Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 16:56:40 (5414)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:56]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einkum tvennt sem mig langar til að víkja að í máli hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Halldórs Blöndals. Það er í fyrsta lagi það sem hann sagði réttilega að rjúpan leitaði til byggða þegar snjóaði og sæist þá mikið. Ég hygg að það sé þá líka þannig að rjúpan leiti til fjalla þegar snjólétt er og haldi sig þá í meiri hæð. Það hlýtur því líka að vera þannig að við sjáum minna af rjúpu í snjóléttu ári nema þá að menn gangi hátt til fjalla. Ég veit þess vegna ekki hvort við getum lagt sérstaklega út af þessu.

Ég vil hins vegar beina þeirri spurningu til hv. þingmanns af því hann er með tillögu um að breyta veiðitíma rjúpunnar til 1. nóvember, hvort hv. þingmaður hafi hugleitt að ef til vill ætti sá tími að vera breytilegur einmitt við þær forsendur sem ég vék að, þ.e. að ráðherra hafi það í hendi sér að ákveða miðað við snjóalög og aðrar aðstæður hvort hleypt sé af stað veiði 1. nóvember eða 15. október. Að þessu vildi ég nú spyrja.

Hins vegar hvað varðar það sem hv. þingmaður ræddi um, þ.e. veiðar á öndum, þá er ég nú farinn að hallast að því að hv. þingmaður hafi margt til síns máls í þeim málflutningi.