Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:27:07 (5505)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:27]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að hið svokallaða markaðstorg sem hann talar um og óttast mikið stækkar sífellt. Meira að segja Háskóli Íslands er kominn í samkeppni við Háskólann í Reykjavík. Ef eitthvert mál kæmi upp þar væri stjórnarmaður sem er prófessor við Háskóla Íslands vanhæfur til að fjalla um það mál. Það getur því orðið mjög erfitt að finna einhvern Íslending sem ekki er í einhverjum tengslum við fyrirtæki sem í sívaxandi mæli taka þátt í samkeppnismarkaði.

Hv. þingmaður spurði líka af hverju stjórn væri yfir Samkeppniseftirlitinu en ekki yfir Neytendastofu? Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að það eru ekki nema sex starfsmenn hjá Neytendastofunni og það er dálítið ankannalegt að hafa þriggja manna stjórn yfir sex manns og kannski ástæðulaust, en þetta má ræða. Ég er mjög ánægður með að hv. þingmaður veltir upp þessum flötum því þetta getum við allt saman rætt í nefndinni og fengið skýringar á því af hverju ekki er sambærilegt stjórnarfyrirkomulag á þessu miklu minna fyrirtæki eða stofnun, sem er Neytendastofa, og Samkeppniseftirlitinu. Auk þess sem ég held að þær ákvarðanir sem Neytendastofan tekur séu ekki eins dramatískar eða hafi ekki eins miklar afleiðingar og þær sem Samkeppniseftirlitið tekur.

Upplýsingar hv. þingmanns um dönsku ríkisstjórnina og ráðherrana eru mjög athyglisverðar. Það var einmitt verið að ræða hérna að það liggi fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um siðareglur fyrir þingmenn. Það er mjög athyglisvert að skoða þetta og ég væri alveg til í að skoða það að tekin yrðu fram öll hagsmuna-, eigna- og alveg sérstaklega, frú forseti, skuldatengsl manna.