Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:13:46 (5481)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:13]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að gera athugasemd við nokkur atriði sem komu fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Hv. þingmaður nefndi að með þeirri breytingu sem gerð væri á lögunum með þessu frumvarpi væri verið að veikja núgildandi samkeppnislög, þ.e. með því að fella niður c-lið núgildandi 17. gr. laganna, og hann taldi að samkvæmt þeirri heimild núgildandi laga væri samkeppnisyfirvöldum heimilt að brjóta upp og skipta upp fyrirtækjum. Hann tók sem dæmi matvörumarkaðinn í því sambandi. Ég vil benda hv. þingmanni á að þetta er nú ekki alveg rétt vegna þess að árið 2001 kom út skýrsla Samkeppnisstofnunar um matvörumarkaðinn. Í þeirri skýrslu kom skýrt fram að Samkeppnisstofnun taldi sig einmitt ekki á grundvelli þessa ákvæðis heimilt að skipta upp fyrirtækjum á matvörumarkaði vegna eignasamþjöppunar sem þar hafði átt sér stað.

Ég hlýt í framhaldinu að spyrja hv. þingmann: Er hann almennt þeirrar skoðunar, frú forseti, að það sé eðlilegt (Forseti hringir.) að veita samkeppnisyfirvöldum heimildir til þess að skipta upp fyrirtækjum án þess að þau hafi brotið lög?