Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:46:14 (5539)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:46]

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta innlegg í málið og þessi andsvör. Ég geri mér grein fyrir því að það eru mismunandi rök á bak við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. En við erum samt að tala um hliðstæður. Þetta eru ekki sambærilegar stofnanir en við þurfum virkt eftirlit með einkarekstri og opinberum rekstri.

Ég les ekki málið út frá núverandi ríkisstjórn, núverandi hæstv. viðskiptaráðherra eða persónum og leikendum í þessu dæmi. Ég horfi á þetta heildstætt fram í tímann því að við erum að setja lög sem eiga að gilda til frambúðar. Ég óttast að með þessu sjáum við hugsanlegt pólitískt inngrip, pólitíska hönd eða pólitísk augu sem horfa yfir öxlina á Samkeppniseftirlitinu. Þá getum við lent á villigötum seinna. Ég veit fullkomlega hvernig Samkeppnisstofnun starfar í dag. Það eina sem ég segi í því sambandi er að ég vil rjúfa þessi tengsl. Ég veit að þau eru til staðar í dag og ég tel það neikvætt. Ég vil rjúfa þau og vísa til þeirra röksemda sem ég færði fram fyrr í máli mínu.