Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:22:56 (5488)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:22]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður koma að kjarna málsins í ræðu sinni. Það er vitaskuld affarasælast ef hér ríkir ákveðið jafnvægi, þ.e. að markaðurinn sé að einhverju leyti reglusettur en hefti ekki athafnafrelsið svo að til tjóns sé. Við erum að leita að þessu jafnvægi. Það skilar okkur mestu. Það skilar mestum arði fyrir samfélagið.

Ég er einmitt að benda á í umræðunni að það ríkir ekki jafnvægi, enda fagna engir frumvarpinu nema Samtök atvinnulífsins. Þau eru þau einu sem fagna frumvarpinu vegna þess að þau telja að þá verði athafnafrelsi þeirra ekki eins þröngur stakkur skorinn og í gildandi löggjöf. Þess vegna lýsa þau yfir sérstakri ánægju og Samtök atvinnulífsins hafa í gegnum tíðina unnið markvisst og hatrammt að því (Forseti hringir.) að reyna að veikja lögin og nú hafa þau náð fram því sem þau hafa stefnt að.