Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:24:08 (5531)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins hafa lýst ánægju með það frumvarp sem við ræðum hér. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur líka lýst ánægju með frumvarpið og hann styður það. Samt lýsti hann því yfir árið 2001 að hann væri á móti samkeppnislögum. Nú spyr ég hv. þingmann: Er þetta ekki alveg lýsandi dæmi um að Framsóknarflokkurinn hefur látið beygja sig í þessu máli? Eða er hv. þingmaður komin í hóp með Sigurði Kára Kristjánssyni sem vill ekki nein samkeppnislög og Samtökum atvinnulífsins sem hafa haft allt á hornum sér varðandi núgildandi samkeppnislög? Ég spyr hv. þingmann hvort fjallað hafi verið um málið í Framsóknarflokknum eftir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafði veikt frumvarpið verulega með því að fella brott húsleitarheimildir hjá forstöðumönnum fyrirtækja, eftir að hafa fellt brott og veikt hæfisskilyrði sem segja að þeir sem sitja í þessari þriggja manna stjórn megi ekki hafa neinna hagsmuna að gæta í atvinnulífinu og eftir að fellt var brott ákvæði 17. gr. sem hefur mikil varnaráhrif með því að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Þetta eru þrjú mikilvæg atriði.

Ég spyr einnig hvort Framsóknarflokkurinn hafi fjallað um frumvarpið eftir að búið var að veikja það svona í meðförum sjálfstæðismanna eða hvort Framsóknarflokkurinn hafi þurft að láta málið yfir sig ganga án þess að fá tækifæri til að ræða það í flokknum og hann hafi bara séð frumvarpið með þessari veikingu hér í þinginu.

Það væri líka fróðlegt að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að verið sé að einfalda stjórnsýsluna þegar sett er þriggja manna stjórn í stað samkeppnisráðs, það er allt og sumt sem verið er að einfalda þar, og hvort hún telji það til bóta að bera þurfi allar meiri háttar ákvarðanir undir þessa þriggja manna stjórn.