarfsins á alþjóðlegum vettvangi færi mjög vaxandi. Ákveðið var að Íslandsdeild yrði skipuð þremur þingmönnum (og þremur til vara) og mundi Íslandsdeildin sækja þingmannaráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildarinnar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Íslandsdeild heldur fundi eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og hún fær jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.
    Í upphafi árs 2003 skipuðu Íslandsdeildina Sigríður A. Þórðardóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnús Stefánsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Katrín Fjeldsted, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks. Í kjölfar alþingiskosninga var ný Íslandsdeild kjörin 27. maí 2003. Hana skipa Sigríður A. Þórðardóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnús Stefánsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn eru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþjóðaritari. Í lok árs 2002 var ljóst að þáverandi framkvæmdastjóri nefndarinnar, Guy Lindström, mundi láta af störfum á nýju ári. Í umboði þingmannanefndarinnar fór formaður nefndarinnar, kanadíski þingmaðurinn Clifford Lincoln, þess á leit við alþjóðasvið Alþingis að ritari Íslandsdeildar tæki að sér starfið og var það samþykkt. Ritari Íslandsdeildar hefur því séð um skrifstofurekstur og framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar á árinu.

III.    Áherslur í málefnastarfi og helstu verkefni þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2003.
    Eitt af helstu forgangsverkefnum nefndarinnar á árinu voru umræður og eftirfylgni við gerð fyrirhugaðrar skýrslu um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum, en ætlað er að skýrslan líti dagsins ljós haustið 2004. Formaður Íslandsdeildar situr í sérstökum stýrihóp skýrslunnar og hefur reglulega skýrt frá þróun mála á fundum þingmannanefndarinnar. Skýrslan mun fjalla um félagslega, menningarlega og efnahagslega velferð íbúa norðurskautsins, en hingað til hafa ekki verið gerðar rannsóknir sem beinast eingöngu að íbúum norðurskautssvæða og sjálfbærri þróun. Skýrslan byggist á því að mikilvægt sé að tekið sé heildstætt á málefnum norðursins og byggt á hinni sérstæðu reynslu og þekkingu sem íbúar við norðurhjara veraldar búa yfir. Því er vonast til að úttekt sem þessi verði gagnlegt innlegg í frekari umræðu og stefnumótun.
    Þingmannanefndin átti upprunalega frumkvæði að gerð skýrslunnar og vann mikla undirbúningsvinnu á frumstigi málsins. Við undirbúning og ákvörðun á umfangi og innihaldi skýrslunnar naut nefndin góðrar leiðsagnar og aðstoðar Níelsar Einarssonar, forstöðumanns Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, og prófessors Oran Young sem skrifuðu greinargerðir um málið. Þingmannanefndin kynnti málið fyrir Norðurskautsráðinu og mæltist til þess að það tæki framkvæmd skýrslunnar og skipulagningu í sínar hendur. Gerð slíkrar skýrslu var, undir forustu Íslands, formlega gerð að forgangsverkefni Norðurskautsráðsins á fundi þess í Inari í Finnlandi haustið 2002. Níels Einarsson og Oran Young hafa yfirumsjón með verkinu, en fjöldi alþjóðlegra fræðimanna er ábyrgur fyrir mismunandi köflum. Fjármögnun verkefnisins var mikið rædd á fundum þingmannanefndarinnar, en lengi vel vantaði nokkuð upp á til að endar næðu saman. Nefndarmenn lögðu sitt af mörkum til að tryggja að frekara fjármagn kæmi frá hverju landi á árinu og lýstu yfir einróma stuðningi við þetta mikilvæga verkefni undir forustu Íslands.
    Annað helsta viðfangsefni þingmannanefndarinnar sem hefur verið í brennidepli á árinu er upplýsingatækni, og þá sérstaklega fjarkennsla og fjarlækningar. Svíar buðust til þess að taka forustu í undirbúningsvinnu þingmannanefndarinnar í þessum málaflokki árið 2002 og héldu m.a. vinnuhópafund um áframhaldandi tölvuvæðingu á norðurslóðum. Þingmannanefndin lagði í framhaldinu töluverða vinnu í að undirbúa gerð sérstakrar skýrslu um þessi mál sem kynnt var á þingmannaráðstefnunni í Tromsö í ágúst 2002. Ráðstefnan samþykkti í lokaályktun sinni að beina sérstökum tilmælum til ríkisstjórna á norðurskautssvæðum um að styrkja þennan málaflokk. Auk þess var samþykkt að tölvu- og tæknimál yrðu forgangsverkefni þingmannanefndarinnar árin 2002–2004. Það er ljóst að bætt tölvunotkun og fjarkennsla gæti orðið íbúum norðursins mjög mikilvæg þegar fram í sækir, ekki síst þegar litið er til þess hversu strjálbýl þessi svæði eru og samgöngur erfiðar. Það var því sérstakt gleðiefni nefndarinnar þegar forusta Íslands í ráðinu lýsti því yfir á fundi Norðurskautsráðsins í október sl. að næstu tvö árin yrði upplýsingatækni eitt af þremur forgangsverkefnum ráðsins. Dagana 20.–21. október 2003 stóð ráðið fyrir stórri alþjóðlegri ráðstefnu um upplýsingatækni á Akureyri. Í lokaályktun var lögð áhersla á að allir þjóðfélagsþegnar við norðurskaut gætu í framtíðinni fengið aðgang að netinu á viðráðanlegum kjörum. Á ráðstefnunni voru norðurskautsríkin hvött til að setja löggjöf sem tryggi að allir geti notið upplýsingatækninnar og að íbúarnir sjálfir geti mótað framtíðarstefnu í þessum málum. Einnig var lagt til að stofnuð yrði sérstök stýrinefnd um upplýsingatækni innan Norðurskautsráðsins. Lokaályktunin og þau sjónarmið sem þar komu fram eru nú í frekari vinnslu.
    Þingmannanefndin hefur einnig fylgst grannt með vinnu við viðamikla úttekt á loftslagsbreytingum á norðurskautssvæðum, en slíkar rannsóknir eru nú eitt helsta viðfangsefni Norðurskautsráðsins. Eitt metnaðarfyllsta og stærsta verkefnið er gerð umfangsmikillar skýrslu um loftslagsbreytingar sem lögð verður fram á fundi Norðurskautsráðsins haustið 2004. Skýrslunnar er beðið með mikilli eftirvæntingu, en verkefnið er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt verður eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á nær alla þætti samfélags í norðri, ekki einungis umhverfi, dýralíf og gróðurfar, heldur einnig félags-, menningar- og efnahagslega þætti mannlífs. Það er skemmst frá því að segja að rannsóknir benda til örra loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðum næstu áratugi, breytinga sem ekki sér fyrir endann á. Jafnvel varfærnustu spár benda til örrar bráðnunar íss og jökla sem og breytinga á hitastigi sjávar, en slíkt hefur augljóslega afleiðingar fyrir land eins og Ísland. Svo er komið að jafnvel þótt allri framleiðslu á koltvísýringi yrði hætt nú þegar er áætlað að það tæki náttúruna, loftslag og sjávarföll nokkrar aldir að komast í jafnvægi. Nú þegar má greina margvísleg áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem koma skal annars staðar í heiminum. Meðalhitastig á norðurskautssvæðum er nú að mati vísindamanna það hæsta í þúsund ár, en áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 árum á norðurskautsslóðum gerist á 25 árum annars staðar í heiminum.
    Þingmannanefndin hefur auk þess fylgst með þróun Háskóla norðurslóða. Háskóli norðurslóða var stofnaður við hátíðlega athöfn í Rovaniemi 12. júní 2001, en stofnun skólans hafði þá verið fjögur ár í undirbúningi í aðildarlöndunum. Háskólanum er fyrst og fremst ætlað að vera tengiliður á milli annarra háskóla, rannsóknastofnana og samtaka sem sérhæfa sig í rannsóknum á löndum við norðurskaut. Háskólinn býður nú upp á formlega B.S.-gráðu í heimskautsfræðum og undirbúningur fyrir frekari námsáætlanir er í fullum gangi, en námið fer að miklu leyti fram með fjarkennslu í gegnum aðrar háskólastofnanir á norðurslóðum. Þingmannanefndin fékk reglulega fréttir af starfi skólans á árinu. Nefndarmenn hvöttu til eindregins stuðnings norðurskautsríkjanna við skólann og unnu kerfisbundið að því að fjárhagslegur rekstur skólans til lengri tíma yrði tryggður.
    Ýmis önnur mál voru tekin fyrir á fundum nefndarinnar á árinu 2003 sem nánar er vikið að í frásögnum hér á eftir.

IV.     Frásagnir af fundum þingmannanefndar 2003.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu, fyrst í Kaupmannahöfn dagana 10.–12. mars, í Stokkhólmi dagana 5.–7. júní og í Reykjavík dagana 17.–18. október. Sigríður A. Þórðardóttir sat alla fundi nefndarinnar fyrir hönd Íslandsdeildar, auk ritara. Rannveig Guðmundsdóttir sat einnig alla fundina sem áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs. Tilteknir nefndarmenn áttu auk þess fundi með starfsmönnum og þingmönnum í Washington, 5.–7. febrúar, og sat Þórunn Sveinbjarnardóttir þá fundi fyrir hönd Íslandsdeildar, auk ritara. Framkvæmdastjóri nefndarinnar og formaður sóttu auk þess ýmsa alþjóðlega fundi og ráðstefnur fyrir hönd nefndarinnar. Hér á eftir er einungis sagt frá þeim þremur fundum þar sem þingmannanefndin öll kom saman og formaður Íslandsdeildar sótti.

i.    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál haldinn í Kaupmannahöfn dagana 10.–12. mars 2003.
    Eftir að nefndarmenn og áheyrnarfulltrúar höfðu gert grein fyrir helstu störfum heima fyrir tilkynnti formaður nefndarinnar, Clifford Lincoln, að Ísland hefði boðið þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál að vera einn af samstarfs- og styrktaraðilum við ráðstefnu ráðsins um upplýsingatækni í október 2003. Formaður fagnaði þessu boði og færði formennsku Íslands kærar þakkir. Hann skoraði um leið á nefndarmenn að sýna málinu allan þann stuðning sem kostur væri.
    Runar Patriksson hélt erindi um upplýsingatækni, en honum hafði verið falið að móta frekari vinnu nefndarinnar í þessum efnum. Patriksson kynnti stutta skýrslu sem hann hafði tekið saman ásamt sænskum ráðgjöfum í málinu og lagði í erindi sínu sérstaka áherslu á störf þingmanna. Patriksson sagði að þingmönnum bæri skylda til að upplýsa samstarfsfólk sitt heima fyrir um stöðu upplýsingatækni á norðurslóðum. Hann sagði mikilvægt að þingmenn tækju virkan þátt í allri almennri umræðu og styddu þannig við starf Norðurskautsráðsins. Patriksson sagði að rétt lagaumhverfi skipti höfuðmáli ef frekari þróun ætti að geta orðið í þessum efnum og þar mundu þjóðþingin gegna veigamiklu hlutverki. Hann sagði að þar eð norðurskautssvæðin væru einkar auðug af eftirsóknarverðum náttúruauðlindum gæti upplýsingatækni leikið hlutverk í að aðstoða íbúa norðursins við að færa sér slíkt í nyt á sem bestan hátt. Hann nefndi sem dæmi ýmis landfræðileg tölvuforrit sem hefðu gert íbúum afskekktra svæða kleift að nýta landið á sjálfbærum grunni.
    Lars Kullerud og Erling Olsen héldu erindi um starfsemi Háskóla norðurslóða og helstu verkefni skólans. Olsen benti á að Háskóla norðurslóða væri á margbreytilegan hátt ætlað að þjóna íbúum norðurskautssvæða sérstaklega. Það væri því grundvallaratriði að sérstakt náms- og kennsluefni væri hannað handa strjálbýlum svæðum norðursins. Hann sagði upplýsingatækni vera grundvallareiningu skólans, þetta væri háskóli án veggja sem styddist nær eingöngu við tölvu- og fjarskiptatækni. Olsen sagði að innan skamms yrðu meira en 50 stofnanir víðs vegar á norðurskautssvæðum hluti af skólanum og þannig hefði myndast einstakt samstarfsnet um menntun á norðurslóðum. Olsen benti á að þingmannaráðstefna um norðurskautsmál hefði verið ómissandi við að koma skólanum á laggirnar á sínum tíma og að stuðningur nefndarinnar væri dýrmætur. Hann benti á að enn vantaði skólann nokkuð upp á til að endar næðu saman í fjárhagsáætlun. Formaður hvatti nefndarmenn til að ganga á eftir málinu við stjórnvöld heima fyrir. Ákveðið var að nefndarmenn lýstu árangri sínum í þessum efnum á næsta fundi.
    Sigríður A. Þórðardóttir sagði frá gangi mála varðandi gerð skýrslu um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum. Sigríður situr í sérstökum stýrihópi skýrslunnar, en fyrsti fundur hópsins var haldinn í desember 2002 í Reykjavík. Tilgangur fundarins hafði verið að fjalla um grundvallaruppbyggingu skýrslunnar, vinnulag og stjórnskipulag, tímatöflu og fjármögnun, og auk þess að leggja fram tillögur um helstu fræðimenn sem fengnir skyldu til skýrslugerðarinnar. Fræðimenn víðs vegar að munu skrifa mismunandi kafla skýrslunnar og er áætlað að tveir fræðimenn vinni í sameiningu hvern kafla fyrir sig. Sigríður sagði að á fundi stýrihópsins hefði einnig verið rætt hvort raunsætt væri að skila fullbúinni skýrslu haustið 2004 þar eð tíminn væri æði stuttur til verksins. Kannað var hvort sleppa mætti einhverjum köflum, en að lokum var þó ákveðið að halda upprunalegri áætlun, sem gerir ráð fyrir að kaflarnir verði fimmtán talsins. Fulltrúar frumbyggja lögðu áherslu á að sérkennum þeirra og sérstökum aðstæðum yrðu gerð góð skil í skýrslunni. Sigríður fjallaði að lokum um fjármögnun verkefnisins, en enn vantar töluvert upp á að endar nái saman. Sigríður sagði að þar eð þingmannanefndin væri sú nefnd sem í upphafi hefði lagt til við Norðurskautsráðið að skýrslan yrði gerð bæri þingmönnum nefndarinnar skylda til að styðja verkefnið sérstaklega og kanna stöðu mála hjá yfirvöldum heima fyrir. Miklar umræður urðu um skýrsluna og var samþykkt að á næsta fundi gerðu menn grein fyrir stöðu mála varðandi fjármögnun og almennan stuðning yfirvalda við gerð skýrslunnar.
    Hill-Marta Solberg gerði grein fyrir fundum sem fulltrúar þingmannanefndarinnar áttu með embættismönnum bandaríska þingsins í febrúar sl. Frank Murkowski, núverandi ríkisstjóri Alaska, átti áður sæti í þingmannanefndinni, en frá því að hann tók við ríkisstjóraembættinu hefur ekki verið tilnefndur fulltrúi í hans stað. Solberg sagði að ferðin hefði fyrst og fremst verið farin til að kynna starf nefndarinnar fyrir bandarískum embættismönnum og þingmönnum og hvetja til þess að nýr bandarískur þingmaður yrði tilnefndur til setu í nefndinni sem fyrst. Solberg sagði ferðina vel heppnaða, en helsti gestgjafi hópsins var utanríkismálanefnd bandaríska þingsins undir stjórn öldungadeildarþingmannsins Richard Lugar. Solberg nefndi einnig sérstaklega að afar áhugavert hefði verið að fá að vera viðstödd fyrirspurnartíma utanríkismálanefndarinnar, en þar sat Colin Powell fyrir svörum daginn eftir að hafa haldið fræga ræðu um Írak hjá Sameinuðu þjóðunum. Miklar almennar umræður spunnust í lok fundar um þátttöku Bandaríkjamanna og þátt þeirra í norðurskautssamstarfinu.

ii.    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál haldinn í Stokkhólmi dagana 5.–7. júní 2003.
    Formaður tilkynnti að nefndin hefði þekkst boð Íslands um þátttöku í ráðstefnu Norðurskautsráðsins um upplýsingatækni, og ítrekaði þakklæti sitt fyrir hönd nefndarinnar til formennsku Íslands. Runar Patriksson sagði einnig frá áframhaldandi vinnu við stefnumótun um upplýsingatækni á norðurslóðum.
    Harro Pitkanen, framkvæmdastjóri NEFCO, Norræna umhverfissjóðsins, hélt erindi um starfsemi NEFCO og fjármögnun verkefna í norðurskautssamstarfi. NEFCO er alþjóðleg fjármagnsstofnun sem stofnuð var árið 1990 að tilstuðlan umhverfisráðherra Norðurlanda og ráðherranefndar Norðurlandaráðs. NEFCO sérhæfir sig í verkefnum sem ætlað er að hafa jákvæð umhverfisáhrif í löndum norðursins. Hreinsun mengunar í Norðvestur-Rússlandi, þar á meðal Kalíningrad, hefur hingað til verið forgangsverkefni NEFCO, en sjóðurinn hefur stutt meira en hundrað verkefni við Barentshaf og Eystrasalt. Pitkanen sagði að NEFCO væri langvirkasta norræna fjármagnsstofnunin sem ynni að verkefnum í norðurskautssamstarfinu.
    Pitkanen velti upp ýmsum möguleikum varðandi þróun og framkvæmd samvinnuverkefna á norðurskautssvæðum. Hann nefndi að fjármögnun verkefna ýmissa vinnuhópa Norðurskautsráðsins, sem vinna ötult og mikilvægt vísindalegt starf, væri viðloðandi vandamál. Hann sagði það vera verðugt verkefni að tengja vísindasamfélagið við styrktaraðila og fjárfesta og benti á að hlutverk þingmanna og löggjafarvaldsins væri afar mikilvægt í þessu sambandi. Hann sagði að fjárfestar hefðu nær undantekningarlaust fyrst og fremst áhuga á sértækum og áþreifanlegum verkefnum en ekki áætlunum eða heildarstefnumótun. Hann sagði að stefnumótunarvinna ætti að snúast um að ákvarða forgangsverkefni ráðsins, en þegar kæmi að framkvæmdahlið væri nauðsynlegt að skýrt væri hverjir bæru ábyrgð á tilteknum verkefnum, bæði fjárhagslega og faglega. Í öllu þessu væri hlutverk þingmanna og stjórnmálamanna sérlega mikilvægt þar eð þeir sköpuðu þann lagaramma og þær stoðir sem væru nauðsynlegar til að ýta undir nýsköpun. Pitkanen kom í þessu sambandi inn á hugmynd um sérstakan sjóð innan Norðurskautsráðsins sem gæti rennt styrkari stoðum undir verkefni ráðsins. Hann sagði slíkan sjóð verða að vera mjög sveigjanlegan og byggðan upp í þeim tilgangi að styrkja sértæk verkefni ráðsins. Fjármálastofnanir, fjárfestar og bankar yrðu frá upphafi að vera hluti af stofnun slíks sjóð og taka þátt í ferlinu. Pitkanen sagði að áfram yrði unnið að þessari hugmynd og hún kynnt betur á næsta fundi Norðurskautsráðsins í samráði við forustu Íslands.
    Fundarmenn báru einróma lof á erindi Pitkanen og töldu að slíkur sjóður gæti hugsanlega orðið mikilvægt tæki til að tryggja meira fjármagn í samstarfsverkefni á norðurslóðum. Norðurskautsráðið hefur eins og kunnugt er enga fasta skrifstofu og í raun ekkert sameiginlegt fjármagn eða fjárhagslegan grunn. Oft er því vandkvæðum bundið að fá nægilegt fé til að tryggja vísindarannsóknum og störfum vinnuhópa ráðsins sem best skilyrði. Þingmannanefndin hefur frá upphafi lagt áherslu á að Norðurskautsráðið fengi fast fjármagn til að tryggja betur starfsemi ráðsins, en andstaða ákveðinna ríkja, sérstaklega Bandaríkjanna, hefur komið í veg fyrir slíkt. Þingmenn töldu að þetta gæti verið ákveðin lausn á þessum vandkvæðum þar eð einstaka ríki yrðu ekki bundin af starfsemi sjóðsins og hann yrði augljóslega verkefnatengdur.
    Svein Tveitdal, framkvæmdastjóri UNEP, og Keith Finlayson, forstöðumaður Norðurskautsdeildar UNEP Grid-Arendal, tóku þá til máls. Tveitdal kynnti fyrst alþjóðlega starfsemi UNEP, sem er afar víðtæk, og sagði þörf á að leggja meiri áherslu á norðurslóðir innan UNEP. Hann sagðist líta svo á að UNEP ætti fyrst og fremst að beina starfi sínu í norðri inn á fjórar brautir. Í fyrsta lagi ætti UNEP að auka samstarf sitt við Norðurskautsráðið, í öðru lagi við þingmannanefnd um norðurskautsmál, í þriðja lagi við samtök frumbyggja á norðurslóðum og í fjórða lagi við Háskóla norðurslóða. Tveitdal taldi mikilvægt að tryggja betur stöðu frumbyggja og styrkja þá enn frekar til góðra verka innan norðurskautssamstarfsins. Hann sagði einnig að UNEP og þingmannanefndin ættu að vinna betur saman að því að koma málefnum norðurslóða á framfæri á alþjóðavettvangi. Hann sagði miður að Ísland hefði verið eina landið sem vakið hefði athygli á norðurskautsmálum á síðasta fundi UNEP í Nairóbí. Hann sagði mikilvægt að þingmenn vektu athygli samstarfsmanna sinna og annarra stjórnmálamanna á málefnum norðurskauts.
    Þá tók dr. Robert Corell til máls. Corell fer fyrir einu metnaðarfyllsta verkefni sem norðurskautssamstarfið hefur lagt í, en það er gerð umfangsmikillar skýrslu um loftslagsbreytingar. Skýrslan verður lögð fram á fundi Norðurskautsráðsins haustið 2004 og líklegt þykir að hún muni vekja mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi. Verkefnið er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt verður eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Corell minnti fundarmenn á að eftir rúmlega ár ætti vinnuhópur skýrslunnar í raun að skila af sér þremur skýrslum. Í fyrsta lagi væri um að ræða umfangsmikla vísindalega úttekt þar sem fram kæmu viðamiklar rannsóknir á loftslagsbreytingum norðurskautssvæða fyrr og nú, sem og spár um það hverju búast megi við á næstu áratugum. Corell sagði þessa vinnu byggjast bæði á ströngustu vísindakröfum samtímans og á fornri þekkingu og visku frumbyggja. Í þessari vinnu kæmu því saman allir helstu vísindasérfræðingar í þessum málum, sem og fulltrúar frumbyggjaþjóða sem hefðu um aldaraðir byggt þessi landsvæði og varðveitt nána þekkingu á umhverfi sínu kynslóð fram af kynslóð. Í öðru lagi sagði Corell að hópurinn ætti að skila af sér styttri skýrslu, handa almenningi, þar sem fram kæmu í knöppu og auðlæsilegu máli helstu niðurstöður rannsóknarinnar. Í þriðja lagi ætti að fylgja skýrslunni greinargerð um stefnumótun í þessum málum þar sem áþreifanlegar tillögur væru settar fram og ákveðinni stefnumörkun beint til stjórnvalda norðurskautsríkja. Corell sagði að ýtrustu krafna um vísindalega sönnunarbyrði væri gætt og að hver kafli skýrslunnar væri sendur a.m.k. átta sérfræðingum til yfirlestrar. Þessum utanaðkomandi sérfræðingum væri ætlað að koma með athugasemdir og staðfesta vísindalegt gildi rannsóknarinnar. Corell fagnaði því sérstaklega að skýrslan sameinaði vestræna vísindaþekkingu og sérhæfða þekkingu og visku frumbyggja, og væri auk þess tengd ýmsum öðrum verkefnum og skýrslum sem Norðurskautsráðið hefði þegar gefið út.
    Corell fjallaði ítarlega um helstu niðurstöður sem þessi mikla rannsókn hefur nú þegar leitt í ljós. Hann nefndi m.a. að ísjakar í Beaufort- og Chuckchi-hafsvæðunum væru 25% undir minnsta meðallagi sem mælst hefði frá upphafi. Hann sagði plöntutegundir og annað gróðurlendi vera að færast æ norðar með hlýnandi loftslagi og að vor- og sumartími væri að lengjast. Hann sagði allar spár sýna að um næstu aldamót yrði norðurskautshafssvæðið íslaust að sumarlagi. Corell sagði vísindamenn nú geta greint loftslagsbreytingar af náttúrulegum orsökum frá breytingum af mannavöldum, og sagði slíkt vera afar mikilvæga nýjung við mat á niðurstöðum rannsóknarinnar. Hann sagði að jafnvel þótt allri útbreiðslu koltvísýrings af mannavöldum væri hætt nú þegar tæki það náttúruna nokkur hundruð ár að komast aftur í fyrra jafnvægi. Corell sagði lofthita á norðurskautssvæðum hafa hækkað um u.þ.b. 1°C síðustu 100 ár, sem væri um helmingi meira en á öðrum svæðum jarðar. Hann lagði hins vegar áherslu á að þetta væri breytilegt eftir svæðum og að loftslagsbreytingar mundu hafa ólík áhrif eftir svæðum jarðar; á sumum stöðum mundi hlýna til muna en annars staðar kólna. Corell nefndi einnig að hlýnandi loftslag og hlýnandi hafstraumar mundu leiða til enn örari loftslagsbreytinga. Hann sagði allar þessar breytingar augljóslega hafa áhrif á allt mannlíf svæðisins, og að t.d. væri ljóst að um 40% aukning hefði mælst á útfjólublárri geislun, sem með tímanum mundi hafa veruleg áhrif á heilsufar. Corell fjallaði einnig um samverkandi þætti loftslagsbreytinga og hafstrauma og sagði að hækkun sjávarborðs ylli alvarlegum vanda í strandbyggðum. Corell lýsti að lokum ástandinu á norðurskautssvæðum sem fyrirboða þess sem síðar kæmi fram annars staðar á jörðinni, þar eð vistkerfi norðurslóða væri sérlega viðkvæmt fyrir öllum breytingum. Hann sagði loftslagsbreytingar staðreynd sem kallaði á pólitísk viðbrögð alls staðar.
    Eftir að nefndarmenn og áheyrnarfulltrúar höfðu gert grein fyrir helstu störfum sínum og verkefnum gerði Sigríður A. Þórðardóttir grein fyrir áframhaldandi gerð skýrslu um sjálfbæra þróun. Hún sagði stýrihóp skýrslunnar hafa lagt mikla vinnu í að finna og tilnefna færustu sérfræðinga á sínu sviði til að semja kafla skýrslunnar. Hún sagði að nú væri staðfest hverjir höfundar allra kaflanna fimmtán yrðu og að í flestum tilfellum hefðu þeir fræðimenn sem leitað var til tekið að sér tilskilin verkefni. Hún sagði mikla ánægju vera með þá framúrskarandi sérfræðinga sem fengnir hefðu verið til verksins. Ritstjórn skýrslunnar og skrifstofa, sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri hefur á sinni könnu, skipuleggur nú fyrsta sameiginlega fund höfunda skýrslunnar um miðjan júní. Sigríður fór þá í saumana á hinni fjárhagslegu hlið verkefnisins og sagði að jafnvel þótt margt hefði áunnist frá því á fundi nefndarinnar í mars þá væri enn eftir að ná inn um fjórðungi fjármagns ef upphafleg fjárhagsáætlun ætti að standast. Mikil umræða varð um málið og sérhver nefndarmaður greindi ítarlega frá vinnu sinni í málinu frá síðasta fundi. Formaður nefndarinnar gerði þá grein fyrir stöðu mála varðandi Háskóla norðurslóða og kynnti sérstaklega nýja starfsáætlun skólans 2003–2007, sem og nýja fjárhagsáætlun og stefnu í fjármögnun. Háskólinn hefur komið á stofn sérstökum hópum í hverju landi sem fylgja eiga eftir kynningu, stuðningi og fjármögnun skólans. Nefndarmenn skýrðu frá vinnu sinni í þessum málum og voru sammála um að nokkuð hefði áunnist.

iii.    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál haldinn í Reykjavík dagana 17.–18. október 2003.
    Gunnar Pálsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, gaf fundarmönnum yfirsýn yfir helstu verkefni Norðurskautsráðsins undir formennsku Íslands. Gunnar fjallaði m.a. um áðurnefnda skýrslugerð um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum, væntanlega skýrslu um loftslagsbreytingar og ráðstefnu um upplýsingatækni. Gunnar sagði Íslendinga hafa lagt hart að sér við að kynna vel starfsemi ráðsins á alþjóðlegum vettvangi, og að m.a. hefði verið lögð fram greinargerð til Evrópusambandsins við nýja stefnumótun sambandsins um norðlægu víddina. Gunnar sagði að Norðurskautsráðinu hefði á síðustu árum tekist að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi og ráðið yrði æ greinilegri rödd á alþjóðavísu, sérstaklega í umhverfismálum. Þrátt fyrir þetta væri ljóst að herða þyrfti enn róðurinn í þessum efnum og leggja áfram áherslu á að kynna betur starfsemi ráðsins og sérstöðu norðurslóða á alþjóðlegum vettvangi. Gunnar benti einnig á að sýnileiki Norðurskautsráðsins á Heimsráðstefnunni í Jóhannesarborg 2002 hefði verið stórt skref fram á við, og bæri vitni um það hvernig norðurslóðir væru meir og meir að verða að vísi og viðmiðun umhverfisbreytinga fyrir heiminn allan.
    Karen Erickson, prófessor í Háskóla Alaska, fjallaði þá um öryggismál á norðurslóðum. Erickson sagði að núverandi skilgreiningar á öryggismálum væru í raun alltof þröngar. Sjónum væri nær eingöngu beint að málum sem gætu talist yfirvofandi stríðshætta, svo sem hryðjuverkum, en í raun ættu öryggismál að ná til langtum breiðara sviðs. Djúp og langvarandi áhrif mikillar mengunar, geislavirkni og alvarlegra spjalla á umhverfinu ættu til dæmis, að mati Erickson, að flokkast undir öryggismál. Af þessu öllu stæði raunveruleg og langvarandi ógn við heilsu og velferð íbúa við norðurskaut. Mengun á norðurslóðum mundi þegar fram liðu stundir hafa gríðarleg áhrif á allt mannlíf, þótt auðvelt væri að loka augunum fyrir vandanum með skammtímahagsmuni í huga. Erickson sagði að vegna þess hve öryggismál væru skilgreind þröngt væru vandamál sem þessi nær alltaf síðast á forgangslistanum og því væri ekki almennilega tekið á þeim. Erickson sagði að íbúar norðurskautssvæða þyrftu að láta meira til sín taka hvað þetta varðaði. Hún sagði að því fyrr sem stór og langvarandi umhverfisvandamál yrðu felld inn í umræðu um öryggis- og utanríkismál þeim mun líklegra væri að stórveldi eins og Bandaríkin létu raunverulega til sín taka í þessum efnum. Hún sagðist vona að norðurskautssamstarfið gæti orðið meira áberandi í alþjóðlegu samhengi, ekki síst í umræðum um öryggismál, því að þá mundu ríki eins og Bandaríkin leggja meiri áherslu á samstarfið og tryggja áframhaldandi stöðu þess.
    Níels Einarsson hélt þá erindi um skýrslu um sjálfbæra þróun og ítrekaði hversu ánægðir ritstjórar verksins væru með þá fræðimenn og höfunda sem fengnir voru til verksins. Hann sagðist bjartsýnn á að þessi stóri hópur semdi markverða og vandaða skýrslu. Hann sagði hins vegar ljóst að vegna minna fjármagns til skýrslugerðarinnar en upphaflega var áætlað yrði allur kostnaður, t.d. við prentun og útlit, skorinn niður og áhersla fyrst og fremst lögð á traust efnistök. Hann minnti fundarmenn á að skýrslunni væri í raun ekki endilega ætlað að birta nýjar rannsóknir, heldur fyrst og fremst að taka saman allt það sem fyrir lægi um þessi mál, og veita þannig yfirsýn yfir þá þekkingu sem til er um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum. Um leið mun skýrslan gefa yfirsýn yfir þá þætti þar sem frekari rannsóknir skortir, og slíkt sagði Níels ekki vera síður dýrmætt. Níels lagði áherslu á að skýrslan mundi ekki beinlínis verða stefnumótandi verk, en vonandi gæti hún þó nýst sem tæki til að vega og meta ákvarðanir. Hann vonaðist einnig til þess að skýrslan auki þekkingu almennings á norðurslóðum og sagði að áhersla yrði lögð á velgengni og velferð samfélagshópa norðursins. Sú velferð væri alls ekki alltaf háð náttúruauðlindum, eins og mörgum hætti til að halda fram, heldur ekki síður mannauði í þorpum, bæjum og borgum.
    Lars Kullerud gerði því næst stutta grein fyrir því hvað hefði áunnist á liðnum mánuðum við að afla Háskóla norðurslóða frekari stuðnings. Hann þakkaði sérstaklega veittan stuðning þingmannanefndarinnar og sagðist vonast til að skólinn og þingmannanefndin héldu áfram góðu sambandi. Lavst Riemann Hansen skýrði að því búnu frá undirbúningsvinnu fyrir næstu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem halda á dagana 3.–6. september 2004 í Nuuk á Grænlandi. Nefndarmenn ræddu um helstu málefni sem til greina kom að taka fyrir á ráðstefnunni. Eftir miklar bollaleggingar var ákveðið að helstu efnistök ráðstefnunnar yrðu loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðum, sjálfbær samfélagsþróun, umhverfisvænn ferðamannaiðnaður og siglingaleiðir á norðurskautssvæðum. Einnig var ákveðið að hafa sérstakan dagskrárlið þar sem formanni Norðurskautsráðsins væri sérstaklega boðið að flytja tölu og gera grein fyrir helstu áherslum og verkum Íslands á formennskutímabilinu 2002–2004.

Alþingi, 1. mars 2004.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form.


Magnús Stefánsson,


varaform.


Guðrún Ögmundsdóttir.