Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:24:43 (5504)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:24]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. ráðherra. Ég ætla ekki að gefa núverandi ráðherra einkunn vegna þess að hún er fjarverandi í augnablikinu og getur ekki svarað fyrir sig af því að ég tel að hún hefði viljað gera það.

Varðandi skipan í samkeppnisráð eða nú stjórn Samkeppniseftirlitsins. Telur hv. þm. Pétur H. Blöndal að samkeppnisráð sem nú starfar sé vanhæft? Annað sem ég vil spyrja varðandi skipan í stjórn Samkeppniseftirlitsins og hugsanlega einhverjar takmarkandi reglur sem þar yrðu settar. Sem betur fer er ekki búið að koma öllu þjóðfélaginu út á markaðstorgið, það er enn þá hægt að finna fólk sem á ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta í fyrirtækjum og stofnunum. Væri ekki eðlilegt í þessu tilviki að leita inn á slíkar slóðir?

Það lá í orðum hv. þingmanns, eins og ég skildi þau, að hann vildi jafnvel útiloka háskóla vegna þess að þeir ættu í samkeppni núorðið. Er það ekki svolítið annað að kenna við háskóla, sem hugsanlega á í samkeppni við aðra skóla á einhverjum sviðum, en að eiga sjálfur persónulega beinna hagsmuna að gæta í fyrirtækinu eða fyrirtækjarekstri? Mér finnst ekki saman að jafna þarna.

Síðan tel ég að skoða mætti leiðir að auki sem Danir hafa farið. Danska forsætisráðuneytið skýrði frá því í gær, held ég að hafi verið, að á heimasíðu þess, og ég hef skoðað hana, væri að finna upplýsingar um hagsmunatengsl allra ráðherra í dönsku ríkisstjórninni. Þar er skilmerkilega gerð grein fyrir þeim. Í dag lagði ég inn fyrirspurn (Forseti hringir.) og ég vænti þess að hæstv. forsætisráðherra muni svara um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Það verður fróðlegt að hlusta á það svar.