Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 737. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1716  —  737. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um stofnun Landsnets hf.

Frá Steingrími J. Sigfússyni.



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir stofnun sameignarfélags í eigu ríkis og sveitarfélaga er skal annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum raforkulaga, nr. 65/2003.
                  Iðnaðarráðherra annast undirbúning að stofnun Samnets og fer með framkvæmd laga þessara.
     2.      Við 2. gr.
              a.      Í stað orðanna „Landsnets hf.“ í greininni og sömu orða hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi í viðeigandi beygingarfalli: Samnets.
              b.      Í stað orðsins „Hlutafélaginu“ í upphafi 2. málsl. komi: Sameignarfélaginu.
     3.      Við 3. gr. Í stað orðsins „hlutafjár“ í 1. málsl. komi: stofnfjár.
     4.      Við 4. gr. 2. mgr. orðist svo:
                  Eigendur sameignarfélagsins Samnets verða í upphafi, auk ríkisins, þau sveitarfélög sem nú eru eigendur flutningsvirkja og kjósa að leggja metinn eignarhlut sinn inn í sameignarfélagið fremur en að leigja Samneti afnot af flutningsvirkjum sínum. Sveitarfélög sem í byrjun kjósa að leigja sín flutningsvirki geta þó síðar gerst aðilar að sameignarfélaginu og lagt þar inn metinn eignarhlut sinn og taka um leið á sig þær skuldbindingar sem fylgja eignaraðild. Önnur sveitarfélög en þau sem getur í 1. málsl. geta æskt þess að gerast aðilar að sameignarfélaginu Samneti þegar það hefur verið stofnað enda leggi þau inn metnar eignir eða stofnfé í samræmi við þann hlut er þau öðlast.
     5.      Við 5. gr. Í stað orðsins „hlutafélagalögum“ komi: lögum um sameignarfélög.
     6.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um stofnun Samnets.

Greinargerð.


    Frumvarp það um stofnun fyrirtækisins Landsnets hf. sem hér eru lagðar til breytingar á er hluti af lagalegum ráðstöfunum til þess að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir raforku. Megintillaga flutningsmanns í málinu er sú að frestað verði frekari aðgerðum í átt til markaðsvæðingar raforkugeirans og íslenskum stjórnvöldum falið að leita eftir viðræðum við Evrópusambandið um að Ísland fái undanþágu frá tilskipuninni. Raforkutilskipun Evrópusambandsins á engan veginn við á Íslandi enda er hér um einangraðan raforkumarkað að ræða, landfræðilegar aðstæður gerólíkar og margt fleira sem rökstyður það að Ísland eigi ekkert síður að fá undanþágu frá þessum ákvæðum um innri markað á sviði raforku en frá sambærilegri tilskipun um jarðgas sem Ísland er undanþegið. Verði af því hins vegar að raforkugeiranum verði breytt í þessa átt er afar mikilvægt að mati flutningsmanns að tryggja eftir föngum hagsmuni neytenda og jafna stöðu landsmanna án tillits til búsetu hvað varðar verð, aðgang og afhendingaröryggi raforku. Markaðsvæðing raforkubúskaparins erlendis hefur víða reynst mjög illa að þessu leyti, raforkuverð hefur hækkað, misrétti aukist og afhendingaröryggi minnkað. Ekki síst hefur einkarekstur flutningskerfanna víða haft hrapallegar afleiðingar í för með sér og því er lagt til hér að verði stofnað sérstakt flutningsfyrirtæki þá verði það opinbert sameignarfélag en ekki hlutafélag.