Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:52:57 (5510)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:52]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var rétt hjá hv. þingmanni að það var ekki að ástæðulausu sem ég spurði hann um afstöðu hans til málsins því að hv. þingmaður lýsti því yfir í viðtali árið 2002, með leyfi forseta:

„Þar sem ég er mótfallinn samkeppnislögum þá tel ég að viðurlög eigi engin að vera.“

Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann væri andvígur samkeppnislögum og teldi að þau ættu ekki að vera í gildi. Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji hvort hann sé fylgjandi því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Viðhorf hv. þingmanns sem fram kom áðan, að hann teldi kerfisbreytingarnar vera til bóta, vöktu sérstaka athygli. Það verður aðeins hægt að túlka það á einn hátt, að verið sé að veikja gildandi samkeppnislög og af þeim ástæðum telji hv. þingmaður þetta vera til bóta, vegna þess að hann er í hjarta sínu á móti samkeppnislögum og hefur lýst því yfir að hann sé andvígur þeim og að ekki eigi að beita neinum refsingum, (Forseti hringir.) en hv. þingmaður lýsti því yfir áður en hann var kominn á þing.