Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 753. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1809  —  753. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur um félagslega túlkunarsjóðinn.

     1.      Hver er staða sjóðsins núna?
    Árið 1995 setti þáverandi félagsmálaráðherra, Rannveig Guðmundsdóttir, reglur um rétt til táknmálstúlkunar. Reglur þessar voru viðbót við þann rétt sem til staðar var. Ákvörðun um rétt einstaklinga fer samkvæmt mati Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og viðkomandi svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra. Enginn formlegur sjóður hefur verið stofnaður á grundvelli fyrrgreindra reglna, enda gera þær ekki ráð fyrir slíku.
    Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur samkvæmt reglunum úthlutað því fé sem er til ráðstöfunar á hverjum tíma til táknmálstúlkunar. Ríkisstjórnin ákvað að verja af eigin ráðstöfunarfé 4 millj. kr. á sl. ári sérstaklega til félagslegrar túlkunarþjónustu og hefur öllu því fé verið ráðstafað.

     2.      Er fyrirhugað að auka fé sjóðsins á næstunni?
    Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem annast greiðslur fyrir félagslega túlkaþjónustu, heyrir undir menntamálaráðuneytið. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hve mikið fé verður til ráðstöfunar til túlkaþjónustu á næsta ári, en ljóst er að þarfirnar kalla á hækkað framlag.

     3.      Stendur til að endurskoða verklagsreglur sjóðsins um greiðslur fyrir túlkunarverkefni?
    Ekki svo vitað sé, enda er ekki um eiginlegan sjóð að ræða.

     4.      Er fyrirhugað að koma greiðslum til félagslegrar túlkunarþjónustu í varanlegt horf, t.d. í fjárlögum?
    Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra annast greiðslur fyrir félagslega túlkunarþjónustu og er fyrirkomulag þeirra í allgóðu horfi. Á þessu sviði, sem svo mörgum öðrum, er fjármagnið takmarkað og ekki unnt að verða við öllum beiðnum sem berast. Árið 2002 ráðstafaði Samskiptamiðstöðin samtals 22 millj. kr. til táknmálstúlkunar. Þar af voru 2 millj. kr. af fjárveitingu í fjárlögum, 3 millj. kr. sem ríkisstjórnin veitti til táknmálstúlkunar af eigin ráðstöfunarfé, 7,5 millj. kr. vegna skólatúlkunar og 9,5 millj. kr. sem komu frá ráðuneytum og stofnunum. Árið 2003 ráðstafaði Samskiptamiðstöðin samtals 22,7 millj. kr. til táknmálstúlkunar. Þar af voru 4,2 millj. kr. af fjárveitingu í fjárlögum, 4 millj. kr. sem ríkisstjórnin veitti til táknmálstúlkunar af eigin ráðstöfunarfé, 7,4 millj. kr. vegna skólatúlkunar og 7,1 millj. kr. sem komu frá ráðuneytum og stofnunum. Á þessu má sjá að fleiri en eitt ráðuneyti koma hér við sögu og er ástæða til að koma greiðslum til félagslegrar túlkunarþjónustu í fastari skorður í framtíðinni.
    Þess ber einnig að geta að félagsþjónustan er á vegum sveitarfélaga og hafa nokkur stærri sveitarfélög lagt Samskiptamiðstöðinni til fé sem varið er til félagslegrar túlkunarþjónustu við íbúa viðkomandi sveitarfélaga.
     5.      Stendur til að önnur túlkafyrirtæki en Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra geti fengið greitt úr sjóðnum að loknum félagslegum túlkunarverkefnum eins og reglur sjóðsins kveða á um?
    Framlög hins opinbera til félagslegrar táknmálstúlkunar fara til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem ráðstafa þeim í samræmi við gildandi reglur. Samkvæmt fyrrnefndum reglum félagsmálaráðuneytis frá árinu 1995 um rétt til táknmálstúlkunar skal viðkomandi sækja rétt sinn til táknmálstúlkunar til viðkomandi svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra, sem úrskurðar um rétt til þjónustu. Á vegum Samskiptamiðstöðvar eru starfandi fimm túlkar og takmarkast þjónusta miðstöðvarinnar við þá. Framlög til annarra túlkafyrirtækja vegna félagslegrar táknmálstúlkunar verða að grundvallast á samningi við viðkomandi ráðuneyti.