Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:05:18 (5501)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega furðuleg röksemd, þessi síðasta. Hv. þingmaður setur það hér fram að miðað við þær breytingar sem búið er að gera í þingflokki sjálfstæðismanna á lögunum um Samkeppnisstofnun séu stjórnin og Samkeppnisstofnun miklu sjálfstæðari en áður. Er hv. þingmaður virkilega að ýja að því að ráðherrann hafi verið með einhverjar pólitískar íhlutanir í þessari stofnun? (Gripið fram í.) Það mætti ætla það af því að hérna er það beinlínis sagt, með leyfi forseta:

„Þó að viðskiptaráðherra fari með yfirstjórn samkeppnismála er honum ekki ætlað að hafa bein afskipti af stjórn Samkeppniseftirlitsins og er því talið nauðsynlegt að sérstök stjórn fari með yfirstjórn stofnunarinnar …“

Ég veit ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi verið með neinar íhlutanir (Gripið fram í.) í sjálfstæði stofnunarinnar, þess vegna sé engin ástæða til að breyta skipulaginu (Gripið fram í: Spurðu forsætisráðherra.) út af því. Það er alvarlegt ef hv. þingmaður er að ýja að því að ráðherrann hafi misbeitt valdi sínu eins og mér fannst hann vera að gera.