Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:59:40 (5498)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:59]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. stjórnarandstæðingar tala oft um það að þingflokkar stjórnarsinna séu eins konar afgreiðslustofnanir fyrir hæstv. ríkisstjórn. Þegar svo Sjálfstæðisflokkurinn tekur sér góðan tíma til að skoða ákvæði í þessu frumvarpi sem við ræðum hér, sérstaklega ákvæðið um að skipta megi fyrirtækjum án þess að sekt liggi fyrir, er það kallað að hann hafi málið í gíslingu. Þetta er dálítið mótsagnakennt, frú forseti.

Gefum okkur þrjú fyrirtæki sem stunda harðvítuga samkeppni, tvö þeirra liggja í valnum og halda ekki áfram rekstri, hætta, en eitt þeirra heldur áfram í krafti góðrar stjórnunar og góðs reksturs. Það stendur eftir og breytir engu í verðlagningu eða þóknunum eða öðru slíku. Þá mætti, samkvæmt gildandi lögum, skipta því upp. Til hvers? Hvað ætla menn að gera ef verðfall verður á hlutabréfum í þessu félagi í kjölfarið? Hvað ætla menn að gera með eignarréttinn sem tryggður er í 72. gr. stjórnarskrárinnar? Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Það þarf sem sagt að bæta tjónið, frú forseti. Ég spyr: Til hvers á að kljúfa upp fyrirtæki sem misnotar ekki aðstöðu sína á neinn máta?

Varðandi hæfisskilyrði sem hv. þingmaður gerir að umræðuefni vil ég benda á það að Fjármálaeftirlitið fylgist bara með litlum hluta markaðarins, Samkeppnisstofnun fjallar hins vegar um allan markaðinn, meira að segja Háskóla Íslands sem er í samkeppni við aðra skóla. Það er eiginlega enginn Íslendingur sem lengur mætti vera í stjórn.