Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:58:02 (5514)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:58]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þriðja atriðið sem hv. þingmaður nefndi, að taka mjög nákvæmt ákvæði úr greinargerð og setja það í frumvarpið eða lögin finnst mér vera sjálfsagður hlutur því borgarinn á að geta lesið lögin og á ekki að þurfa að fara í greinargerð með frumvarpi sem kannski var samþykkt fyrir löngu. En það er dálítið athyglisvert að í greininni er Eftirlitsstofnun EFTA veittur sterkari réttur en Samkeppniseftirlitinu íslenska.

Hið sama á við um 27. gr. og ég er með dálítið óbragð í munninum — vegna þess að ég lít á Ísland sem fullvalda ríki — með bæði ákvæðin og samskiptin við EFTA. Mig langar að skoða hvort hægt sé að koma inn ákvæði sem getur um að á meðan samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé í gildi, þá gildi ákvæðið þannig að gefið sé í skyn að Íslendingar hafi fallist á ákvæðin á meðan þeir vilji vera aðilar að samningnum en um leið og þeir segi honum upp gildi þau ekki lengur.