Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 18:10:26 (5427)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:10]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrir málefnalega umræðu. Margt ágætt hefur komið fram og ég held að það liggi fyrir að við þurfum að skoða hér breytingartillöguna, þ.e. tillögu nr. 2 við 3. gr. a. Ef hv. þingmenn misskilja textann — það hafa í það minnsta tveir þingmenn gert — þá er a.m.k. þess virði að skoða það því að hugmyndin var sú að þetta yrðu skýr lög.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að menn fóru í þetta og þessi breyting er til komin til að fjölga tækjunum sem ráðherra hefur þannig að ráðherra þurfi ekki að taka ákvörðun um jafnróttækar aðgerðir og algert veiðibann.

Aðalatriðið er, í stærra samhengi sem ég held að við hljótum að vera sammála um, að því fylgja mikil gæði að geta stundað skotveiðar. Menn hafa stundað fuglaveiðar á Íslandi frá landnámi. Það væri æskilegt að þannig yrði það um allan aldur. Sumt getum við sett í lögin en eins og kom fram hjá mörgum hv. þingmönnum þá liggur ábyrgðin líka hjá þeim sem stunda þessar veiðar. Menn verða að finna ábyrgðina hjá sjálfum sér, bæði sem einstaklingarnir og samtök þeirra. Það hafa menn sem betur fer gert, að gæta hófs í þessu. Það er svo einfalt og ég vona að það verði niðurstaðan í nútíð og framtíð.

En vegna þessarar umræðu verð ég að segja, sem hefur að vísu komið fram hjá sumum þingmönnum, að rjúpnaveiðar og andaveiðar, af því að þær hafa verið nefndar þótt það tengist ekki þessu frumvarpi, eru bannaðar. Þær veiðar eru bannaðar og það þarf heimild ráðherra til þess að leyfa þær. Við erum hins vegar að reyna að gera það kleift að stunda sjálfbærar veiðar og fá fleiri tæki til að hafa stjórn á veiðunum, sérstaklega til að minnka magnveiðina. Það liggur fyrir að þau eru af tvennum toga, í fyrsta lagi sölubann og hins vegar að taka af öll tvímæli um það að hægt sé að stjórna veiðunum innan daga og tíma sólarhrings. Þetta nær til allra tegunda þrátt fyrir að mesta umræðan hafi verið um rjúpuna og frumvarpið snúist náttúrlega að langstærstum hluta um hana. Það væri mjög slæmt ef við þyrftum á hverju þingi að taka til við að ræða um einstakar fuglategundir. Ég tel eðlilegra að ráðherra hafi þau stjórntæki sem menn fara af stað með hér til að stýra veiðum, ekki bara veiðum á rjúpu heldur og öðrum villtum dýrum.

Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni og ég er sammála mörgu af því sem hér hefur komið fram, að það þyrfti t.d. að taka sterkar á veiðum á mink og tófu. Ég vonast til að það verði gert. Einhver misskilningur virðist hafa komið fram, a.m.k. miðað við þær heimildir sem ég hef, varðandi það að ráðherra geti ekki friðað annað en þjóðlendur. Í það minnsta er það svo að allt landnám Ingólfs er friðað og fleiri svæði mætti nefna en einungis þjóðlendur.

Hér hafa menn rætt mikið um endur en svo því sé til haga haldið þá er, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, veiðiálag á öndum mjög stöðugt. Það fer frekar minnkandi ef eitthvað er. Það er almenna reglan. Ef ég skil hins vegar hv. þingmann rétt, sem lagði fram breytingartillögur hvað þetta varðar, þá hefur hann kannski frekar áhyggjur af ákveðnum tegundum anda en andastofninum í heild. En miðað við tölur og þær upplýsingar sem við höfum bestar er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því. Hins vegar hefur ráðherra tæki til að koma á svæðisbundinni friðun eins og komið hefur fram.

Ég vona að þessi umræða sem verður væntanlega áfram — menn eru ekki búnir þótt búið verði að ganga frá þessu frumvarpi sem ég vonast til að sjálfsögðu að verði samþykkt því það er mjög mikilvægt að hafa sátt um þessi mál. Ég held að mörg önnur mikilvæg mál bíði þingmanna, mjög mikilvæg mál og kannski ekki æskilegt að við séum sífellt að ræða smáatriði hvað þetta varðar. Það eru ákvarðanir ráðherra sem skipta máli og samkvæmt stjórnsýslulögum þarf ráðherra að færa rök fyrir ákvörðunum sínum, að þær séu byggðar á vísindalegum rökum og að þau viðhorf sem hér eru höfð í frammi séu rædd út frá þeim bestu mögulegum upplýsingum sem við höfum. En þrátt fyrir að tilfinningarök séu svo sannarlega rök líka er ég ekki viss um að það sé gott fyrir umræðuna eða menn komist að góðri niðurstöðu ef menn byggja skoðun sína fyrst og fremst á slíkum rökum.

Aðalatriðið er að sátt verði um þessa hluti og við getum haldið áfram sjálfbærum veiðum. Ég er þess sannfærður að frumvarpið sem hér liggur fyrir — og ég tek undir þakkir til ráðherra með frumvarpið — sé liður í því að við getum náð því markmiði. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir að við erum að fjölga þeim tækjum sem ráðherra hefur nú þegar til að stjórna veiðunum og það verður vonandi til þess að við sjáum hér á landi sjálfbærar veiðar um alla framtíð og ekki þurfi að koma til jafnróttækra aðgerða og veiðibanns.