Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 14:39:30 (5469)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:39]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Menn breyta ekki eingöngu til þess að breyta heldur hlýtur eitthvað að hafa verið að skipulaginu eins og það var. Ég tel að hæstv. ráðherra sé einmitt að fella þann dóm að ekki hafi verið gætt meðalhófs, það sé í raun gefið hér í skyn með orðunum. Mér finnst í rauninni tímabært að hæstv. ráðherra tali hreint út hvað það er nákvæmlega og hvaða ákvarðanir það eru sem bera þurfi undir ákveðna stjórn. Mér finnst það mjög mikilvægt.

Ég átta mig alls ekki á því að með þessu sé verið að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar, sérstaklega í ljósi þess að ráðherra skipar sjálf stjórnarmennina. Það er í rauninni fáheyrt að bera slíka vitleysu á borð fyrir fólk og almenning í landinu. Auðvitað trúir þessu enginn maður. Það er bara algjör della í hæstv. ráðherra að halda þessu fram. Það sjá allir í gegnum þetta.

Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti einmitt að taka þetta ákvæði til endurskoðunar eða þá að tala hreint út um hlutina og segja nákvæmlega frá því hvað var að í fyrra skipulagi stofnunarinnar.