Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 17:01:04 (5416)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:01]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna frumvarpinu sem hér var lagt fram. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur 1. umr. málsins og vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að taka málið föstum tökum og skipa hina svokölluðu „rjúpnanefnd“ og í framhaldi af því að leggja fram frumvarpið. Ég er ánægður með það að öllu leyti fyrir utan eitt atriði í 3. gr. frumvarpsins og kem inn á það síðar.

Það er rétt að fara yfir tilurð þessa ágæta veiðibanns, en það var í tíð hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, og þá átti ég sæti í umhverfisnefnd. Okkur voru gefnir þeir úrslitakostir að annaðhvort mundum við samþykkja sölubann ellegar mundi verða sett veiðibann á stofninn. Með því fylgdi líka sú kvöð að það yrði ekki leyft að flytja rjúpu frá öðrum löndum. Við létum ekki bjóða okkur þá hótun og samþykktum ekki sölubann, sem ég hef miklar efasemdir um að gangi, og þá kom veiðibannið.

Við í nefndinni kölluðum til sérfræðinga í málinu, þá Arnþór Garðarsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Arnór Sigfússon fuglafræðing. Niðurstaða þeirra beggja var að rjúpan, sem er þannig frá náttúrunnar hendi að náttúrulegar sveiflur eru miklar í stofninum á 10 ára fresti, hafi einmitt verið í lægð þá. Síðan hefur stofninn rétt við núna. Þeir vildu meina að skotveiði hafi afar lítil áhrif á sveifluna í stofninum, þvert á móti áliti sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar.

Hverjir eru kostir og gallar sölubanns? Auðvitað dregur það úr magnveiðunum því talað hefur verið um að 10% veiðimanna veiddu yfir 50% af rjúpunni. Galli sölubanns er hins vegar sá að það fara náttúrlega fram vöruskipti og við þekkjum þá stöðu sem oft vill verða á Íslandi að fuglinn verður aldrei betri á bragðið en þegar hann er bannaður. Einnig má segja að þetta rýri kost bænda þar sem þetta hafa verið hlunnindi fyrir þá, þó svo bændur geti kannski haft aðrar aðferðir og selt inn á lönd sín fyrir skotveiðimenn. Hæstv. umhverfisráðherra hefur svo möguleika á svæðisbundinni friðun og öðrum atriðum til að minnka ásóknina í stofninn. Hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á það áðan að bannið gilti ekki á eignarjörðum. Ég held að það sé alveg laukrétt, en á stórum svæðum í eigu ríkisins og opinberra aðila gæti þetta dugað til.

Ég styð eðlilega frumvarpið og þær breytingartillögur sem hér eru. Ég hef fyrirvara við 3. gr. og ætla að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Bann við sölu á veiðifangi.

Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils.“

Við erum eingöngu að tala um rjúpu en inn í þetta er allt í einu skellt „banna sölu á þeim fuglum“, ekki íslenskri rjúpu. Það er sem sagt sölubann. Hæstv. ráðherra hefur það í hendi sér þegar lögin verða samþykkt að banna sölu á þeim fuglum sem hún hefur aflétt friðun á samkvæmt 17. gr. sem ég kem aðeins inn á í sambandi við breytingartillögu hv. þm. Halldórs Blöndals.

Ég er alveg klár á því að núverandi umhverfisráðherra mun ekki misnota þetta vald en aðrir geta komið á eftir sem eru ekki eins góðir og núverandi hæstv. ráðherra. Mér finnst þetta einhvern veginn vera þetta eilífðar tog framkvæmdarvaldsins, að toga allt til sín og minnka áhrif þingsins og það er einmitt tog í þessa átt sem ég hef fyrirvara á og bið hæstv. ráðherra að skoða þetta á milli 2. og 3. umr.

Sem betur fer virðist vera góður friður um málið. Menn geta veitt rjúpuna í sátt og samlyndi við allt og alla en það eru náttúrlega mörg önnur atriði sem koma að viðgangi rjúpnastofnsins, eins og t.d. minkurinn sem hefur verið ræddur í dag og refurinn, ég tala ekki um hann. Ég held að ef eitthvað eigi að gera eigi að herða sóknina í að fækka þeim vargi. Þá vænkast hagur rjúpunnar. Ef maður talar við refaskyttur lýsa þeir því hvað sé að finna nálægt t.d. grenjum hjá refum, mikið af rjúpnaungum og eggjum og öðru slíku. Það eru því margir óvinir sem leynast víða við blessaða rjúpuna.

Auðvitað mun ég greiða frumvarpinu atkvæði, en bið hæstv. ráðherra að skoða ákvæðið við 3. gr. varðandi þetta algjöra afsal yfir til ráðherrans frá þinginu.

Breytingartillaga hv. þm. Halldórs Blöndals er þríþætt. Hann vill banna skotveiði á endur frá 31. desember. Hv. þingmaður hefur margt til síns máls og ég held að nefndin ætti að skoða þetta á milli 2. og 3. umr. Það er varla boðlegt að skjóta endur og gæsir til 31. mars þar sem orðið er mjög stutt í varp þegar að þeim tíma kemur. Í bændasamfélaginu í gamla daga var það talið að færa björg í bú þegar vorgæsin kom og hún var skotin og eins endurnar. Þetta er því alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. En hvort banna eigi það 31. desember, 28. febrúar eða 31. janúar er matsatriði. Sem gamall veiðimaður á endur tel ég í lagi að þetta verði alla vega til loka janúar en upp úr því held ég að mætti stytta það um tíma og þörf á að ræða það.

Hvort veiðitíminn byrjar 15. október eða 1. nóvember er bitamunur en ekki fjár varðandi rjúpuna. Ég held að hæstv. ráðherra eigi að hafa tól og tæki til að geta dregið úr ágangi veiðimanna í rjúpuna. Ég var einn af þeim sem vildu setja kvóta á hverja veiðiferð, en síðan verða skotveiðimenn að koma upp ákveðnum vinnureglum í þessu sem þeir munu virða upp á það að þeir geti haldið áfram skotveiðum á fugl og ekki þessar massaveiðar sem var vitað að væri í hundruð og þúsunda vís, að einstakir veiðimenn væru að veiða það yfir tímabilið. Þetta er sportveiði þar sem menn ganga sér til heilsugöngu og skjóta í jólamatinn. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi öll tæki og tól til þess arna þótt kvótinn sé ekki fyrir hendi í málinu.

Enn og aftur vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa komið með málið fram og lent því með friði og að menn geti byrjað að skjóta aftur rjúpu í haust. Þetta hefur gerst án þess að mikill hávaði og óánægja hafi verið í samfélaginu og ber að þakka það. Það er ekki oft sem svo vel tekst til í viðkvæmum málum eins og í þessu tilviki.

Virðulegi forseti. Ég tel að við eigum að skoða breytingartillöguna frá hv. þm. Halldóri Blöndal, því að veiða endur og gæsir til 31. mars er eiginlega alveg út úr kortinu. Ég held við ættum að skoða það mjög alvarlega. En ég mun sem sagt styðja frumvarpið og óska okkur öllum til hamingju með það.