Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:04:08 (5500)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:04]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom ekki inn á það hvort þá ætti að bæta fyrirtækjum það tjón sem þau yrðu fyrir ef þeim yrði skipt upp án þess að hafa unnið neitt til saka. Ég spyr að því aftur.

Varðandi stjórnina er það þannig í dag að forstjórinn heyrir beint undir ráðherra, á allt sitt undir því að ráðherra reki hann ekki. Hann er í beinu ráðningarsambandi við ráðherra, einn ráðherra sem ræður.

Hv. þingmaður talaði um að forstjórinn væri núna í beinu ráðningarsambandi við þriggja manna stjórn sem er kosin til fjögurra ára. Stjórninni verður ekki sagt upp. Ráðherra hefur ekki áhrif á hana. Hún situr þarna í fjögur ár og það er miklu sjálfstæðari rekstur sem kemur út úr því þegar tveir af þessum þremur þurfa að segja forstjóranum upp á meðan ráðherra getur einn gert það í dag. Ég held að stofnunin sé miklu sjálfstæðari eftir en áður.