Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 691. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1283  —  691. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um opinbera fjölskyldustefnu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað hafa stjórnvöld gert til að ná markmiðum við framkvæmd fjölskyldustefnu skv. II. kafla þingsályktunar um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar sem samþykkt var á Alþingi 13. maí 1997?
    
Opinber fjölskyldustefna.
    Til að undirbúa gerð fjölskyldustefnu hefur fjölskylduráð unnið að upplýsingaöflun, meðal annars með samantekt á þeim verkefnum sem ráðuneytin sinna og könnun á afstöðu sveitarfélaga til fjölskyldumála.

Fjölskyldustefna sveitarfélaga.
    Fjölskylduráð sendi öllum sveitarfélögum bréf 20. ágúst 1999 og benti þar á þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Vakin var athygli sveitarstjórna á því að þeim bæri að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Jafnframt var óskað eftir ábendingum um hvað sveitarfélögin teldu vera brýnustu aðgerðir í málefnum fjölskyldna.

Könnun á viðhorfum sveitarfélaga til málefna fjölskyldunnar.
    Fjölskylduráð taldi að þar sem mjög mörg verkefni sem snúa að fjölskyldunni væru í höndum sveitarfélaga væri eðlilegt að fá fram viðhorf þeirra. Ráðið gerði því könnun á viðhorfum sveitarfélaga á málefnum fjölskyldunnar. Spurningalistar voru sendir til sveitarfélaga í ágúst 1999. Svörun var dræm en fyrir því liggja margvíslegar ástæður. Sumar spurningarnar tóku til margra þátta, kröfðust nokkurrar umhugsunar og öflun upplýsinga. Síðustu svörin bárust í marsmánuði árið 2000. Könnuninni svöruðu að lokum 82 sveitarfélög af 124, eða 68% sveitarfélaga á landinu. Könnunin var kynnt á blaðamannafundi og fékk umfjöllun í fjölmiðlum. Fyrsti hlutinn fjallaði um fjölskyldustefnu almennt. Spurt var hvort sveitarfélögin hefðu þegar hafist handa við mótun fjölskyldustefnu, hvort ákveðið hefði verið að hefja það starf og þá hvenær, og einnig hvenær áætlað væri að vinnu við fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið yrði lokið. Annar hlutinn fjallaði um fjölskylduna og atvinnulífið og til hvaða aðgerða sveitarfélög hefðu gripið til að bæta hag fjölskyldunnar. Þriðji og síðasti hlutinn fjallaði um hvernig sveitarfélög stæðu að forvörnum og fræðslu í málefnum fjölskyldunnar. Spurt var um fræðslu, ráðgjafarþjónustu, sérfræðinga og samstarf við aðila sem tengjast málefnum fjölskyldunnar. Þá var sveitarfélögum gefinn kostur á að gera grein fyrir aðgerðum sínum á þessu sviði, ásamt því að koma á framfæri atriðum sem fjölskylduráð ætti að þeirra mati að leggja áherslu á að beita sér fyrir. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar 15. maí 2001 og má finna á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.
    Fulltrúar úr fjölskylduráði áttu fundi með stjórn og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga um gerð fjölskyldustefnu sveitarfélaga. Fjölskylduráð hvatti sveitarfélögin til að móta sér fjölskyldustefnu. Fram komu óskir um að ráðið veitti sveitarfélögunum aðstoð við verkefnið (m.a. í könnun sem ráðið gerði). Ráðið taldi vinnuferlið sjálft afar mikilvægt enda ætti þá sér stað umræða milli starfsmanna, stjórnmálamanna og íbúa. Haustið 2001 var valin sú leið að dreifa upplýsingum sem að gagni gætu komið við gerð fjölskyldustefnu. Settar voru fram handhægar upplýsingar á heimasvæði fjölskylduráðs á vefsíðu félagsmálaráðuneytisins. Þar er meðal annars að finna leiðbeiningar, skilgreiningar á hugtakinu fjölskylda og fjölskyldustefna, markmið með gerð fjölskyldustefnu, helstu forsendur sem eðlilegt er að gengið sé út frá við mótun hennar, hugmyndir um til hvaða verkefna hún skuli ná, umfjöllun um hag sveitarfélaganna af gerð fjölskyldustefnu og hugmyndir um hvernig vinna megi að gerð hennar. Frá þessu var einnig greint í bréfi sem sent var til sveitarfélaganna í október árið 2001. Í bréfinu voru sveitarfélögin hvött til að hefja gerð fjölskyldustefnu og boðin ráðgjöf við verkið. Því næst voru samdar ítarlegri leiðbeiningar um vinnuferlið sjálft með hliðsjón af reynslu þeirra sveitarfélaga sem fyrst luku gerð fjölskyldustefnu, þ.e. Garðabæjar og Akureyrarkaupstaðar. Leiðbeiningarnar voru sendar starfsmönnum sveitarfélaganna og settar á heimasíðuna. Starfsmaður og formaður mættu á fundi með fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem þess óskuðu en einnig var veitt aðstoð í síma.

Fjölskyldustefna ráðuneyta.
    Fyrsti undirbúningur að gerð fjölskyldustefnu fyrir ráðuneytin hófst með því að skrifað var bréf til félagsmálaráðherra 29. nóvember 1998 þar sem ráðið lýsti áhuga sínum á að hafist væri handa við gerð fjölskyldustefnu árið 1999.
    Byrjað var á upplýsingaöflun um slíkar stefnur í ýmsum löndum. Ráðið kynnti sér upplýsingar um stefnu ríkisstjórna og/eða ráðuneyta og fjallaði um með hvaða hætti marka mætti slíka stefnu hér á landi og hvaða þætti ætti að taka inn til hagsbóta fyrir fjölskyldur. Leitað var álits á því hvaða aðferðafræði væri heppilegust við slíka stefnumörkun og fékk ráðið í því skyni til liðs við sig sérfræðing varðandi þau mál og var haldinn tveggja daga fundur í Skálholti dagana 5. og 6. júlí 1999. Á þeim fundi var reynt að draga fram hvaða málaflokka ætti að leggja sérstaka áherslu á og af hverju. Farið var meðal annars yfir verksvið ráðuneyta og rætt um innri og ytri þætti sem snúa að fjölskyldunni.
    Óskað var eftir tilnefningu frá öllum ráðuneytum í samstarfshóp um fjölskyldumál. Með því að fá aðgang að tengiliðum í öllum ráðuneytum var ætlunin að gera það mögulegt að a) skapa vettvang til að ræða mál sem varða fjölskylduna, b) bæta við þekkingu ráðsins, c) auðvelda aðgang að upplýsingum og d) auka samræmi í ákvörðunartöku gagnvart fjölskyldunni.

Samantekt fjölskylduráðs um málefni fjölskyldunnar.
    Hagsmunir fjölskyldunnar eru margþættir og snerta mörg ólík svið innan samfélagsins. Sökum þess er mikilvægt að þeir aðilar sem eru stefnumótandi innan hvers sviðs, svo sem heilbrigðis, félagslegra réttinda, menntunar, húsnæðis, umhverfis og menningar, samræmi störf sín til að bæta lífsskilyrði fjölskyldnanna í landinu. Þar þarf ekki síst að hafa í huga hversu fjölbreytilegar fjölskyldur geta verið og þarfir þeirra misjafnar. Þess vegna er mikilvægt að fyrir hendi liggi heildarsýn yfir þau málefni er lúta að fjölskyldunni og stjórnvöld eru að vinna að. Því ákvað fjölskylduráð að taka saman upplýsingar um málefni fjölskyldunnar sem lið í að marka opinbera fjölskyldustefnu. Þetta var í fyrsta skipti sem áætlanir ráðuneytanna á sviði fjölskyldumála voru teknar saman í eitt rit (50 bls.). Ritið kom út 15. maí 2001 og má finna á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.
    Með samantektinni og sveitarfélagakönnuninni lá fyrir heildstætt yfirlit yfir verkefni stjórnvalda í þágu fjölskyldna, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Skömmu seinna kviknaði hugmynd sem ráðið taldi mikilvægt að skoða en það er gerð mælitækis sem mældi velferð fjölskyldunnar og nefnt var Fjölskylduvog og vikið verður að síðar. Sum ráðuneytin hafa nú þegar tekið upp fjölskyldustefnu sem hluta af starfsmannastefnu í viðkomandi ráðuneyti.

Fjölskylduvog.
    Á haustmánuðum árið 2001 var byrjað að móta hugmynd um Fjölskylduvog sem verður safn lykiltalna og upplýsinga um stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi, þar sem sjá mætti breytingar yfir tíma og milli landshluta. Fjölskylduvogin var hugsuð þannig að notaðir yrðu mæliþættir sem væru a) mældir reglulega svo sjá mætti tilhneigingar yfir tíma, b) skráðir eftir landsvæðum svo að fram kæmi mismunur svæðanna og c) almennir svo að þeir endurspegli alla þjóðina. Þeir eiga að gefa greinargóðar upplýsingar, til dæmis um fjárhagslega afkomu fjölskyldna, húsnæðismál, menntun, heilsu, vinnutíma, sem og fjölskyldutíma, lífstíl og félagslega getu. Þá er æskilegt að með fylgi á hverjum tíma upplýsingar um þróun fjölskyldna í landinu (svo sem stærð, sambúðarform og fjölmenningarlega samsetningu) og tilhneigingar. Gert er ráð fyrir að aðilar með fjölbreytta sérþekkingu komi að gerð mælitækisins. Fjölskylduvoginni er ætlað að vera eins konar vísitala á málefni fjölskyldunnar með einni tölulegri útkomu á hverjum tíma.
    Eftir að málið hafði verið rætt við fjölmarga aðila var ljóst að verulegur áhugi var á framkvæmd þess. Það er Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sem var fengin til að vinna við gerð Fjölskylduvogarinnar fyrir ráðið. Þessa dagana er fjölskylduráð að lesa yfir lokadrög að Fjölskylduvoginni sem ætlað er að verða mæling á lífsgæðum fjölskyldunnar. Þetta er bæði mjög flókið og tímafrekt verkefni. Gert er ráð fyrir að verkefninu verði lokið næsta vor.

Að lokum.
    Fjölskylduráð telur að Fjölskylduvogin geti orðið besta tækið til að bæta lífsgæði fjölskyldunnar. Gerð fjölskyldustefnu án möguleika á að mæla árangur sé ekki eins virkt stjórntæki. Auk þess munu rannsóknir, sem farið verður í tengslum við gerð Fjölskylduvogarinnar, auka þekkingu á högum fjölskyldunnar. Án mælitækis verði stefnur oft innantóm orð og því leggur fjölskylduráð mikla áherslu á að ljúka þeim áfanga sem fyrst. Í kjölfarið verður farið í gerð framkvæmdaáætlana.
    Þá er rétt að taka fram að í lok september á þessu ári er fyrirhuguð ráðstefna með fulltrúum sveitarfélaganna um fjölskyldustefnu og þar mun félagsmálaráðherra kynna stefnumörkun ráðuneytisins í fjölskyldumálum.