Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:05:34 (5521)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:05]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég byrji ræðu mína eins og ég endaði þá síðustu: Ja, það er stórfurðulegt að verða vitni að þessum málflutningi. Er ekki ríkisstjórnin að setja þessi lög? Og hefur hann enga trú á þessari löggjöf? (Gripið fram í.)

Ég er alveg hissa á því að maðurinn sem gekk svo hart fram í því að brjóta niður eitt ákveðið fyrirtæki, Norðurljós, skuli allt í einu vera eins og heilagur maður og algerlega á móti allri lagasetningu — en segir að að vísu þurfi eitthvað að vera að bisa við þetta. Mér finnst þetta alveg stórundarlegt og engin samfella í þessum málflutningi. Ég hefði einmitt talið að ungir sjálfstæðismenn ættu að vera með okkur í Frjálslynda flokknum í að setja löggjöf og vera jákvæðir í garð þess að tekið sé á markaðsráðandi öflum þannig að ungir menn geti komið sér inn í atvinnulífið. Æ ofan í æ verðum við vitni að því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga trú á því. Hann vill ekki hafa markaðslögmál hvað varðar t.d. fiskinn, það á enginn að komast þar inn, þar eiga bara að vera þeir sem eru þar fyrir.