Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:22:34 (5503)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:22]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum rætt hér nokkuð um hæfi stjórnarmanna og hv. þingmaður taldi eðlilegt að stjórnarmenn hefðu ekki hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu. Það er sjónarmið. — Ég vona að hv. þingmaður sé að hlýða. — Það er ákveðið sjónarmið en vandinn er sá að Samkeppniseftirlitið mun hafa eftirlit með öllu atvinnulífinu, mörgum opinberum stofnunum, meira að segja Háskóla Íslands þar sem flestir viskubrunnar á þessu sviði starfa. Hann er í samkeppni við aðra háskóla. Hann gæti lent í því að samkeppnisráð þyrfti að úrskurða þar á milli. Það er því orðið vandséð hverjir í atvinnulífinu, hvaða fólk, Íslendingar, eigi ekki einhverra hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu, annaðhvort sem starfsmenn fyrirtækja eða sem forstjórar eða stjórnendur.

Það er þess vegna sem menn hafa tekið þá ákvörðun að hafa ekki eins þröng hæfisskilyrði og eru í Fjármálaeftirlitinu sem fjallar bara um mjög lítinn þátt atvinnulífsins, þ.e. fjármálafyrirtæki og tryggingafyrirtæki. Þar er því miklu meira úrval fyrir utan þann þátt atvinnulífsins.

Það er talað um að stjórnarmenn taki ekki þátt í ákvörðun sem varðar þá eða fyrirtæki þeirra. Þetta er venjulegt ákvæði og á að koma í veg fyrir að menn taki ákvörðun um eigin mál.

Menn hafa síðan rætt töluvert um að verið sé að veikja samkeppniseftirlitið. Mín skoðun er sú að þriggja manna stjórn sem kosin er til fjögurra ára — ráðherra getur ekki sagt henni upp — sé a.m.k. óháðari ráðherra en forstjóri sem heyrir beint undir hann og þiggur öll sín laun frá honum og er mjög háður því að „vondur“ ráðherra gæti rekið hann, en að sjálfsögðu höfum við mjög góðan ráðherra núna.