Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 17:51:05 (5426)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:51]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Frumvarp þetta um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum, á sér þá forsögu eins og hv. þingmenn þekkja og ástæðulaust er að fara yfir að hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra greip til aðgerða vegna mjög alvarlegrar stöðu rjúpnastofnsins seint og um síðir, reyndar allt of seint að mínu mati, og ákvað þriggja ára veiðistopp.

Árin þar á undan hafði m.a. sá sem hér stendur árangurslaust reynt ein tvö ef ekki þrjú haust að fá tekið á þessu máli. Ég hafði lagt fram fyrirspurnir hér á þingi sem gjarnan var ekki svarað fyrr en eftir að veiðitíminn var hafinn og ég hafði flutt þingsályktunartillögur sem sömuleiðis fengust ekki teknar fyrir fyrr en eftir að veiðitíminn var hafinn og var þá jafnan notað sem rök að ekkert yrði aðhafst úr þessu á þessu hausti. Þannig dróst það, því miður, að tekið væri á þessu máli a.m.k. í tvö þrjú haust eftir að flestum mönnum var orðið ljóst að stefndi í hreint óefni.

Auðvitað er þetta mál búið að vera lengi umdeilt og menn hafa tekist á um það hvort veiðin hafi umtalsverð, lítil eða engin áhrif á stofninn. En eitt er víst og það er að óhrekjandi vísbendingar komu fram bæði úr talningum og ekki síður þó, sem ég tel að eigi að taka mark á, að það var algerlega samdóma álit allra staðkunnugra manna á þeim svæðum þar sem rjúpan hefur ekki síst átt sitt uppvaxtarvarp og uppvaxtarlönd eins og á Vestfjörðum og Norðausturlandi, þ.e. að leitun var að mönnum sem ekki bar saman um að ástand stofnsins fór mjög hratt versnandi á árunum fyrir og í kringum 2000. Það dróst því að mínu mati meira en góðu hófi gegnir að grípa til skynsamlegra ráðstafana sem hefðu þá væntanlega getað orðið vægari en síðar varð niðurstaðan, þ.e. ef fyrr hefði verið gripið til þeirra.

Það varð engu að síður niðurstaða hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra að leggja til algert veiðistopp í þrjú ár. Þar var farin málamiðlunarleið því ef ég man rétt lagði Náttúrufræðistofnun til fimm ára bann og hæstv. fyrrverandi ráðherra bar þá fyrir sig að ekki hefði tekist samstaða um aðgerðir á þingi, svo sem sölubann og annað því um líkt, sem hefði mátt grípa til þannig að önnur úrræði væru þar af leiðandi ekki tiltæk og í höndum ráðherrans en þau að nýta heimildir til algerrar friðunar.

Það sem ég hafði lagt til árinu á undan var að veiðitíminn yrði styttur og flestum þeim sem ég hef borið mig saman við eða hafði á þeim tíma bar saman um að vænlegasta aðgerðin væri að stytta veiðitímann og taka framan af honum. Fyrir því færðu menn sérstaklega tvenn mjög veigamikil rök, annars vegar að það væri til verndar rjúpnastofninum sem ég held að hljóti að teljast óumdeilt. Einhver áhrif hefur það nú að stytta veiðitímann. Hitt sem ekki síður vegur þungt í mínum huga er að orðið var alveg augljóst þeim sem fylgdust með málum, eins og ég geri mjög vel á mínum heimaslóðum á Norðausturlandi og þar sem ég hef gengið til veiða á meðan þær voru leyfðar eða ég hafði brjóst í mér til þess að ganga til rjúpna, að eins og tíðarfar var orðið flest haust áður en til stoppsins kom þá skapaði það stórfelld vandræði að hefja veiðina svo snemma sem 15. október. Það var alauð jörð haust eftir haust þegar þetta gerðist og miklar bleytur jafnvel allt upp í 300–400 metra hæð yfir sjó. Þetta bauð upp á utanvegaakstur. Þetta bauð upp á mikinn akstur á forblautum moldarvegum inn til landsins og rjúpan átti sér að sjálfsögðu ekki viðreisnar von. Hún átti litla möguleika á alauðu landinu. Þetta er sú staða sem áfram blasir við ef tíðarfar verður svipað eða veðrátta eins og hún hefur verið flest undanfarin ár og fátt bendir til annars en að heldur sæki í hitt, að enn hlýni heldur en öfugt. Þá verða þessar sömu aðstæður uppi og þá er að mínu mati algerlega nauðsynlegt að hægt sé að stytta veiðitímann og þá á að gera það. Ég hefði því talið að það væri lágmark að ákveða strax sem reglu að veiðitíminn hæfist ekki fyrr en 1. nóvember og að jafnvel væru heimildir til að bæta þar frekar við hálfum mánuði í viðbót en hið gagnstæða. Svo eru líka þau rök sem, eins og ég segi, eru liður í því að stemma stigu við freistingum til að aka utan vega og ekki síður hitt að vegarslóðirnar sem notast er við þola auðvitað á engan hátt akstur ef enn eru bleytur og þýður og mætti segja af því margar sögur hvernig útreiðin var t.d. á norðausturhorninu, á moldarvegum þar á víðlendum móaheiðum og ásum inn til landsins í Norður-Þingeyjarsýslu, Norður-Múlasýslu og víðar. Það kvað jafnvel svo rammt að þessu að ónefndar björgunarsveitir voru nánast sólarhringum saman að bjarga mönnum sem festu bíla sína á blautum vegarslóðum og draga þá til byggða.

Auðvitað kæmi vel til greina að hafa í þessu sveigjanleika og að ráðherra hefði einfaldlega heimildir til að meta þetta eftir aðstæðum á hverju hausti. Gallinn er hins vegar sá að ýmislegt hangir á spýtunni og tilraunir bænda og ferðaþjónustuaðila til að gera það að útvegi að selja mönnum veiðileyfi, uppihald, leiðsögn og viðgjörning eru að sjálfsögðu talsvert háðar því að einhver festa sé í ákvörðun veiðitímans. Því held ég að betra sé að sá tími sem ákveðinn er og liggur fyrir haldi heldur en kannski hringla of mikið með hann. Það mælir frekar með því að þetta sé fest og þá reynt að taka mið af því hvað sé líklegt að henti og þá held ég að flest ef ekki allt mæli með því að færa tímann eitthvað aftur, t.d. um þessa 15 daga sem væru fólgnir í því að byrja 1. nóvember ár hvert.

Varðandi veiðistoppið sem nú hefur staðið í tvö haust af þremur sem ákveðin voru verð ég að segja alveg eins og er að það er með nokkurri eftirsjá að ég sé að hér er lagt til að menn ætla ekki að halda út þessi þrjú ár úr því sem komið var. Úr því að hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra tók á sig þá kollhríð sem því var samfara að ákveða þetta og stóð það af sér þá finnst mér að hæstv. núverandi umhverfisráðherra hefði alveg getað klárað þetta eina ár sem eftir var og staðið af sér þrýsting skotveiðimanna og slíkra aðila með þau veigamiklu og sterku rök að baki að þá héldu menn sig við það sem búið var að ákveða, kláruðu þessa tilraun og létu á það reyna til fulls hvort svona þriggja ára veiðistopp dygði til þess að rétta stofninn verulega við. Ég held að mun fleiri rök hefðu verið fyrir því heldur en hitt. Ég segi fyrir mig að mér finnst að okkur skotveiðimönnum, svo ég leyfi mér að taka þannig til orða, sé engin vorkunn í því að bíða þetta eina ár í viðbót.

Það eru sem betur fer gleðilegar vísbendingar um að stofninn hafi þegar tekið talsvert við sér, að þetta tveggja ára stopp hafi skipt máli. Það var nokkuð samdóma álit staðkunnugra manna og gangnamanna t.d. á heiðum í Þingeyjarsýslum að það hefði heldur brugðið til hins betra með viðgang stofnsins á því svæði og víðar um land þar sem maður fer um. Þó ekki sé lengra farið en hérna upp í Esjuhlíðarnar þá finnst manni bera talsvert meira á rjúpum en verið hefur að undanförnu. Þar kemur að vísu til að þar er um að ræða verndarsvæði sem hefur notið friðunar um nokkurt skeið eða a.m.k. Reykjanesskagi.

Ég held líka, vegna umræðna sem hér hafa verið um kvóta, sölubann og annað því um líkt, að eitt eru lög og reglur og boð og bönn sem menn reyna að innleiða í þessum efnum og annað það hugarfar, þau viðhorf og sá mórall sem menn reyna að innprenta og ala upp í sambandi við veiðarnar. Ég held að það sé mjög brýnt að ná magnveiðihugsuninni úr myndinni. Það væri vænlegast og best gert með því að reyna að innprenta mönnum þau viðhorf að það ætti að heyra til liðinni tíð. Nú eru allt aðrar aðstæður en voru á árum áður, fyrir áratugum svo maður segi ekki á öldum áður, þegar ákveðinn hópur manna hafði af veiðunum umtalsverðar tekjur og þær voru þeim lifibrauð, að stunda veiðar mánuðum saman á haustin, t.d. á þeim tíma sem rjúpan var verðmæt útflutningsvara.

Aldraðir menn sem ég kynntist á uppvaxtarárum mínum sögðu ævintýralegar sögur af því hversu miklar tekjur þeir gátu haft af veiðunum og hversu dýr skotin voru þannig að það þurfti að vanda hvert og eitt. Það kom t.d. ekki til greina, þegar menn höfðu bara 30 skot með sér, hlaðin að heiman að morgni að spandera þeim fyrr en vel bar saman.

Nú eru aðrir tímar og engin ástæða til þess að menn stundi magnveiðar til sölu. Ég held að sem auðlind sé rjúpan frekar til þess fallin að bændur og ferðaþjónusta á landinu geti haft af því einhverjar tekjur að veita mönnum leiðsögn og viðurgjörning í kringum veiðarnar, sem landeigendur þá eftir atvikum heimila mönnum í landi sínu. Ég tel það vænlegra en að horfa á tekjurnar af því að veiða þessa fugla í stórum stíl og selja þá. Það er a.m.k. mjög fjarri þankagangi mínum sem veiðimanns. Það hefur aldrei hvarflað að mér á minni lífsfæddri ævi, eins og maður segir, að selja villibráð sem ég hef veitt. Ég held að mikið mætti á ganga áður en ég yrði svo illa settur að ég gerði það. Hitt er annað að það getur verið gaman að gefa vinum sínum veiðina eða enn betra að leyfa þeim að njóta hennar með sér.

Hv. þm. Mörður Árnason nefndi að slíkt fyrirkomulag hefur verið innleitt í stangveiði með ágætum árangri. Ég hygg nú að við eigum ekki eftir að lesa í viðtölum við veiðimenn afrekssögur af því tagi að eitthvert holl hafi náð að landa á annað hundrað löxum á veiðidegi, eins og birtist á prenti fyrir ótrúlega fáum árum síðan. Ég held að það hugarfar sé svo hratt víkjandi, t.d. í heimi stangveiðanna, að menn mundu ekki vilja monta sig mikið af slíku í dag heldur upplifi veiðarnar á annan hátt. Það þarf að halda áfram að reyna að framkalla hugarfarsbreytingu af þessu tagi í sambandi við skotveiðina. Sjálfum finnst mér liggja gjörsamlega ljóst fyrir að það eru forréttindi, ef menn eru veiðimenn á annað borð, að eiga þess kost að ganga til veiða í landi eins og Íslandi og fá að veiða hófsamlega sér til matar, ánægju og yndisauka. Annað á það ekki að vera. Við eigum líka að bera fulla virðingu fyrir þeim, sem eru sjálfsagt vaxandi hluti þjóðarinnar, sem er þessi veiðimennska fjarlæg og jafnvel að menn hafi andúð á því að vera að veiða villt dýr þegar menn hafa enga þörf fyrir það til að komast af eins og áður var.

Við erum því að hluta til að miðla málum milli ólíkra menningarheima, ólíkra tíma og ólíkra viðhorfa. Það þarf að sýna tillitssemi og nærgætni í báðar áttir að mínu mati. Það er ekki alltaf gert í þessari umræðu og satt best að segja fer í taugarnar á mér þegar menn rótast í þessum málum með stóryrðum og af miklum tilfinningahita. Þá má oft ekki milli sjá, finnst mér, hverjir hafa verri hlutinn, veiðimenn eða aðrir. Með allra dónalegasta tölvupósti sem ég hef fengið — og köllum við þingmenn þó ekki allt ömmu okkar — eru hótunarbréf frá skotveiðimönnum. Þau hafa haft þau áhrif á mig að ég hef heldur harðnað í afstöðu gegn þeim sjónarmiðum sem þar hefur verið talað fyrir, svo að það sé alveg á hreinu. Ég verð ekki hrakinn undan með slíku þótt menn telji sig tala í umboði margra kjósenda eða hvað það nú er.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að umhverfisnefnd þingsins eigi að skoða mjög vandlega að bæta við það frumvarp sem hér er ákvæðum um að stytta veiðitímann um hálfan mánuð. Þessar ráðstafanir, svo langt sem þær ná, eru góðra gjalda verðar. Það er út af fyrir sig rétt sem hér var bent á, að það sé mikilvægt að til betri friðar horfi um þessi mál en verið hefur. Mér er það alveg ljóst að nefndinni er nokkur vandi á höndum með hvar hún á að draga mörkin. En ég hefði þó gjarnan viljað sjá að menn festu veiðitímann frá og með 1. nóvember í stað 15. október. Reyndar er flutt um það breytingartillaga af hv. 2. þm. Norðaust., Halldóri Blöndal.

Svo vil ég segja að lokum, frú forseti, um aðrar breytingartillögur sem hann flytur og varða fyrst og fremst veiðitímabil á öndum, og reyndar öðrum fuglategundum, að ég er mjög hallur undir að sömuleiðis það verði skoðað rækilega, hvort ekki geti verið ástæða til að gera þar breytingar á. Ég tel að hv. þingmaður hafi talsvert til síns máls í því að ástæða sé til að endurmeta þá hluti. Þar hafa tímamörk staðið föst býsna lengi og kannski ekki tekið mið af ýmsum breytingum sem við höfum séð, þar á meðal breyttu tíðarfari sem haft hefur áhrif og eins hvernig einstakir stofnar hafa þróast undanfarin ár og jafnvel áratugi.

Reyndar heyrðist mér hv. þingmaður, formaður umhverfisnefndar, hafa um það góð orð að nefndin ætlaði að skoða þetta allt á milli 2. og 3. umr. Þá er spurning hvort flutningsmaður fer þá ekki þá leið að kalla þessar breytingartillögur, eða a.m.k. þennan hluta þeirra, til baka við 2. umr. þannig að menn þurfi ekki að greiða atkvæði um þær fyrr en umhverfisnefnd hefur farið rækilega yfir þær, úr því að hún hefur ekki gert það nú þegar vegna þess þingmáls sem legið hefur inni í nefndinni. (Gripið fram í.) — Er það ekki rétt að frumvarp hv. þingmanns hafi verið komið til umhverfisnefndar? Nú, það hefur alla vega legið frammi í þinginu um skeið og var komið fram fyrir jól. Hv. þingmaður óskaði reyndar eftir því að vísa því umræðulaust til nefndar, þóttist ég vita, en það mætti andstöðu þannig að kannski hefur það ekki komist til nefndarinnar enn.

Þá vil ég segja að lokum: Ég sé ekki að okkur liggi nokkurn skapaðan hlut á að afgreiða þetta mál núna. Það varðar meira og minna tímamörk sem taka gildi næsta haust. Ég held að veiðimönnum hljóti að gefast nægur tími til undirbúnings í sumar og haust hvort sem þetta yrði að lögum gert í mars og jafnvel ekki fyrr en rétt fyrir þinglok, í byrjun maí. Ég tel að nefndin eigi ósköp einfaldlega að fara aftur með málið inn í nefndina og skoða breytingartillögur hv. þm. Halldórs Blöndals og það frumvarp sem hér liggur fyrir, en efni þess er að hluta til það sama. Nefndin ætti að fara mjög vel yfir málið þannig að við fáum einhverja leiðsögn, eftir ítarlega umfjöllun í nefndinni og eftir að nefndin hefur kallað til sín helstu málsaðila, um hvort ekki sé ástæða til að fara yfir málið í heild og samræma þessi tímamörk. Ég lýsi því t.d. yfir af minni hálfu að ég væri nokkuð vanbúinn að fara að ganga til atkvæða nákvæmlega um þetta eins og það liggur fyrir núna. Maður hefði gjarnan viljað sjá um þetta fjallað í nefndaráliti og hafa aðgang að umsögnum fagstofnana til að geta endanlega gert upp hug sinn til einstakra þátta. Þá á ég sérstaklega við stafliði a og b í breytingartillögu hv. 2. þm. Norðaust. á þskj. 925.

Mér væri, eins og ég hef þegar lýst, ekkert að vanbúnaði að greiða atkvæði um c-liðinn, enda er hann einfaldur og það mál þaulkannað og rætt sem lýtur að veiðitímabili rjúpunnar. Það er algjörlega áfram óbreytt og bjargföst sannfæring mín að þar væri skynsamlegt að gera þá breytingu.

Frú forseti. Ég held að ég hafi þá komið flestu því til skila sem ég ætlaði mér að nefna við þessa umræðu.