Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 17:49:10 (5425)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:49]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég skil nú betur hvað hv. þingmaður átti við og ég get alveg tekið undir með honum að það getur verið mikilvægt að fá þetta á sama hátt því vissulega geta veiðitölurnar frá rjúpnakörlunum einmitt gefið slíkar vísbendingar og er gott að hafa til samanburðar við fyrri tíma.

Eitt af því sem er mikilvægt við þá lausn sem núna virðist vera að nást í þessari deilu er að veiðikortakerfið virðist ætla að sleppa út úr henni nokkurn veginn heilt og óskaddað, en þó nokkuð mótt, því þessi deila leiddi til þess að veiðikortakerfið í raun hrundi. En það hafði reynst og getur reynst ákaflega mikilvægt fyrir rannsóknirnar fyrir utan þá fjáruppsprettu sem það er og það er ánægjulegt að veiðimenn skuli hafa virt það og gengið inn í það kerfi með þeim þrótti sem þeir gerðu. Það kerfi var sett á að ég hygg í tíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í umhverfisráðuneytinu og ég held að eitt af því sem við þurfum að gera núna sé að tryggja öll saman það að veiðikortakerfið haldi áfram að virka þegar hinn nýi tími rennur upp í þessu því það sýnir betur en annað hvar veiðimenn taka rjúpuna og hefur orðið og verður vonandi áfram grundvöllur almennilegra rannsókna á þessu sviði. Ég tek undir með hv. þingmanni í þessu efni.