Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 16:59:18 (5515)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:59]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom einmitt að kjarna málsins varðandi 22. gr. Það er nefnilega þannig að þegar eftirlitsaðilum, lögreglu eða yfirvöldum eru yfir höfuð veittar heimildir sem teljast íþyngjandi fyrir borgarana er mjög nauðsynlegt að menn geti kynnt sér þær reglur, viti hvað felist í þeim og hverjar takmarkanir þeirra eru í þeim lögum sem birt eru. Slíkt kemur ekki í ljós í frumvarpinu. Það er bara beitt svokallaðri tilvísunaraðferð þar sem vísað er til bókunar 3 og 4 og þeir sem lesa textann geta ekki áttað sig á því að þar eru víðtækar húsleitarheimildir inni á heimilum fólks sem eftir atvikum er saklaust og kemur þeirri rannsókn sem um ræðir ekkert við. Það er því mjög mikilvægt að á þessu verði tekið.