Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:44:49 (5490)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:44]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fer hér mikinn, talar m.a. um hæfisskilyrðin og lætur að því liggja að verið sé að draga úr. Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn skulu hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og menntun sem nýtist á þessu sviði.“

Hvernig skyldi þetta vera í dag? Með leyfi forseta stendur í 6. gr.:

„Ráðherra skipar formann og varaformann ráðsins [þá er verið að tala um samkeppnisráð] og skal þess gætt að þeir hafi ekki beinna og verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi sem lögin taka til.“

Í dag eru sem sagt bara gerðar hæfiskröfur til formanns og varaformanns samkeppnisráðs. Þegar hv. þingmaður talar eins og það sé bara augljóst að í stjórn samkeppniseftirlitsins verði skipaðir einhverjir flokksgæðingar, það er þannig sem talað er, held ég að hv. þingmaður ætti aðeins að velta því fyrir sér hverjir sitja í samkeppnisráði í dag. Það er ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en að þar hafi verið raðað inn miklum flokkshestum stjórnarflokkanna.

Hv. þingmaður talar um að húsleitarákvæðið hafi verið tekið út. Það er rétt. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ef um slíkt yrði að ræða skyldi það vera undir umsjón lögreglu. Ekki fannst leið til að útfæra þessa tillögu nefndarinnar en þannig er að nefnd á vegum forsætisráðherra er að skoða samskipti lögreglu, samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins í refsiréttarlegu tilliti og ekki er útilokað að ákvæði um þetta efni geti komið inn síðar. Ég vil líka geta þess að ESA má gera húsleit í heimahúsum, sbr. 22. gr. frumvarpsins, en það er ekki tilskipun frá Evrópusambandinu sem kallar á það að ákvæði það sem var í nefndarálitinu verði sett í lög.