Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:12:26 (5480)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:12]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það ræðu minni að verkefni Samkeppnisstofnunar eru þess eðlis að spurningar um eignarrétt koma alltaf upp. Þær koma alltaf upp. Starfsemi svona stofnunar er þess eðlis að hún jafnvel dregur úr athafnafrelsi manna með það að markmiði að tryggja samkeppni og hagsmuni neytenda. (Gripið fram í.) Þetta eru hagsmunir sem togast á enda fagna núna Samtök atvinnulífsins því sem aldrei fyrr að fá yfir sig svona veika löggjöf.

Þetta, þessi eignarréttarspurning, kemur alltaf upp. Hv. þingmaður veit það mætavel eins og sá er hér stendur að þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni. Þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir breytingum á eignarréttarákvæðinu. Það verður áfram við lýði. Það verður áfram að virða stjórnarskrána. Ég bara næ því ekki alveg að ákvæði sem hefur verið í lögum frá 1993, hefur reyndar komið til skoðunar í eitt skipti, sé (Forseti hringir.) allt í uppnámi út af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta er náttúrlega bara ... (Gripið fram í.)