Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:56:51 (5513)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:56]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lýsa mig andsnúinn því sem fram kom í andsvari hv. þm. Péturs H. Blöndals, ég vil bara þakka fyrir að nefndin muni taka þessi atriði til skoðunar. Ég tel að þau séu mikilvæg fyrir atvinnulífið í landinu og ekki síður fyrir þá aðila sem frumvarpið gerir ráð fyrir að hafa eftirlit með. Ég tel að þetta skipti líka miklu máli fyrir réttaröryggi manna og sérstaklega þeirra sem telja að á sér sé brotinn réttur og ástæða til þess að réttaráhrifum sé frestað, sérstaklega þegar horft er til þess með hvaða hætti samkeppnisyfirvöld hafa farið fram gagnvart fyrirtækjum í landinu. Þegar við förum yfir þær sektarákvarðanir sem samkeppnisráð hefur lagt á fyrirtæki og skoðum svo endanlega niðurstöðu fyrir Hæstarétti sést að það hefur verið ástæða fyrir fyrirtæki að gera athugasemdir við þann málatilbúnað sem Samkeppnisstofnun hefur haft uppi í samkeppnismálum til þessa.