Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:30:27 (5507)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:30]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að leggja orð í belg varðandi frumvarpið sem hér er til umfjöllunar, þ.e. frumvarp til samkeppnislaga.

Fyrir það fyrsta vil ég taka fram að ég tel að þær kerfisbreytingar sem frumvarpið og önnur frumvörp sem verða til umræðu á eftir séu til bóta fyrir það umhverfi sem málið nær til. Ég held að kerfisbreytingar sem þar er gert ráð fyrir að gera séu skynsamlegar.

Mig langar í yfirferð minni einkum að víkja að fjórum atriðum sem koma fram í þessu frumvarpi. Þótt hæstv. viðskiptaráðherra sé ekki í húsinu núna fagna ég því að formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar skuli vera hér þar sem mig langar að biðja hv. þm. Pétur Blöndal og nefndina að taka til skoðunar fjögur atriði þessa frumvarps.

Í fyrsta lagi langar mig að víkja að ákvæðum 16. gr. frumvarpsins, sem varðar eftirlit með samkeppnishömlum. Þar segir að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða við tilteknar aðstæður. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins geta falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að stöðva brot gegn ákvæðum laganna eða bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Samkeppniseftirlitið getur beitt úrræðum bæði til breytingar á atferli og skipulagi, í hlutfalli við það brot sem framið hefur verið og nauðsynlegt telst til að stöðva það í reynd.“

Ég held að við þurfum ekkert að deila um að ef til þess kemur að þessu ákvæði verði beitt, sem ég tel reyndar mjög ólíklegt með hliðsjón af meðalhófsreglu og öðrum þeim ákvæðum sem stjórnvöldum ber að fara eftir við slíkar ákvarðanir, að um er að ræða mjög viðurhlutamikið inngrip í starfsemi fyrirtækja. Verði gripið til þessa úrræðis kann að vera að þeir sem í hlut eiga nýti sér þær kæruheimildir sem lögin gera ráð fyrir og eftir atvikum, telji þeir að á sér sé brotið, muni leita réttar síns fyrir dómstólum, fara með mál sín fyrir héraðsdóm og eftir atvikum Hæstarétt.

Í ákvæði 16. gr. þessa frumvarps er ekki gert ráð fyrir því að við slíkar aðstæður verði réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frestað. Með öðrum orðum: Taki Samkeppniseftirlitið ákvörðun á grundvelli 16. gr. frumvarpsins um að rétt sé að krefjast breytingar á skipulagi fyrirtækja þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að sú ákvörðun hafi áhrif þá þegar.

Ég hefði talið skynsamlegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki til athugunar hvort ekki sé rétt að við þær aðstæður, þegar þeir aðilar sem í hlut eiga vilja leita réttar síns fyrir dómstólum, að réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins verði frestað þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi víkja að varðandi þetta frumvarp.

Í annan stað vil ég nefna 17. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Telji Samkeppniseftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða, eins eða fleiri fyrirtækja, verði til eða slík staða styrkist getur stofnunin ógilt samruna …“

Með öðrum orðum: Ákvæðið, sem er í raun óbreytt frá núgildandi samkeppnislögum, gerir ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitinu verði veitt heimild til þess að ógilda samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja við tilteknar aðstæður. Í 2. mgr. 17. gr. er tekið fram að ákvæðið eigi einungis við um „samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 1 milljarður kr. eða meira.“ Þetta þýðir að ef tvö fyrirtæki vilja renna saman á Íslandi og heildarvelta þeirra er einn milljarður eða meira þá þurfa þau að fá til þess heimild hjá samkeppnisyfirvöldum og tilkynna þann samruna Samkeppniseftirlitinu. Því er síðan gert skylt að gefa niðurstöðu sína innan 30 daga, ef ég man rétt, um það hvort þetta sé heimilað.

Frumvarpið er lagt fram m.a. með hliðsjón af tillögum nefndar hæstv. viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi. Megintilgangurinn með þeim kerfisbreytingum sem þetta frumvarp og önnur byggja á er að reyna að tryggja að málsmeðferð hjá samkeppnisyfirvöldum verði hraðari en verið hefur. Ákveðin verkefni eru færð frá Samkeppnisstofnun til þess að hún geti sinnt þeim málum sem teljast mikilvægari. Það er ljóst að miðað við 17. gr. frumvarpsins eru afar fá fyrirtæki, alvörufyrirtæki á markaðnum, sem mega renna saman án þess að Samkeppniseftirlitið þurfi að hafa afskipti af því.

Ég fór yfir lista Frjálsrar verslunar um stærstu fyrirtæki landsins og þar kemur fram að velta 153 fyrirtækja nemur einum milljarði eða meira og velta 220 fyrirtækja nemur 500 millj. kr. eða meira. Þessu ákvæði samkeppnislaganna hefur ekki verið breytt í langan tíma. Ég tel að ef menn vilja ná fram hraða í málsmeðferð hjá samkeppnisyfirvöldum væri rétt, og ég óska eftir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, kanni hvort ekki sé rétt í meðförum nefndarinnar að hækka það veltuviðmið sem fram kemur í 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins. Það mundi létta mjög á stofnuninni og gera henni kleift að sinna verkefnum sem mikilvægari teljast á þessu sviði.

Í þriðja lagi, herra forseti, langar mig að víkja að ákvæði sem ég tel að kunni að vera nokkuð umdeilt. Það er 22. gr. frumvarpsins. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að því í ræðu sinni að henni þætti miður að þær húsleitarheimildir sem nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi lagði til að yrðu felldar inn í samkeppnislögin hefðu ekki ratað þar inn en ég verð að segja að ég tek ekki undir þær áhyggjur eða vonbrigði með hv. þingmanni. En í 22. gr. frumvarpsins er að finna sakleysislegt ákvæði sem er svohljóðandi, með leyfir forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að framkvæma vettvangsskoðun hjá íslenskum aðilum enda sé fylgt þeim starfsreglum sem settar eru í bókun 3 og bókun 4 með samningnum …“

Ákvæðið hljómar sakleysislega og leikmenn sem skoða þetta frumvarp gætu haldið að fulltrúar Eftirlitsstofnunar EFTA gætu bankað upp á í fyrirtækjum og kannað það hvernig starfsemin gengi fyrir sig og hvort þar færi ekki allt fram eftir eðlilegum reglum, yrði frumvarpið að lögum. Ekki kemur fram í þessu ákvæði frumvarpsins nákvæmlega um hvað er að ræða. En þegar menn lesa greinargerðina með frumvarpinu sést hvað er í rauninni á ferðinni. Ákvæðið felur nefnilega í sér að Eftirlitsstofnun EFTA verði heimilað að gera vettvangsrannsóknir á heimilum stjórnenda, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna að undangenginni heimild frá innlendum dómstólum. Þessi breyting á lögunum er réttlætt með því að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að gera þessa breytingu vegna skuldbindinga okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég mundi vilja fá hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að kanna hvort það sé virkilega nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að innleiða þessa reglu í íslenskan rétt, að innleiða þá meginreglu að Eftirlitsstofnun EFTA megi brjótast inn á heimili stjórnenda, framkvæmdastjóra og starfsmanna fyrirtækja við rannsókn mála. Ég vil að nefndin kanni hvort það sé nauðsynlegt vegna samningsskuldbindinga okkar að innleiða þá reglu.

Ég verð að taka fram að ég er á móti slíkum heimildum. Ég er á móti því að heimila eftirlitsaðilum að ráðast inn á heimili fólks nema í algjörum undantekningartilvikum. En verði niðurstaðan sú að nauðsynlegt sé að heimila þessa vettvangsrannsókn tel ég að nefndinni beri að skoða vel og vandlega hvort ekki sé ástæða til að fella þessar heimildir, eins og þær koma fram í greinargerðinni, inn í texta frumvarpsins, í ákvæðið sjálft. Það gengur náttúrlega ekki gagnvart borgurunum að ákvæðið segi einungis að Eftirlitsstofnun EFTA sé heimilt að gera vettvangsrannsókn og vísa bara til tveggja bókana, bókana 3 og 4 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, en ekki tekið fram hvað felst í þeim vettvangsrannsóknum. Ég tel að þegar um svo mikla íhlutun í friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er að ræða sé lágmarkið að það sé tekið sérstaklega og skýrt fram í lagatexta. Það er ágætlega útskýrt í greinargerð með frumvarpinu en ég tel að það nægi ekki að gera það þar heldur sé nauðsynlegt að það komi fram í lagatextanum sjálfum.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og ligg ekkert á henni, að við ættum að forðast það í lengstu lög að heimila slíkum eftirlitsstofnunum að ráðast inn á heimili fólks til að rannsaka mál sem þessi. Ég tel að þeir sem eru fylgjandi slíkum úrræðum eftirlitsstofnana ættu að velta því fyrir sér hvort slík ákvæði hafi þau varnaðaráhrif sem þeir telja. Ef stjórnendur fyrirtækja vita að verði þeir uppvísir að brotum eða grunaðir þá kunni eftirlitsaðilar að koma inn á heimili þeirra þá geyma þeir hinir sömu gögn sín annars staðar. Menn komast alltaf undan svona löguðu en við verðum að hafa það í huga að það eru fleiri en bara stjórnendur þessara fyrirtækja sem búa á heimilunum. Þar eru líka saklaus börn, makar og aðrir sem koma rannsókn þessara mála ekkert við. Það er óumdeilt að við slíkar rannsóknir mundu þessi úrræði bitna á þeim einnig. Ég tel því skynsamlegast að fara varlega í þessu sambandi.

Ég ítreka hins vegar að ef ákvæðið telst nauðsynlegt samkvæmt skuldbindingum okkar á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þá er algjört skilyrði að þær heimildir séu niðurnjörvaðar og komi skýrt fram í 22. gr. lagafrumvarpsins.

Í fjórða lagi, og það er síðasta atriðið sem ég ætla að víkja að varðandi efni frumvarpsins, er ákvæði 27. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar dómstóll fjallar um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins í máli sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar tekið ákvörðun í má úrlausn hans ekki brjóta í bága við þá ákvörðun. Enn fremur skal hann forðast að leysa úr máli á annan veg en þann sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að gera í máli sem hún hefur til meðferðar.“

Með öðrum orðum er hér á ferðinni framsal dómsvalds til alþjóðastofnana. Ákvæðið er dálítið sérstakt að því leyti að íslenskum dómstóli er óheimilt að úrskurða í máli á annan hátt en þann sem Eftirlitsstofnun eða dómstóll EFTA „kann“ að úrskurða í máli sem ekki liggur fyrir úrskurður í. Þetta er dálítið sérstakt.

En varðandi þetta ákvæði og það sem ég fjallaði um áðan, 22. gr., tel ég þörf á að kanna hvort nauðsynlegt sé samkvæmt skuldbindingum okkar að taka ákvæði þessa efnis upp í íslensk lög. Ég bendi á að í álitsgerð sem Davíð Þór Björgvinsson prófessor skilaði vegna þessa ákvæðis segir hann að þess séu ekki dæmi að íslenskir dómstólar hafi áður verið bundnir af ákvörðunum alþjóðlegra stofnana við úrlausn mála sem þeir eiga annars lögsögu í, eins og ákvæðið kveður á um.

Ég velti því fyrir mér hvort lögfesting slíks ákvæðis sé nauðsynleg. Ég held að þetta sé atriði sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd ætti að taka fyrir og kanna sérstaklega og ég velti því fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að taka það fram í lögum að ætlunin sé af hálfu Íslands að standa við samningsskuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum sem lögfestar hafa verið í íslenskan rétt. Er nauðsynlegt að það sé tekið sérstaklega fram í sérlögum eins og samkeppnislögunum að menn ætli að fara að skuldbindingum sínum og þeim lögum sem gilda í landinu? Ég er ekki viss um það, það má vera að ég hafi rangt fyrir mér í því sambandi en ég beini því til nefndarinnar að þetta verði kannað.

Í því sambandi bendi ég á að samkvæmt 3. gr. EES-samningsins segir að samningsaðilar skuli gera allar viðeigandi, almennar og sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja að staðið sé við þær skuldbindingar sem af samningnum leiða og að með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni beri við framkvæmd og beitingu ákvæða samningsins að túlka þau í samræmi við úrskurði Evrópudómstólsins. Það eru því mjög skýr ákvæði í EES-samningnum um einsleitni varðandi túlkun ákvæðanna og túlka má EES-samninginn þannig að íslenskir dómstólar séu að sínu leyti skuldbundnir til að túlka EES-reglurnar í samræmi við þá réttarframkvæmd sem gildir á því svæði sem reglunum er ætlað að ná til.

Ég leyfi mér að sama skapi að vísa til þeirra ákvæða sem birtast okkur í 106., 107., 108. og 109. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ég leyfi mér að efast um að tæknilega sé nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að tiltaka sérstaklega í lögum að við ætlum að fara eftir þeim þjóðréttarskuldbindingum sem við höfum þegar tekist á hendur.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir þau fjögur meginatriði sem ég tel nauðsynlegt að könnuð verði við meðferð málsins hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. að í fyrsta lagi sé nauðsynlegt að kanna hvort ekki sé rétt að bæta inn í 16. gr. ákvæði um frestun réttaráhrifa telji menn að á sér sé réttur brotinn og vilji tæma kæruleiðir eða fara dómstólaleiðina með ágreiningsmál sín. Í öðru lagi hvort ekki sé rétt að hækka veltuviðmið við samrunatilkynningar í samkeppnismálum. Í þriðja lagi hvort nauðsynlegt sé að lögfesta heimildir Eftirlitsstofnunar EFTA til vettvangskannana á heimilum einstaklinga og stjórnenda fyrirtækja og í fjórða lagi það sem ég gat um síðast varðandi framsal dómsvalds til alþjóðastofnana.

Að svo búnu, herra forseti, lýk ég máli mínu um frumvarpið en ítreka að ég tel að þær kerfisbreytingar sem það kveður á um séu til bóta.