Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 886. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1345  —  886. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um íþróttaáætlun.

Flm.: Gunnar Örlygsson, Guðjón A. Kristjánsson, Þuríður Backman,


Valdimar L. Friðriksson, Magnús Þór Hafsteinsson, Steinunn K. Pétursdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa og leggja fram áætlun um markmið og stefnu ríkisins í íþróttamálum til fimm ára. Í áætluninni komi m.a. fram markmið ríkisins hvað varðar eflingu almennings- og afreksíþrótta, hvernig tryggt verði að öll börn hafi jafna möguleika til að stunda íþróttir innan og utan skóla, og gerð grein fyrir fjáröflun til íþróttamála og fjárstuðningi ríkisins við íþróttastarf í landinu og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Að auki verði í áætluninni fjallað um rannsóknir sem ríkið tekur þátt í á sviði íþróttamála.
    Áætlunin verði unnin í samstarfi við íþróttahreyfinguna, íþróttakennara og sveitarfélög og lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi.

Greinargerð.


    Gildi íþrótta fyrir líkamlega og andlega vellíðan fólks er fyrir löngu viðurkennt. Á síðustu árum hefur áhugi almennings á íþróttum vaxið mikið enda kemur sífellt betur í ljós hvernig þær efla þrek og þrótt ungra sem aldinna. Þá hafa sjónir manna einnig beinst að hlut þeirra í forvörnum gegn vímuefnaneyslu og öðru miður góðu líferni. Þrátt fyrir þetta liggur ekki fyrir skýr stefnumörkun ríkisins í íþróttamálum til lengri tíma. Flutningsmenn telja að ríkinu beri að setja niður skýra stefnu í íþróttamálum og tryggja þannig vöxt íþróttamála.
    Mikilvægi þess að ríkið geri áætlanir yfir fyrirhuguð verk í tilteknum málaflokkum hefur sýnt sig og dugar þar að vísa til jafn ólíkra flokka sem jafnréttismála og vegamála þar sem ráðherra yfir hvorum málaflokki er skylt samkvæmt lögum að leggja fram áætlun á hverjum tíma. Með framlagningu áætlana er fólki ekki aðeins gerð grein fyrir hvert ríkið stefnir heldur vekur það einnig umræður. Þá geta einstaklingar og frjáls félagasamtök stuðst við áætlanir ríkisins, t.d. íþróttum, þegar þeir setja sér markmið. Því er mikilvægt að horft sé til lengri tíma en eins árs í senn eins og algengt er hjá ríkinu þar sem fjárlög hvers árs eru látin ráða stefnunni.
    Í 1. gr. íþróttalaga, nr. 64/1998, merkja íþróttir „hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti“. Menntamálaráðherra fer með yfirumsjón íþróttamála að því leyti er ríkið lætur þau til sín taka og meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála skal vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði, sbr. 2. og 3. gr. íþróttalaga.


Prentað upp.

    Íþróttahreyfingin hefur unnið þarft og óeigingjarnt starf. Ótal dæmi eru um að sjálfboðaliðar hafi lyft grettistaki í íþróttamálum og sama hvar farið er um landið gegna ungmenna- og íþróttafélögin lykilhlutverki í barna- og unglingastarfi. Það er viðurkennt, m.a. í íþróttalögum, að íþróttastarf utan skóla er fyrst og fremst í höndum einstaklinga og félaga þeirra. Það þýðir þó ekki að ríkið komi ekki að þeim málum og beri þar engar skyldur. Framlög ríkisins til íþróttamála utan skóla eru veruleg en það vantar upp á að þar sé fylgt fastri stefnu. Með íþróttáætlun ætti verða auðveldara fyrir ríki, sveitarfélög og íþróttahreyfinguna að setja sér markmið um fé til málaflokksins frá ríkinu og þannig væri tryggt að fjármunir rötuðu þangað sem þeirra er þörf og að sett markmið náist bæði í almennings- og afreksíþróttum.
    Í íþróttaáætlun þarf að kveða skýrt á um fjármögnun og styrki ríkisins til íþrótta. Þar verður að sýna fram á að árleg framlög geti tryggt almennan rekstur íþróttahreyfingarinnar auk þess sem gera þarf áætlun yfir styrki til sérsambanda. Einnig er mikilvægt að tekið verði á jöfnun ferðakostnaðar íþróttamanna eftir landsvæðum en í því tilliti má vísa til 135. máls á yfirstandandi löggjafarþingi, sem er tillaga til þingsályktunar um ferðasjóð íþróttafélaga. Þá er æskilegt að skoðaðir verði kostir þess að veita fyrirtækjum sem styrkja íþróttahreyfinguna skattaívilnanir.
    Margvíslegt gott starf hefur verið unnið í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar á síðustu árum og ljóst að starf þessara aðila þarf að vera samræmt. Því leggja flutningsmenn áherslu á að ráðherra hafi samráð við sveitarfélög og íþróttahreyfinguna við gerð íþróttaáætlunar.