Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:08:55 (5477)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:08]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Burt séð frá orðalagi eins og því að hér sé bjálfagangur í gangi o.s.frv. þá vil ég gjarnan koma inn á það sem hv. þingmaður sagði um að stjórnin væri sett stofnuninni til höfuðs. Núna er það þannig að ráðherra skipar forstjórann og getur rekið hann og forstjórinn á allt sitt lífsviðurværi undir því að halda sínu starfi. Miðað við það fyrirkomulag sem hér er fyrirhugað þá er hins vegar þriggja manna stjórn sem er skipuð til fjögurra ára að sjálfsögðu miklu óháðari ráðherranum en forstjórinn núna því að tveir af þessum þremur þurfa að hlíta vilja ráðherrans eftir þessa breytingu. Ég tel því að þetta sé miklu óháðara fyrirkomulag en í dag.

Svo vil ég minna á að varla líður sá mánuður eða vika að hæstv. stjórnarandstaða hvetji ekki ráðherra til þess að hlutast til um málefni eftirlitsstofnana.