Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:52:17 (5494)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:52]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nokkur atriði vöktu athygli mína í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Eitt var í sjálfu sér ekki nýtt af nálinni, fullyrðingar um að það sem samkeppnisyfirvöld skorti fyrst og fremst séu peningar og mannskapur. Hv. þingmaður lýsti því að stofnuninni hefði verið haldið í miklu fjársvelti og vildi kenna íhaldinu um að það hefði staðið fyrir því að halda stofnuninni í fjársvelti og veikja hana með því.

Ég bendi hv. þingmanni á það að frá 1998–2004 hafa fjárframlög til Samkeppnisstofnunar aukist um 87%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 29%. Þetta eru verulegir fjármunir sem hafa runnið aukalega til Samkeppnisstofnunar á þessu tímabili. Nú, samkvæmt nýjustu fjárlögum, eru fjárframlög til Samkeppnisstofnunar aukin enn fremur, um ríflega 10 millj. til viðbótar. Fjárframlög til Samkeppnisstofnunar á þessu tímabili hafa aukist um tæplega 100 millj.

Það vekur hins vegar athygli að á sama tíma, og það kemur fram í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers, hefur starfsmannafjöldi Samkeppnisstofnunar ekki aukist nema um 0,1 stöðugildi. Þetta eru þær aðstæður sem hafa átt sér stað. Þetta er allt fjársveltið sem hér er til umræðu. Ég blæs á allt tal um fjársvelti stofnunarinnar.

Það vekur líka athygli út af fyrir sig að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir telur slæmt að samkeppniseftirlit og Samkeppnisstofnun skuli ekki fá heimildir til að gera rannsóknir á heimilum stjórnenda fyrirtækja. Mér finnst mjög athyglisvert að hv. þingmanni þyki slæmt (Forseti hringir.) að eftirlitsaðilar fái ekki heimildir til að rannsaka svefnherbergi og stofur saklauss fólks. Ég minni á að það eru líka konur og börn (Forseti hringir.) sem búa á þessum heimilum og óeðlilegt að veita eftirlitsaðilum heimildir til að rannsaka slíkan vettvang.