Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:49:20 (5542)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:49]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom með þá athyglisverðu hugmynd að láta Samkeppniseftirlitið heyra undir Alþingi, sem og aðrar eftirlitsstofnanir, Fjármálaeftirlitið, Vinnueftirlitið o.s.frv. Þær stofnanir tékka ekki af framkvæmdarvaldið, þær eru að tékka atvinnulífið. Ef þær heyrðu beint undir Alþingi, hver ætti þá að hafa eftirlit með þeim, ef þær brygðust?

Fyrir utan löggjafarvald og fjárveitingavald hefur Alþingi jafnframt eftirlitsskyldu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við þingmenn getum gert athugasemdir og spurst fyrir um þessar eftirlitsstofnanir, hvort þær standi sig í stykkinu og séu vel reknar eða ekki. Það mundi hverfa ef þær heyrðu beint undir Alþingi. Ekki getur Alþingi farið að gagnrýna og hafa eftirlit með eigin gerðum.

Hv. þingmaður lagði auk þess til að ekki yrði miklu breytt eða hratt. Síðan lagði hann til slíka gjörbreytingu að allt yrði sett undir Alþingi. Það er því ekki alveg samræmi í þessu.

Hann talaði síðan mikið um samkeppnisstöðu kynjanna. Ég veit ekki almennilega hvað það er. Einu sinni var talað mikið um stéttabaráttu en minn flokkur talaði alltaf um að það væri stétt með stétt. Ég mundi vilja hafa það bara kyn með kyni en ekki einhverja baráttu á milli kynjanna. Ég sé ekki að það sé neinum til framdráttar. Ég held reyndar, og hef margoft sagt það, að inn í jafnréttið vanti meiri kröfu um arðsemi. Af hverju skyldi fyrirtæki eða stofnun ráða karlmann og borga honum hærri laun? Af hverju skyldi það gera það? Viðkomandi forstjóra hlýtur að vera alveg sama hvort hann græðir eða ekki.

Hv. þingmaður talaði um að starfsmenn Samkeppnisstofnunar væru í óvissu. Það er ljóst að eftir því sem við drögum málið lengur og vöndum okkur meira við lagasetninguna þeim mun lengur verða þeir í þeirri óvissu. Þetta stangast því allt dálítið á en ég held að þeir verði að bíða í óvissu meðan við vinnum faglega að þessu máli og gefum okkur tíma til að ígrunda öll þau atriði sem nefnd hafa verið í dag.