Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:05:23 (5474)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:05]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað fyrra atriðið varðar og hæfisskilyrðið með setu í stjórn þá vil ég upplýsa og minna hæstv. ráðherra á að þau skilyrði sem voru í upphaflegu drögunum eru í lögunum um Fjármálaeftirlitið. Þau eru skilyrði þar til setu í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Sú röksemdafærsla að þetta sé of takmarkandi eða að mjög fáir geti tekið sæti í stjórn er því vitaskuld alveg fráleit.

Í öðru lagi vildi ég nefna það af því hér kom til umræðu c-liður 17. gr. sem hér á að taka út að þetta er eina tækið til þess að bregðast við hringamyndun í viðskiptalífinu, einasta tækið til þess að bregðast við nema í tilvikum þar sem um afbrot er að ræða. Þetta er einasta tækið sem er til staðar. Nú á að taka það út. Það gengur þvert á þá hugmyndafræði sem lagt var upp með þegar farið var af stað í þessa vinnu. Því er ekki nema von, virðulegi forseti, að þeir sem eru (Forseti hringir.) að fara yfir þetta núna botni hvorki upp né niður í ferðalagi hæstv. viðskiptaráðherra.