Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:20:02 (5486)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:20]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega tveimur síðustu hv. þingmönnum sem komu í pontu því nú er að koma fram kjarni umræðunnar. Nú er að koma fram hverjir eru helstu riddararnir í því að reyna að veikja samkeppnislögin. Nú er að koma fram hvernig baráttan hefur farið fram í þessum efnum, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn hefur knúið Framsóknarflokkinn til þessarar niðurstöðu, enda hefur Framsóknarflokkurinn lagst algerlega á flótta og dregið út úr upphaflegu drögunum flest það sem máli skiptir. Niðurstaðan er því sú að það er ekkert nýtt í frumvarpinu, engin ný heimild, ekkert nýtt tæki. Það er bara eitt tæki sem er tekið brott. Niðurstaðan er því sú að verið er að veikja samkeppnislögin.

Virðulegi forseti. Þó hv. þingmaður berji sér á brjóst yfir því að málsaðilar skuli ekki koma beint að þessu finnst mér það ekki vera athugasemd sem dýpkar þá umræðu sem hér fer fram.