Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:18:05 (5527)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:18]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta fremur villandi málflutningur um stöðu samkeppnismála. Það var að heyra á hv. þingmanni eins og allt væri í stakasta lagi og menn horfðu til framtíðar. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að upplýsa hv. þingmann ef hún trúir þessu í raun og veru að árið 2004 tók 16 mánuði að fá úrskurð frá Samkeppnisstofnun. Það tók jafnvel á annað ár að fá mál til efnislegrar meðferðar. Auðvitað er þetta ekki í lagi. Þessi málaflokkur hefur drabbast niður í tíð Framsóknarflokksins, því miður. Þetta er mjög mikilvægur málaflokkur og ég er viss um að hv. þingmaður er mér sammála hvað það varðar. Því miður hefur stöðugildum þar ekki fjölgað frá árinu 1995, það var upplýst hér við umræðuna. Það sýnir í rauninni forgangsröðunina hjá Framsóknarflokknum að á sama tíma fjölgaði flokkurinn sendiherrum í kringum 70%. Það er auðvitað með ólíkindum.

Annað sem ég áttaði mig ekki á í ræðu hv. þingmanns var þetta með einfaldleikann og skilvirknina. Það væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti útskýrt fyrir mér hvernig það einfaldi stjórnsýsluna og geri hana skilvirkari að skipa einhverja nefnd til að horfa yfir öxlina á forstjóranum. Það væri mjög fróðlegt því ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Það var eins og hún ætti erfitt með að útskýra þetta. Ég tel í rauninni mjög erfitt að skýra þetta út með nokkrum hætti og þess vegna væri mjög fróðlegt að fá það fram hjá hv. þingmanni.