Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 591. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1504  —  591. mál.
Svardómsmálaráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur um fangelsis- og refsimál.

     1.      Hver er stefna dómsmálaráðuneytis í fangelsis- og refsimálum?
    Almennt er það að segja að ráðuneytið leggur megináherslu á að stofnanir þess hafi aðstöðu til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin með lögum og reglugerðum. Hlutverk refsivörslukerfisins er í stystu máli að sjá til þess að dæmdir menn taki út þá refsingu sem þeim hefur verið ákveðin af dómstólum, að sjálfsögðu að teknu tilliti til reglna um reynslulausn og náðanir. Fram hjá þessu meginhlutverki refsivörslukerfisins verður ekki horft og ekkert við því að segja að hegning komi illa við þann sem henni er beittur. Það breytir þó vitaskuld ekki því að ekki er sama hvernig farið er með fanga og ráðuneytið er vissulega þeirrar skoðunar að aðbúnaður þeirra og viðurgerningur verði að vera með sæmilegum hætti, eins og ætlast má til í fangelsi. Jafnframt því telur ráðuneytið æskilegt að refsifangar sem vilja snúa líferni sínu til betri vegar fái aðstoð til þess ef þeir þurfa hennar með. Þannig hefur kennsla á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands skilað góðum árangri í fangelsinu á Litla- Hrauni og vafalítið orðið til þess að hjálpa mörgum föngum og opna þeim ýmsa möguleika þegar úr fangelsinu hefur komið. Ráðuneytið telur það kennslustarf ákaflega mikilvægt. Fangelsisyfirvöld hafa átt afar farsælt samstarf við félagasamtökin Vernd en í húsi félagsins í Reykjavík, þar sem allt að 20 manns geta dvalið í senn, hafa mjög margir fangar lokið síðustu mánuðum afplánunar sinnar og þar með hafa viðbrigðin orðið minni við endanlega lausn. Þá er nokkuð um að fangar hafi lokið afplánun sinni á meðferðarstofnunum vegna áfengis- eða vímuefnavanda. Reynt er að tryggja föngum vinnu við hæfi og eftir getu þeirra og gera þeim kleift að nýta tómstundir með uppbyggilegum hætti. Ráðherra hefur beitt sér fyrir því að útivistartími fanga verði aukinn, það er að segja sá tími sem þeir geta verið utan húss en innan fangelsismarka, enda telur ráðuneytið að það geti orðið til þess að minnka líkur á einhæfni og iðjuleysi í fangavistinni. Þetta er í samræmi við óskir sem fulltrúar trúnaðarráðs fanga settu fram á fundi með ráðherra síðastliðið haust og síðan hefur verið unnið að þessu máli og lengri útivistartími fanga mun taka gildi nú í sumar.

     2.      Hvaða markmið hefur ráðuneytið sett sér í þessum málaflokki?

    Ráðuneytið hefur vitaskuld það markmið að refsivörslukerfið hafi áfram aðstöðu og tæki, þar á meðal lagaumhverfi, til að sinna hlutverki sínu með öruggum hætti, þannig að hvorki halli á þjóðfélagslega nauðsyn þess að refsidómum sé fullnægt né brotið á grundvallarréttindum fanga. Vitaskuld skiptir verulegu máli að húsakostur sé í sæmilegu horfi og undanfarin ár hefur verið unnið að bættum húsakosti fanga. Síðumúlafangelsið var lagt niður árið 1996 og ári síðar var reist ný bygging fyrir almenna afplánun á Litla-Hrauni. Þá hefur verið unnið að hönnun gæsluvarðhaldsfangelsis og verið tryggð lóð undir það á Hólmsheiði í Reykjavík. Ekki hefur hins vegar fengist fjárveiting til þeirrar framkvæmdar, en áfram verður unnið að málinu. Með nýju fangelsi opnast nýir möguleikar í afplánun og auðveldara verður að deila föngum skynsamlega milli fangelsa og aðstaða öll verður betri, bæði fyrir fangana sjálfa og þá sem erindi eiga við þá.
     3.      Hvernig birtast þau í núverandi skipulagningu málaflokksins?
    Ráðuneytið hefur ekki breytt skipulagi málaflokksins í verulegum atriðum á síðustu missirum. Nýlega var lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp að nýjum lögum um fullnustu refsinga en í ljósi athugasemda sem bárust við það ákvað ráðherra að kalla frumvarpið inn til skoðunar að nýju. Ekki liggur fyrir hver niðurstaða þeirrar skoðunar verður eða hvers efnis frumvarpið verður þegar það verður að nýju lagt fyrir Alþingi. Mikilvægt er að reglur, sem gilda um fangelsismál og bæði fangar og fangelsisyfirvöld þurfa að hlýða, hafi trygga og skýra lagastoð svo að enginn þurfi að velkjast í vafa um rétt sinn og skyldur. Tryggja verður að fangelsisyfirvöld geti sinnt því meginhlutverki sínu að framfylgja refsidómum og að öryggi bæði fanga og starfsmanna sé tryggt, og jafnframt að fangar fái tækifæri til að snúa lífi sínu til betri vegar og fái aðstoð til þess með þeim hætti að samrýmst geti dómi þeirra og refsivist.