Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:40:06 (5536)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:40]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nú mjög sérstakt sem hér kom fram. Hv. þingmaður var farinn að tala um jafnréttisstofu undir lokin eins og hann viti það ekki að starfandi er Jafnréttisstofa í landinu. Hún heyrir reyndar undir annan ráðherra þar sem sú sem stendur hér fer ekki með jafnréttismál. Honum tókst að sjá í þessu frumvarpi eitthvað kvenfjandsamlegt, heyrðist mér, sem ég átta mig bara ekki á enda snýst þetta mál ekki um jafnrétti kynjanna. Þetta er frumvarp til samkeppnislaga.

En ég get sagt hv. þingmanni að ég er nýkomin úr Norræna húsinu þar sem ég flutti einmitt ræðu í tilefni 8. mars sem fjallaði um jafnrétti. En það er annar handleggur.

Hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir því þegar hann talar um fjársvelti að með þessu frumvarpi eða í tengslum við það er tekin ákvörðun um að hækka framlög til Samkeppniseftirlits um 60 millj. kr. á tveimur árum. Það er hægt að fjölga um sjö sérfræðinga. Það skiptir ekki litlu máli.

Þegar hann talar um pólitískt háða ríkisstofnun þá — ég er nú búin að fara svo oft yfir þetta í umræðunni að ég veit ekki hvort ég á að fara að endurtaka það einu sinni enn — þá er þetta bara klisja sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa fundið út að væri hugsanlega hægt að nota í þessari umræðu. Hugmyndaauðgin var nú ekki meiri en svo að þeir eru allir að klifa á þessu sama, að verið sé að búa til pólitíska stofnun, þegar sannleikurinn er sá að það er akkúrat farið í hina áttina (Gripið fram í: Kannski er eitthvað ...) með því að forstjórinn heyri ekki undir ráðherra (Gripið fram í.) heldur undir stjórn. Að sjálfsögðu eru settar kröfur um hæfi stjórnarmanna sem er reyndar ekki í sambandi við samkeppnisráð í dag nema hvað varðar formann og varaformann.

Hvað fær hv. þingmenn til þess að halda því fram að þarna eigi að setja í stjórn einhverja sérstaka forkólfa stjórnarflokkanna? Það er bara út í hött.