Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:01:36 (5517)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:01]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni ábendinguna. Mér er alveg kunnugt um það sjónarmið sem hann reifaði hér varðandi innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt.

Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að mér hefur fundist hér í löggjafarstarfinu á hinu háa Alþingi sem menn trúi í rauninni öllu sem nýju neti sem frá Brussel kemur og telji nauðsynlegt að fella allt andmælalaust inn í íslenskan rétt sem þaðan kemur. Ég var einungis að beina því til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að taka sérstaklega til athugunar hvort það væri nauðsynlegt. Hér er um verulega íþyngjandi ákvæði að ræða og ég hvatti nefndina til að kanna skuldbindingar okkar að þjóðarrétti, sérstaklega með hliðsjón af því hvað við þyrftum að innleiða í landsrétt okkar.