Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:06:38 (5475)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:06]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að Fjármálaeftirlitið var nefnt þá ætla ég að lesa upp 6. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn skulu búa yfir þekkingu á fjármagnsmarkaði og hafa haldgóða menntun sem nýtist á þessu sviði. Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust.“

Ég er að segja þetta hérna vegna þess að við erum að fara mjög svipaða leið hvað varðar Samkeppniseftirlitið og hvað varðar Fjármálaeftirlitið.

Svo er það annað sem ég var byrjuð á að tala um áðan þegar ég komst ekki lengra. Ef við hefðum haldið þessu ákvæði í 16. gr. þá hefði Samkeppniseftirlitið víðtækari heimildir til að krefjast skipulagsbreytinga en t.d. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA og norsk samkeppnisyfirvöld, þar sem heimild til að krefjast skipulagsbreytinga yrði ekki takmörkuð við að fyrirtækið hefði brotið gegn lögum. Þetta finnst mér mjög mikilvægt atriði.