Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:43:55 (5538)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:43]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemdir við tvö atriði í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Í fyrsta lagi var það sá samjöfnuður sem hann taldi vera milli Samkeppniseftirlitsins annars vegar og hins vegar umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Það eru afskaplega gildar ástæður fyrir því að umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun heyra undir Alþingi en ekki undir framkvæmdarvaldið. Hlutverk þessara stofnana, umboðsmanns og Ríkisendurskoðunar er einfaldlega að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í því eðli liggur ástæðan fyrir því fyrirkomulagi.

Sömu rök gilda ekki um aðrar eftirlitsstofnanir í þjóðfélaginu sem eðli máls samkvæmt heyra undir framkvæmdarvaldið. Það á við um Samkeppniseftirlit alveg eins og fjölmargar aðrar stofnanir sem hafa mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna, hvort sem um er að ræða eftirlitsstofnanir á sviði umhverfismála, vinnuverndarmála eða annarra slíkra þátta. Þar á er grundvallarmunur og er engin ástæða til að tengja störf þeirra við þær eftirlitsstofnanir sem sérstaklega eiga að fylgjast með framkvæmdarvaldinu sem geta því ekki með nokkrum rökrænum hætti heyrt undir þetta sama framkvæmdarvald.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna tengist því sem áður hefur verið fjallað um í dag, að það sé verið að svipta Samkeppniseftirlitið sjálfstæði og færa undir hið pólitíska vald. Ég verð að segja að mér finnst sá málflutningur ekki halda vatni miðað við að fyrirkomulagið hefur fram að þessu verið þannig að ráðherraskipað samkeppnisráð tekur ákvarðanir um efnisatriði hvers einasta máls sem fer fyrir samkeppnisyfirvöld, a.m.k. um stærri málin. En hér gera menn forstjóra stofnunarinnar ábyrgan og búa til kæruleið til áfrýjunarnefndar en það er ekki verið að auka pólitísk afskipti.